27.10.1941
Neðri deild: 6. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (331)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég veit ekki, hvort það hefur nokkra þýðingu að ræða þetta mál hér og reyna að skilgreina orsakir dýrtíðarinnar. Mér virðist, að eftir þeim ræðum, sem haldnar hafa verið af hæstv. ráðherrum í þessu

Stjarna (*) framan við nafn ræðumanns táknar, að ræðan sé prentuð eftir handriti innanþingsskrifara, óyfirlesin af ræðumanni.

máli, sé ekki efst á baugi nein óhlutdræg rannsókn á ástandinu, heldur kapphlaup um það, á hvern hátt þjóðin verði helzt blekkt. Ef ætlunin var að ræða málið í alvöru, þá átti ríkisstj. vitanlega að leggja fyrir okkur þm. nákvæmar skýrslur um afkomuna og þjóðarbúskapinn í heild.

Hæstv. ráðherrar hafa allir lýst yfir vilja sínum til að vernda kaupmátt í sl. krónu og stöðva hækkun verðlagsvísitölunnar, það eina, sem vantar, er réttur til að lögfesta kaupgjaldið. Þeir hafa reitt upp hnútasvipu og ætlað að herja niður dýrtíðina. Ég held, að þessi aðferð sé álíka viturleg og þegar Kyros forðum lét höggin dynja á bylgjum sjávarins. Þeir hamast á afleiðingunum, en reyna ekki að komast fyrir orsökina. Hæstv., viðskmrh. einblínir á verðlagsvísitöluna eins og orsakirnar sjáist þar. Verðlagsvísítalan er ekki einhlít. Við verðum fyrst og fremst að gæta að hlutfallinu á milli framboðs og eftirspurnar, á milli kaupgetunnar og þess, sem hægt er að kaupa fyrir peningana. Ég hef nú verið að reyna að gera mér einhverja hugmynd um, hvernig þetta hefur verið á þessu og síðasta ári. Ég viðurkenni, að ýmis atriði vantar í hjá mér, en ég ætla samt að setja hér fram athuganir mínar.

Ef við reynum að gera okkur grein fyrir kaupgetunni á árinu 1940, sjáum við, að á því ári seljum við vörur erlendis fyrir 132 millj. kr. Það, sem framleitt er til neyzlu innanlands, vil ég gizka á, að sé fyrir 100 millj. kr. Það er að vísu bara ágizkun, en kemur ekki að sök, þó að einhverju skakki, því að sama talan kemur háðum megin á reikninginn. Fé, sem kemur inn frá Bretum, vil ég gizka á, að séu ca. 3 millj. á mán., eða alls á árinu um 20 millj.

Kaupgetan er þá þessi:

132 millj.

100 – 20 –

252 millj.

Þá skulum við líta á framboðið

Innfluttar vörur fyrir .......... 69 millj. kr.

Framleitt til neyzlu innanlands . 100 — —

169 millj. kr.

Frá dregst : Það, sem erl. setu-

liðið kaupir fyrir, ca. ........ 7 — —

162 millj. kr.

Samkv. þessu er kaupgetan 90 millj. meiri en

framboðið.

Þetta var á árinu 1940. Nú kemur árið 1941,

frá 1. jan. til ágústloka

Seldar vörur erl. ............... 127 millj. kr.

Vörur framl. til neyzlu innanl. 100 — —

Fé, innkomið frá Bretum ..... 50 — —

277 millj. kr.

Framboðið :

Vörur frá útlöndum ............ 70 millj. kr.

Ísl. neyzluvörur ............... 100 — —

170 millj. kr.

Erl. setuliðið kaupir fyrir ...... 10 — —

160 millj. kr.

