12.11.1941
Efri deild: 14. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (458)

6. mál, stimpilgjald

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í frekari umr. um málið, fyrr en séð verður, hvort hin rökst. dagskrá verður samþ. Ef hún verður felld, þá gefst frekara tækifæri til að ræða málið við 3. umr.

Ég vil aðeins endurtaka það, að enda þótt þetta frv. hefði mátt vera rækilegra, þá var því þó beint til þess ástands, sem nú er um það atriði, er það fjallar um og nauðsynlegt er að fá bætt úr strax. Ég bar frv. mitt fram á þessu þingi, þar sem ég taldi, að ástandið væri að verða þannig, að ekki væri viðunandi að bíða með lagfæringu til næsta þings. Það er orðið þannig, sérstaklega hér í Reykjavík, að menn eru algerlega hættir að gefa upp rétt verð fasteigna, sem seldar eru, og greiða þar af leiðandi ekki nema lítinn hluta þess stimpilgjalds, sem lögboðið er.

Mér kom ekki á óvart, þegar hv. 1. þm. N.-M. stóð upp. Það eru nú ýmsir snúningar á þeim hv. þm. og hann sparkar oft allóþyrmilega aftur undan sér. Hann talaði um misskilið eðli sjálfs mín og flokks míns. Það getur vel verið, að maður þekki ekki sjálfan sig alltaf nógu vel, og ég býst við, að þessi hv. þm. geri það ekki heldur. Ef farið væri að lesa í hug hans, gæti ýmislegt kamið þar í ljós, sem kæmi honum á óvart, að aðrir vissu. Gott þykir mér að hafa atkvæði hans á mína hlið nú. Maður getur ekki hjá því komizt, að „hver hafi sinn dreng að draga“, og ég verð að sætta mig við það í þessu máli.