03.11.1941
Sameinað þing: 10. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (526)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Alþ. hefur nú setið þrjár vikur, og stundum hefur mætt meira á þm. við störf en að þessu sinni. Að sönnu er það svo, að margir þeirra þm., sem hafa tilhneiging til að hugsa um vandamálin, sem á þjóðina stríða, hafa haft nógu að sinna og nóg við að glíma. En þar hefur ekki komið til kasta sumra hv. þm. Sýnist svo sem þeim þyki þá betra illt að gera en ekki neitt, er till. sem þessi er borin fram, nema henni sé ætlað að vera meiningarlaust grín.

Það þótti einstakur viðburður og ekki góðs viti, þegar þeir gerðust vinir, Hitler og Stalin. Jafnundarlegt mun það hafa þótt á Rangárvöllum eða t. d. í Keflavík, þegar fréttist, að hv. l. þm. Rang. styddi sömu ríkisstj. og ég, og það gat ekki farið vel til loka, hlaut að enda skyndilega, — því fyrr, því betra fyrir hann og hans baráttuhug, — ég vil nú orða það þannig. Mér fyndist það mjög illa gert af mér og ekki í samræmi við eðli málsins, ef ég færi að taka honum þetta illa upp, þótt hann sé að reyna að stinga mig einhverjum títuprjónsstungum; — þær eru mér ósköp meinlausar, en ég veit, hversu mjög hefur reynt á hann, meðan flokkur hans studdi stjórnina, að vera neyddur til að stilla sitt ríka geð og ríkar hvatir. Ég vil þvert á móti þakka honum fyrir það hóf og þá mildi, sem fram kemur í orðalagi till. hans og ræðu. Það er beinlínis ólíkt honum, siðprýði, sem fylgir kannske hans nýja embætti: að vera ritstjóri kirkjumála og kristindóms í Tímanum.

Hv. þm. virðist harma það eitt í málinu, að í einu dagblaðanna hafi verið skýrt frá niðurstöðu Alþ. á lokaða fundinum um það, að eigi bæri að segja upp samningnum. Hann kveðst samþykkur því, sem Alþ. gerði, en það mátti bara ekki gera uppskátt, að hann o. fl. þm. væru samþykkir því. Til hvers var verið að ræða þetta á lokuðum fundi, ef síðan mátti segja frá því: blöðum? spyr hann. Það getur oft verið nauðsynlegt, að umr. séu öllum lokaðar, þótt niðurstaða þeirra megi verða öllum opin. Þessa leiðinlegu umr. voru lokaðar til þess, að hv alþm. gætu talað eins og þeir vildu, í þeim til gangi var fundarins óskað af ríkisstj. og þ. á m mér. Launungin þurfti fyrst og fremst að liggja á, þangað til niðurstaða væri fengin á Alþ Niðurstaðan fékkst, samþ. að kalla einróma Var hún þess eðlis, að hættulegt væri, að hún yrði birt? – Áður en þm. gengu til atkv., las ég upp það svar, sem ríkisstj. mundi senda fulltrúa sínum í London til að svara Bretum, ef Alþ. tæki þá ákvörðun að rifta samningnum ekki. Þetta svar kveður skýrt og skorinort um það, að Íslendingar ætli ekki að rifta samningnum. Ef þm. telur það ekki líka goðgá að birta nú þetta svar, löngu eftir að það er komið leiðar sinnar, ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það upp. Það var á þessa leið:

Á Íslandi er öllum kunnugt, að brezki fisksölusamningurinn er gerður með samþykki og á ábyrgð allrar ríkisstjórnarinnar. Það liggur þess vegna í hlutarins eðli, að ríkisstjórnin hefur reynt að vinna gegn allri óánægju með samninginn og mun gera það áfram. Hins vegar hefur íslenzka ríkisstjórnin alls ekkert vald til þess að hindra gagnrýni á einstökum atriðum samningsins beinlínis, vegna þess að hér gilda svipaðar reglur í þeim efnum sem í Bretlandi Ríkisstjórnin hefur hvorki né mun óska riftingar samningsins. Öðru leyti tilvísast dagskeytis viðskiptanefndar.