Kaupgetan er samkv. þessu 117 millj. umfram framboðið, eða bæði árin er kaupgetan 207 millj. umfram framboðið. Þetta er mikil upphæð, sem hlýtur að hafa töluverð áhrif á okkar atvinnulíf. Svo verður að taka tillit til skulda okkar erlendis, fragta, eyðslu Íslendinga í útlöndum. Hvað þýðir það, að þessi mikla kaupgeta er sköpuð í landinu án þess að skapist tilsvarandi framboð? Það þýðir, að kaupmátturinn fer í brask á gömlum eignum, þeim, sem fyrir eru. Auðmennirnir geta ekki keypt ný framleiðslutæki. Hús tvöfaldast í verði og meira til. Fasteignamatsverð á öllum lóðum og húsum í Rvík var 1932 20 millj. á lóðum og 67 millj. á húsum. Þá gengu hús kaupum og sölum fyrir 50% meira en fasteignamatsverð, en nú fyrir þrefalt fasteignamatsverð. Á sama tíma er húsaleigu haldið niðri. Það er ráðstöfun, sem er hægt að gera um nokkurt árabil, en ekki til frambúðar, — annaðhvort hækkar húsaleiga eða kemur nýtt hrun í þjóðfélagið.

Hvernig stendur kaupmáttur krónunnar viðvíkjandi bílunum? Hvernig er það með fiskiskipin? Þarna fer kaupmáttur krónunnar minnkandi. Þetta kemur ekki fram í vísitölu, en þarna er verið að grafa sundur grundvöllinn undan öllu, sem verðlagið byggist á. Afleiðingin af þessum minnkandi kaupmætti krónunnar, af öllu braskinu, sem leiðir af þessu alranga hlutfalli milli framboðs og eftirspurnar, — afleiðingin af því er dýrtíðin, sem að nokkru leyti kemur fram í verðvísitölunni nú, en þó enn meira síðar.

Eina leiðin til þess að vernda kaupmátt krónunnar er að koma aftur á jafnvægi milli kaupgetu og framboðs. Svo framarlega sem ekki er hægt að flytja inn nægilega mikið af vörum til þess að kaupa fyrir það fé, sem hér er nú afgangs, — og það er ekki hægt, því að til þess höfum við ekki nægan skipakost, — þá er ekki nema um eina leiða að gera, en hún er að taka stríðsgróðann út úr umferð.

Mér dettur í hug það, sem hæstv. viðskmrh. sagði í framsöguræðu sinni, þar sem hann var að gefa alls konar fögur fyrirheit um, hvernig það mundi verða eftir stríðið, ef frv. Framsfl. næði fram að ganga. Nú er það að gerast fyrir augunum á honum, að stríðsgróðamennirnir eru að hrifsa til sín framleiðslutækin og eru einnig farnir að seilast upp í sveitirnar eftir jörðunum. Ég held því, að framtíðararfurinn sé ekki eins glæsilegur og hann vill vera láta.

Stríðsgróðanum hefur nú verið veitt inn í landið að þeim hluta undanteknum, sem hefur verið frystur úti í Englandi. Hvað þessi gróði er mikill, er ekki gott að vita. Um það hefðu fyrst og fremst þurft að liggja fyrir skýrslur nú. Ég veit ekki, hvaða tölur ég á að nefna í sambandi við það, en ég gæti trúað, að allur stríðsgróðinn 1940–1941 væri ekki minni en 100 milljónir króna, — það er þægileg tala að nefna, og einhverja tölu verður að nefna við þennan útreikning, og er þá hægt að breyta henni, ef betri upplýsingar fengjust. Þessi stríðsgróði hefur skapað meiri kaupgetu og meiri völd í þessu landi en nokkurn tíma hafa þekkzt hér áður, nema ef vera kynni eftir svarta dauða.

