28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

Fyrirspurnir um stjórnarframkvæmdir o.fl.

mælti Finnur Jónsson:

Ég hef flutt á þskj. 6 till. til þál. um fisksölusamninginn við Breta.

Ég vildi spyrjast fyrir hjá hæstv. forseta, hvort hann hygðist ekki mundu geta tekið þessa þáltill. til meðferðar nú mjög bráðlega, og ég hef sérstaka ástæðu til að óska þess, að afgreiðslu þessa máls sé nokkuð hraðað, vegna þess að í blaði einu hér í bænum hafa birzt ummæli m. a. um afstöðu mína til þessa samnings út af lokuðum fundi hér í hæstv. Alþ., sem ég tel ekki að öllu leyti rétt með farið.

Í sambandi við þetta vildi ég spyrjast fyrir hjá hæstv. ríkisstj., hvað hún hugsar sér að gera út af því trúnaðarbroti, sem hér virðist hafa verið framið af einhverjum hv. þm., Þar sem fluttar hafa verið fréttir af lokuðum fundum Alþ. og þar með verið látið fylgja, að það væru sannar sagnir, sem þar væri farið með, þannig að útlit er fyrir, að það blað, sem hefur gert sig sekt í sambandi við þetta trúnaðarbrot, þykist hafa haft heimildir sínar eftir einhverjum þm. Ég vildi spyrjast fyrir um það, hvort ríkisstj. telur það sér og sóma Alþ. samboðið, að farið se með slík ummæli um það, sem hæstv. ríkisstj. sjálf hefur óskað eftir, að væri haldið leyndu. En fari svo, að hæstv. ríkisstj. telji, að hún geti ekki neitt aðhafzt í þessu máli, vildi ég hér með óska þess, að ég a. m. k. yrði þá leystur frá þeirri þagnarskyldu, sem hæstv. Alþ. hefur lagt mér á herðar, því að ég tel ekki rétt, að einstökum hv. þm. sé látið haldast uppi að fara með hálfyrði og hálfar sagnir af því, sem gerist á lokuðum fundum Alþ., en að öðrum þm. sé lagt það á herðar að halda að öllu leyti þann trúnað, sem þeir sjálfir hafa á sig lagt.

Ég vil þess vegna spyrjast fyrir hjá hæstv. ríkisstj., í fyrsta lagi: Hvað ætlar hæstv. ríkisstj. að aðhafast út af því trúnaðarbroti, sem hér hefur verið framið? Og í öðru lagi: Ef hæstv. ríkisstj. vill ekki gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru út af þessu trúnaðarbroti, þá vil ég óska þess a. m. k., að ég sé leystur undan því þagnarheiti, sem á mig hefur verið lagt sem þm.