28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (336)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég hef því miður ekki haft aðstöðu til að hlýða á ræður þær, er hér hafa verið fluttar, nema að litlu leyti. Sannleikurinn er sá, að ræða hæstv. viðskmrh. í gær er hin eina, sem ég get svarað hér, af fyrrnefndri ástæðu. Ég þarf raunar ekki að tala langt mál honum til andsvara, en nokkrar aths. verð ég þó að gera.

Hæstv. ráðh. sagði, að allt frá upphafi stríðsins hefði mikið verið rætt um nauðsynina á því að berjast gegn dýrtíðinni, og lét hann í ljós óánægju sína yfir því, að lítið hefði orðið úr framkvæmdum í þessa átt, án þess þó að skella skuldinni af því á einn flokk öðrum fremur. En hann sagði þó, að öllum till. um þetta hefði verið komið fyrir kattarnef.

Ég veit, að ég þarf ekki að skerpa athygli hæstv. ráðh. fyrir því, að þær till., sem fram

hafa komið, hefðu orðið léttvægar til jafnvægis við þær ráðstafanir, sem orðið hafa til að auka á dýrtíðina og ríkisstj. hefur ekki séð sér fært að leggjast á móti, og á ég þá sérstaklega við það, er talað hefur verið um, að skylt væri að festa farmgjöldin eða lækka þau jafnvel niður í það, sem var fyrir stríð. En það er nú upplýst, að ekki hefur orðið breyt. á farmgjöldunum frá því, er vísitalan var 127, og þar til hún var komin upp í 172, eins og nú er. Þessi hækkun vísitölunnar stafar sem sé aðallega af verðlækkun á innlendum afurðum. En hæstv. ráðh. veit, að ríkisstj. hefur skort vald og raunar líka vilja til að stöðva þá verðhækkun, og á ég þar ekki fremur við hann en aðra hæstv. ráðh. Þegar deilt er á ríkisstj. fyrir að hafa ekki spornað við hækkun vísitölunnar, er því í rauninni aðallega verið að deila á hana fyrir að hafa ekki stöðvað þessa verðhækkun á innlendum vörutegundum. Þessari ákæru er ekki hægt að beina að þeim mönnum, sem talið hafa, að landbúnaðurinn hefði þörf þessarar verðhækkunar.

Hæstv. ráðh. beinir athygli Alþ., að því, að ef farin væri sú leið, er ég hef mælt með, þá hefði ríkisstj. ekki annað við að styðjast en dýrtíðarl. frá síðasta þingi. En ég vil þá vekja athygli á því, að aðstaða stj. til að beita þeim l. er önnur nú en þá. Frá mínu sjónarmiði er aðstaðan til að beita vopninu gerbreytt, vegna þeirrar verðhækkunar, sem þegar er orðin á innlendum afurðum. Ef svo er litið á, að innlendar vörur hafi þegar hækkað nóg, eða eins og bændum er þörf á, þá er hægt að nota gamla vopnið til að stöðva dýrtíðina í heild.

Ég vil spyrja hv. Alþ., hvort það telji, að það hefði verið þægilegt fyrir hæstv. landbrh. að þurfa að beita aðstöðu sinni til að hindra, að bændur fengju það verð fyrir afurðir sínar, sem þeir töldu sig verða að fá. En þessi aðstaða hans gerbreytist um leið og þessi verðhækkun hefur farið fram. Mér dettur því ekki í hug, að hæstv. viðskmrh. geti staðið á því, að aðstaða ríkisstj. sé ekki önnur eftir að hún hefur fengið heimild til að fara frjálsar leiðir.

Hæstv. ráðh. spurði, hví við, sem getum nú sætt okkur við frjálsu leiðina, höfum ekki getað það áður. Þessu hef ég í rauninni þegar svarað. Þessi leið var þá óvirk, því að ríkisstj. var þá ekki megnug þess að stöðva verðhækkunina. (Viðskmrh.: Er hún færari um, það nú?). Já. hún er miklu færari um það nú. (Viðskmrh.: Hlustaði hæstv. ráðh. á flokksmann sinn, sem talaði hér næst á undan honum?). Það er nú svo í okkar flokki, að við erum vanir að hlusta hver á annan, þó að hver haldi sinni skoðun. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að í Sjálfstfl., fremur en öðrum flokkum, séu allir sammála um það, hvernig ráða skuli bót á vandræðunum. Og mig furðar ekkert á því, þó að hv. þm. A.-Húnv. láti í ljós nokkurn ugg um það, að bændur mundu ekki telja sínum hag að öllu borgið með þessu móti.