Það er í raun og veru sams konar ástand hér á landi nú, en það eina, sem gerir, að fólk sér þetta ekki, er það, að atvinna hér hefur verið mikil, og peningaflóðið inn í landið hefur verið það mikið, að fólkið hefur ekki greint þá gerbreytingu, sem orðið hefur í þjóðlífinu. Það, sem því á að gera, ef viðskiptalífið á ekki að brjálast, er að taka stríðsgróðann af þessari yfirstétt. Ráðin til þess geta verið margs konar. Það er hægt bæði með sköttum, þvingunarráðstöfunum og öðru slíku, en það verður að búa svo um hnútana, að hún geti ekki sölsað undir sig eignir þjóðfélagsins eins og hún er byrjuð á og hefur þar með valdið gífurlegri röskun í þjóðarbúskapnum. Þetta er og verður aðalatriðið, þetta ranga hlutfall, þessi gífurlega kaupgeta, og þarna verður að grípa á kýlinu, ef á að lækna dýrtíðina. Sé þetta ekki gert, verða allar aðrar tilraunir til að verðbólgan hjaðni aðeins skottulækning.

Svo skulum við koma að vísitölunni og þeim atriðum, sem hæstv. ráðh. gerðu að umtalsefni. Það eru þrjú atriði, sem þeir telja, að hafi aðallega valdið dýrtíðinni. Það er verð á erlendum vörum, það er verð á innlendum vörum og það er kaupgjaldið. Um kaupið ber þegar að taka fram, að það hefur á þessu ári, að undanteknum nokkrum grunnkaupshækkunum, aðeins hækkað samkv. vísitölu, Þó eftir á, stundum þrem mánuðum. Nær því engri átt, að hækkun kaupsins hafi valdið dýrtíðinni. Það eina, sem kemur þar til greina, er mjög smávægileg víxláhrif. Þetta sést bezt, eins og ég held, að hæstv. félmrh. lafi bent á, að þegar kaupgjald var lögfest á síðasta ári, hækkaði vísitalan úr 112 upp í 146. Ekki var kaupgjaldið þar að verki. Það nær því engri átt að tala um, að kaupið drífi vísitöluna upp, þegar verkafólkið hefur samið þannig, að kaup hækkar aðeins skv. vísitölu og aðeins eftir á. Það er því alls ekki að ræða um neitt kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags. Kaupið mun aftur lækka, þegar vörurnar lækka í verði.

Þá kemur verðið á erlendu vörunni. Hæstv. viðskmrh. upplýsti, að fyrir hver fimm stig, sem erlenda varan hækkar, hækki framfærsluvísitalan um eitt stig. Honum láðist að taka fram, en hann sagði mér það á eftir, þegar ég spurði hann að því, að hér væri aðeins átt við þá erlenda vöru, sem kemur beint inn í framfærslukostnaðinn og vísitalan er því beinlínis reiknuð eftir. Hún veldur því ekki nema tiltölulega litlu af hækkuninni og auðvelt að draga úr því, t. d. með afnámi tolla eða öðru slíku. Það verður því innlenda varan, sem veldur mestri hækkuninni. 3/4 hlutar af hækkuninni stafa þaðan. Við skulum þá athuga og greina sundur ástæðurnar til hækkunar innlendu vörunnar . Um kaupið er það að segja, að það er þarna ekki atriði í verðhækkuninni nema að sama skapi og vísitalan hækkar verðið. Hvað er það þá, sem veldur þessari hækkun á innlendu vörunni, sem veldur mestu um hækkun vísitölunnar? Það er þá fyrst hækkun á erlendum hráefnum, sem þarf til innlendu framleiðslunnar, og í öðru lagi er það beinlínis „spekúlations“-sjónarmið. Varan er hækkuð í verði vegna þess, að svo er litið á, að eftirspurnin sé svo mikil, að óhætt sé að setja verðið svo hátt. Það er atriði, sem verður að grípa á, annars vegar hækkun á erlendu hráefnunum og hins vegar brask með þessa vöru. Við sjáum það á þeirri skilgreiningu, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. um hækkun vísitölunnar, að það eru í raun og veru þessi tvö atriði, sem koma til greina, annars vegar hækkun á erlendum hráefnum, sem þarf til iðnaðarins og landbúnaðarins, — en við hana mætti ráða með tollalækkunum og öðru slíku, — og hins vegar að varan verði seld dýrara, bara af því að menn geti leyft sér það, og það er í raun og veru afsakanlegt og eðlilegt, að menn geri það, eins og öllu er nú komið í þjóðfélaginu. En það er dálítið einkennilegt, að till. til að bæta úr þessu skuli koma fram á þeim grundvelli, sem hér er gert, að lögbinda kaup verkamanna, og meginið af þeim till., sem hér eru lagðar fram, er barátta gegn afleiðingunum, en að hinu, sem er aðalatriðið og nemur burt ástæðuna sjálfa, —að taka stríðsgróðann úr umferð, — er ekki komið.

Þegar þetta frumv. er brotið til mergjar, þá er þar í raun og veru eitt aðalatriði, en það er, að ekki megi hækka grunnkaupið, og allir hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, hafa í raun og veru verið sammála um, að launþegar ættu ekki að hafa rétt til að hækka grunnkaupið. Hitt sé spursmál, hvernig eigi að svipta þá þessum rétti, hvort eigi að banna þeim það með lögum eða fá þá til þess með góðu. Mér finnst það eiginlega hneyksli að halda því fram á þessum tímum, að launþegar hafi ekki rétt til að hækka grunnkaup. Það er hneyksli, að Alþ. skuli nú ekki bjóða t. d. kennurum grunnlaunahækkun. Um það er talað í hverjum einasta flokki af geysimiklum fjálgleik, að við þurfum að vernda þjóðerni okkar og menningu, en þó er sú stétt, sem fyrst og fremst á að viðhalda þessari menningu hjá þeirri komandi kynslóð, svo illa launuð, að það er til örgustu skammar, svo að enginn maður hér á Alþ. hefur reynt að verja það. Að undanförnu hefur verið sagt, að ríkið hafi verið svo fátækt, að það hafi ekki getað launað þessum mönnum betur. Þessi viðbára er nú ekki lengur til; það veit hver einasti hv. þm. Það er nóg til af peningum, og þá er það hneyksli, þegar launþegar verða að horfa fram á að hafa ekkert fyrir sig að leggja og sjá laun sín í raun og veru minnka, að fram skuli koma á Alþ. frv. um að banna þeim að bæta úr margra ára geysilegu óréttlæti með því m. a. að hækka grunnlaun kennara, á sama tíma og verið er að ausa tugum millj. til stríðsgróðamannanna í landinu. Það er gamla sagan að þrælbinda alþýðuna, um leið og peningarnir hrúgast að milljónamæringunum meira en nokkru sinni fyrr. Það á að taka fátæka mannsins lamb, meðan verið er að auka hjörð ríka mannsins. Milljónamæringarnir mega græða ótakmarkað, en kaup verkalýðsins á að lögbinda og ekki aðeins að banna honum að fá kaup sitt hækkað í samræmi við aukna dýrtíð, heldur einnig koma því svo fyrir, að allri ágengni af hálfu verkalýðsins verði gersamlega hætt, sérstaklega þó þeirra, sem lélegust hafa launin.

Þá fór hæstv. viðskmrh. um það fögrum orðum, að verkalýðurinn yrði hér að fórna einhverju, og það væri bezt fyrir hann sjálfan, annars yrðu þessi verðmæti, sem hann væri að safna, eyðilögð. Það sama var sagt árið 1939, þegar verið var að lögfesta kaupið þá. Hvers vegna átti verkalýðurinn þá að færa fórnir? Af því að annars mundu atvinnufyrirtækin stöðvast. Hver var reynslan? Fyrir hvað var hann að fórna? Til þess að skuldakóngarnir gætu orðið nógu ríkir. Og nú eiga þeir að fórna til þess, að skuldakóngarnir, sem nú eru orðnir milljónamæringar, hafi efni á að láta skipin liggja, þegar kreppan kemur, og geti sagt:„ Ég geri ekki út, svo framarlega sem það borgar sig ekki:“ Það er hart, að þannig skuli vera farið fram á, að verkamenn verði sviptir réttinum til að fá kaup sitt til að haldast í samræmi við dýrtíðina, það er hart, að farið skuli vera fram á slíkt, þegar inn í þjóðfélagið berast svo miklir peningar, að það veit ekki, hvað það á að gera við þá.