Ég fór ekkert dult með það, að ég tel, að að því að festa afurðaverð og kaupgjald sé bændum bundinn þyngri baggi en verkalýðnum. Þess vegna er ég ekkert hissa, þótt ég heyri hér sömu skoðun hjá fleiri mönnum, hvort sem það er samflokksmaður minn, hv. þm. A.-Húnv., eða hæstv. viðskmrh. Ég viðurkenni með hæstv. viðskmrh., að það er visst aukið öryggi fólgið í því að fara lögbindingarleiðina umfram það að fara hina frjálsu, en um leið aukin áhætta. Það er nú einu sinni svo, að nauðung fylgir margt óskemmtilegt og beinlínis áhætta, að þess vegna náist ekki tilgangur, þótt góður sé. Aðilar vilja ekki. láta Alþingi beita sig nauðung, meðan nokkur kostur sýnist á annarri lausn. Það er ekki víst, að samningar tækjust um málið með aðilum, þótt reynt yrði. En ég hygg, að stærstu verklýðsfélög landsins ættu ekki að segja upp samningum um kaupgjald. Af fundarfregn í Mbl. í morgun úr verklýðsfélaginu Hlíf í Hafnarfirði hygg ég ljóst, að það félag muni ekki gera það, og eftir þeim spurnum, sem ég hef haft úr Dagsbrún í Reykjavík, mun þar verða hið sama uppi á teningnum. Þetta eru stærstu félögin, og fjöldi annarra mun fara að dæmi þeirra. Þessa vitneskju um fyrirætlanir mikils þorra verklýðsfélaganna hef ég ekki aðeins fengið frá þeim félagsstjórnum, sem eru fylgjandi flokki mínum, heldur og af vörum hæstv. félmrh. um, að félagsstjórnir þær, sem fylgja alþfl., séu yfirleitt ekki að hugsa um uppsagnir samninga nú. Þess vegna geri ég mér vonir um, að eftir frjálsu leiðinni megi þar koma í veg fyrir hækkun.

Uppástungunni um að lögfesta kaupið var í upphafi vel tekið af öllum í ríkisstj., líka af fulltrúa Alþfl., hæstv. félmrh. Hann taldi að vísu vafasamt, að Alþfl. vildi fara þessa leið, en ég kveð ekki of sterkt að orði, þótt ég segi, að hann var vel viðmælandi að ræða um hana. Hann stakk meira að segja upp á þeirri umbót á lögfestingarákvæðinu að setja við það hemil, þannig að kaup mætti hækka nokkuð, ef vísitala hækkaði enn um t. d. 10 stig eða helzt þótt ekki væri nema um 5 stig. Það er bezt að ætla samstarfsmanni sínum eins mikla samkvæmni og heilindi í framkomu og manni er unnt og gera ráð fyrir, að í þessari þátttöku hæstv. félmrh. hafi aldrei verið fólginn beinn ádráttur um það, að Alþfl. mundi fallast á lögbindingarleiðina. En hvernig stóð þá á till. hans? Hvers vegna að vera að bæta buxurnar, ef ekki á að fara í þær? Hví að kappræða um það á mörgum fundum, hvort hemillinn ætti að fara að verka við 5 eða 10 stiga hækkun, ef lögfesting með hemli eða án gat aldrei náð samþykki Alþfl.? Þó að Alþfl. gæfi aldrei fyrirheit um samþykkið, er það staðfest, að ráðh. hans var ekkert frábitinn því að spjalla um, hvernig þessi lögfestingarleið yrði bezt farin. Allt virtist á þeirri leið, að þetta yrði lagt fram sem lausn af hálfu ríkisstj. allrar.

Það voru fulltrúar frá verklýðsfélögum, sem fóru þess eindregið á leit við Sjálfstfl., að heldur yrði reynd til hlítar hin frjálsa leið, áður en stefnt yrði að lögfestingu kaups. Það er ekki rema sjálfsagt, að fulltrúar Sjálfstfl. taki tillit til óska úr þeirri átt. Það var ekki fyrr en á fundi laugardaginn 18. þ. m. kl. 4–4½, að viðstöddum öllum ráðh. nema hæstv. félmrh., að við fulltrúar Sjálfstfl. í ríkisstj. lýstum þessu nýja viðhorfi og óskuðum eftir að vita afstöðu hinna ráðh. Rúmri klst. síðar voru allir ráðh. aftur á fundi, og veit ég ekki betur en a. m. k. ráðherrar Framsfl. hafi í millitíð verið búnir að bera málið undir flokk sinn. Ágreiningur kom þó ekki berlega fram. Mér var falið að rannsaka það í Dagsbrún og Hlíf, hvort þau félög mundu fallast á að festa kaupið á frjálsan hátt með samningi. Hæstv. félmrh. var falin sams konar rannsókn í ýmsum öðrum félögum. Kl. 11 á mánudag kemur svo ríkisstj. aftur á fund, og virtist rannsóknin hafa borið jákvæðan árangur, bæði þar sem ég og hæstv. félmrh. höfðum getað kynnt okkur horfurnar. Kl. 2 skýrum við hæstv. fjmrh. fulltrúum úr okkar flokki og þ. á m. frá verklýðsfélögum frá því, að hin frjálsa leið muni verða reynd, og það undarlega gerist, að samtímis skýrir hæstv. félmrh. flokki sínum frá hinu sama, — það sé komið á um þetta samkomulag í ríkisstj. Svo kemur þriðjudagur og fundur í ríkisstj. á sama tíma og á laugardaginn. Þá segja ráðherrar Framsfl.: „Þið hafið misskilið okkur. Við föllumst aldrei á þessa leið: — Það er leiðinlegt, þegar svona kemur fyrir, slíka framkomu ráðh. er erfitt að afsaka.

Hér hafa fallið ummæli frá ýmsum hv. þm., sem ég hefði raunar þurft að svara, en þar sem ég hafði ekki tíma til að hlusta á umr., verð ég að láta það fyrir farast.