Ýmis ráð má bjóða til þess að halda dýrtíðinni niðri, en þau eru öll árangurslaus, svo framarlega sem ekki er skorið í skýlið sjálft, sem er stríðsgróði milljónamæringanna. Það er hægt að lækka tolla af erlendri vöru og skipuleggja vinnukraftinn til þess að framleiða vörur í landinu, en þetta eru allt ráðstafanir, sem fyrst öðlast fullt gildi, þegar því, sem hefur gerbreytt undirstöðu atvinnulífsins, þessum mikla stríðsgróða, hefur verið kippt burt úr umferð.

Hæstv. viðskmrh. kom líka að því í ræða sinni, að það væri ekki nóg að lögfesta kaupið, það væri líka annað, sem þyrfti að gera viðvíkjandi verkalýðnum. Það undrar mig ekki, að hæstv. atvmrh. skyldi leggja eins ríka blessun á þessa framsöguræðu og hann gerði. Það, sem hæstv. viðskmrh, sagði, var þetta: „Við verðum að skapa hæfilegt jafnvægi á framboð og eftirspurn vinnuaflsins í samráði við forráðamenn þeirra erlendu herja hér á landi, og þetta verður að framkvæma með festu.“ Það var ekki nóg að lögfesta kaupið. Það var því ekki nóg að koma því til leiðar, að kaup verkalýðsins fengi ekki að hækka í hlutfalli við dýrtíðina. Það átti líka að koma því til leiðar í samráði við þau erlendu herveldi hér á landi, að verkalýðurinn fengi ekki að ráða, hvar hann ynni. Og þetta átti að framkvæma með festu! Það á víst að gera það með meiri festu en þegar taka á stríðsgróðann af milljónamæringunum. Hvað þýðir þetta? Það þýðir, að hér á að koma á þrælahaldi. Það þýðir það, að yfirstéttirnar eiga að geta sagt verkalýðnum fyrir um, hvar hann skuli vinna og fyrir hvað. Það þýðir það, að segja á við verkalýðinn: „Heyrðu góði! Þú mátt ekki fara í Bretavinnu á morgun, þú átt að vinna hjá Kveldúlfi.“

Hér er ekki nema um tvennt að velja. Annaðhvort verður hér þrælahald, eins og þjóðstjórnin stefnir að, eða það verður að taka stríðsgróðann af yfirstéttunum. Ef hvorugt verður gert, verður ekki komizt hjá hruni. Spurningin er: Á að nýta stríðsgróðann með því að taka hann af auðkýfingunum, eða á að hneppa verkalýðinn í þrældóm fyrir yfirstéttina? Það er merkilegt, að eitt virðist yfirstéttin hafa lært af hernáminu. Hún hefur lært, hvers virði vinnuaflið er. Ég man, að við fjárlagaumr. s. 1. vetur var ég að minnast á, hvaða hætta væri í því, að vinnuaflið væri tekið úr nothæfri framleiðslu og sett í hernaðaraðgerðir, og var að reyna að benda hv. þm. á af veikum mætti, að það væri þetta vinnuafl, sem skapaði allt, sem einhvers virði væri fyrir okkur. Ég man, hverju hæstv. atvmrh. svaraði þá. Hann sagði : „Það nær engri átt að setja verkamenn í þetta, meðan nóg er af vinnu annars staðar.“ Það var gamli hugsunarhátturinn, sem kom þarna fram, að þetta vinnuafl væri eitthvert dæmalaust fyrirbrigði, og miklir einstakir vandræðamenn væru þessir verkamenn. Þeir væru alltaf að heimta vinnu, og þeir væru alltaf atvinnulausir, og mikið hefði það þess vegna verið gott, þegar Bretavinnan kom, því að þá hefðu þeir getað farið þangað, og þá væri maður laus við þá. En ég býst við, að þeir fari nú að skilja, hvers konar ráðstöfun það var að láta um 2 þús. verkamenn ganga atvinnulausa árum saman, sem biðu eftir að fá að rækta landið og framleiða nytsama hluti. Þá var hægt að halda þeim í skefjum og þeirra kröfum. Þá þurfti ekkert annað en að láta atvinnuleysissvipuna hvína yfir höfði þeirra. En nú, þegar atvinnuleysið er ekki lengur til, þá er ekki lengur hægt að grípa til þess ráðs. Þá er óttazt, að verkamenn verði of voldugir, því að þeir finni, hvers virði þeir eru og þeirra vinnuafl, þegar farið er að sækjast eftir þeim. Það er gamla sagan, sem endurtekur sig, þegar verkamenn þurfa ekki að biðja um það eins og einhverja náð að fá að vinna, finna til máttar síns, finna, að þeir eru það skapandi afl í þjóðfélaginu. Til hvaða úrræðis vilja atvinnurekendurnir þá grípa? Þeir vilja grípa til þrælahalds, og það er það, sem verið er að stofna til með lagasetningu eins og þessari.

Það hefur verið tekið fram í umr., að það eru aðeins leiðirnar, sem þjóðstjórnarflokkana skilur á um hér. Markið er jafnfagurt hjá þeim öllum, það sama hjá öllum, að halda kaupinu niðri, ágreiningurinn aðeins um, hvaða leið sé sigurvænlegust, hvort heppilegra sé að lögfesta kaupið eða fá verkamenn til þess á einhvern kristilegan hátt að hækka það ekki.

Mér þykir rétt að minnast á það, áður en ég fer inn á að ræða afstöðu einstakra stjórnarfl. í sambandi við þetta mál, að sameiginlega hafa þeir allir unnið að því að lækka krónuna í apríl 1939. Sameiginlega voru þeir allir með l., sem þá voru sett um að binda verð krónunnar við sterlingspundið. Sameiginlega hafa þeir allir staðið að því að leyna almenning, hvað stríðsgróðinn var mikill, meðan verið var að yfirfæra hann 1940. Sameiginlega hafa þeir staðið að því að yfirfæra allan ísfisksgróðann ótakmarkað, marga tugi millj. kr.

Ég hygg, að hægt hefði verið að flytja inn miklu meira, ef Framsfl. hefði ekki staðið svo fast á sinni verzlunarpólitík og Sjálfstfl. stutt hann til þess, ekki af umhyggju fyrir kaupmannastéttinni, heldur vegna þess, að togaraeigendur þurftu að koma sér vel við Framsfl. Í ræðum þeim, sem hér hafa verið haldnar, hefur komið skýrt í ljós afstaða þessara flokka.

Sjálfstfl. tvístígur í málinu, eins og fram kom í ræðu hæstv. atvmrh., þó að augljóst sé, að eina raunverulega markmið hans er að halda kaupinu niðri. Það getur verið gott fyrir Sjálfstfl. að hafa bæði verkamenn og milljónaeigendur innan vébanda sinna, en annað mál er það, hve mikla stefnufestu það skapar flokknum. — Af því, sem fram hefur komið, verður ekki annað séð en takmark flokksins sé það að halda kaupgjaldinu niðri, jafnframt því, að stríðsgróðanum sé haldið óskertum. Það kann að vera togazt á um þetta innan flokksins, og það getur vel farið þannig, að svo fast verði togað, að allt slitni um síðir, en það er a. m. k. ekki að þessu komið enn þá.

Hjá Framsfl. kemur afstaða yfirstéttarinnar skýrast í ljós, þótt undarlegt megi virðast, og það er fyrir þá sök, að hann treystir sér til að láta hana koma fram, vegna þess, hvernig, fylgi hans er háttað, en þetta getur Sjálfstfl. ekki leyft sér. Það fer ekki mikið fyrir verkamannafylgi Framsfl., svo að hann getur leyft sér að tala opinskátt um lögfestingu kaupgjaldsins. En eftirtektarvert var, að í grg. þessa flokks fyrir afstöðu sinni kom ekki fram, eins og alltaf áður, þegar um slíkt hefur verið að ræða, að hann væri nú í rauninni algerlega andvígur þessari leið. Þetta getur auðsjáanlega komizt upp í vana, eins og annað.

Þá er afstaða Alþfl., og þarf ekki að fara mörgum orðum um hana. Það er við því búizt, að kosningar séu nú fram undan, og getur það ef til vill skýrt afstöðu þess flokks. Fyrir síðustu kosningar lýsti flokkurinn einnig yfir því, að hann væri á móti lækkun krónunnar og sagðist aldrei mundu ganga til samstarfs við íhaldið um gengislækkun. En eftir kosningarnar gekk hann í þjóðstjórnina til þess að eiga þátt í að koma gengislækkuninni fram. Þegar Alþfl. dró ráðh. sinn út úr stj., var ástæðan sú, að flokkurinn vildi ekki taka þátt í því að lögfesta kaupið hjá vinnuhluta verkalýðsins, en síðar lagði hann til annan ráðh. í stj. og lét hann vinna með hinum að því að lögfesta kaupgjaldið hjá öllum verkalýð. Nú segist Alþfl. aftur vera á móti lögfestingu kaupgjalds. Ég veit ekki, hve margir verða til að trúa því, — og hver efast um, að hann yrði með lögfestingu kaupsins, ef kosningar væru um garð gengnar, og einkum þó ef hann fengi að hafa ráðh. í stj., því að það virðist nú vera orðið honum aðalatriði? Ég er hræddur um, að flokkur, sem hefur ekkert lært af reynslu, segjum, undanfarinna fimm ára, flokkur, sem tapar þrem þingsætum við síðustu kosningar, vegna þess að hann stendur á móti sameiningu verkalýðsins, og gengur svo í þjóðstj. til þess að lögfesta kaupgjaldið, — ég er hræddur um, að sá flokkur mundi ekki hika við að fara í stj. á ný til þess að vinna þar sams konar verk og áður.

Þessir flokkar hafa nú gert hverja skyssuna af annarri, síðan þeir tóku við völdum. Þeir hafa t. d. valdið stórkostlegri röskun á þjóðarbúskap okkar með því að láta gífurlegan stríðsgróða safnast á fárra manna hendur. Og nú ætla þeir að ganga til kosninga. Ég efast ekki um, að nú verði gefin fögur loforð, eins og oft áður, íhaldið þykist eflaust ætla að útrýma nefndafargani Framsfl., en framsóknarmenn munu tala hátt á móti milljónaeigendunum. En ef fólkið spyr þá, hvað þeir ætli að gera að kosningum loknum, hverju ætla þeir þá að svara Vísir og Morgunblaðið hafa reyndar svarað þessari spurningu og sagt, að þeir ætli að mynda þjóðstj. aftur, og ég efast ekki um, að sú stj. mundi lögfesta kaupið. Það er því í rauninni helber skrípaleikur, sem hér er verið að leika. Hv. þm. þora ekki að lögfesta kaupið fyrr en kosningar hafa farið fram. En ég held, að fólkið fari nú að sjá í gegnum þennan skrípaleik.

Viðvíkjandi afstöðu verkamanna þarf ég ekki margt að segja. Réttur þeirra er ótvíræður. En ég veit, að valdhafarnir ætla sér ekki að taka tillit til hans fremur en áður, því að þeir hafa jafnan troðið á þeim rétti. En verkalýðurinn hefur ekki aðeins rétt í þessu máli, heldur líka meira vald en áður, vegna þess, hve nú er mikil þörf á vinnuafli hans. Og það bæri vitni um nokkra skynsemi valdhafanna, ef þeir gerðu ráð fyrir þessu í reikningi sínum.