Þetta svar vissu alþm., að ríkisstj. mundi gefa brezku stjórninni, ef Alþ. ákvæði að rifta ekki samningnum. Skeytið var sent. Engin tilmæli fylgdu, að þessu yrði leynt í Bretaveldi, og ekki ástæða til. Það var kunnugt í Bretaveldi, að þegar svarið var gefið, sat Alþ. að störfum, það var m. ö. o. yfirlýsing stjórnar, sem hafði tekið móti valdboði þingsins í málinu. Það, sem skeð hefur, er, að Íslendingar hafa fengið að vita það, sem Alþ. lætur ríkisstj. gera öllum kunnugi í Bretaveldi. Var nú sú uppljóstrun til ills eða góðs? Ég held til góðs. Ég trúi því, að íslenzka þjóðin sætti sig betur við málið, ef hún veit, að Alþ. hefur gert þá ályktun næstum í einu hljóði að óska ekki eftir að fella samninginn úr gildi Það mun að vísu brátt viðurkennt af öllum, hve hagstæður hann er okkur í mörgum greinum, ekki sízt þegar við fáum afurðirnar greiddar í dollurum, eins og nú eru horfur á. En því fyrr sem menn sjá það, því betra. Ég held því, að það hafi ekki aðeins verið leyfilegt, heldur nauðsynlegt, að þetta álit Alþ. kæmi fram.

Hitt er annað mál, á hvern hátt það kom fram. Ég veit, að þm. skilur, að það fer ekki mjög leynt, sem búið er að ræða — og útræða — af 49 þm. og ýmsum öðrum. Allir ritstjórar dagblaðanna vissu þetta vafalaust, enda bar bréfið frá ritstjóra Morgunblaðsins það með sér að þeim hafði verið það kunnugt, áður en þeir birtu það. Þeir þurftu ekki að leita til mín eða neinna annarra þm. um upplýsingar. Hvenær fregnin hafi borizt þessu blaði eða öðrum blöðum, get ég ekkert um sagt. Ég veit, að hv. þm. leyfir sér ekki að segja að það hafi verið málefninu til bölvunar, að þetta var birt þjóðinni. Það má kalla það yfirsjón ríkisstj. að sjá ekki um, að ísl. þjóðin fengi fulla og nákvæma vitneskju um afstöðu Alþ. í málinu, eftir að brezku stjórninni hafði verið gerð hún kunn. Úr því hefur verið bætt af hendi þessa blaðs. — Að tala um þetta eins og eitthvert stórslys og að Alþ. sé varla starfhæft af þessum ástæðum, það er auðvitað aðeins gott gaman. Ég vil, meðan ég á sæti í ríkisstj., sem verður kannske ekki lengi, og eftir að ég fer úr ríkisstj., mega vænta þess, að þm. hugsi ekki eins og þessi hv. þm. talaði. Ég vil ekki segja, að orð hans sýni hugsanir hans eða innri mann. Mér virðast þau ummæli hans dæmafá, sem betur fer, að hann hafi að vísu verið með þessum samningi frá öndverðu, en ef haldið sé áfram að skýra frá réttum gangi þessara mála, verði hann að lýsa sig mótsnúinn samningnum. Ég vona, að hann láti aldrei spana sig til þess að styðja og snúast síðan móti svo stórkostlegu hagsmunamáli landsins. Getur það komið fyrir nokkurn þm.? Slíkt ábyrgðarleysi má ekki heyrast á Alþ. Mér dettur ekki í hug, að þetta hafi verið mælt að yfirlögðu ráði, en hann á að hugsa mál sitt betur en svo, að slíkar umsagnir falli á Alþ.

Ég skal ekki fara að ræða um það nú, hver ástæða sé til þess að gagnrýna samninginn. Það yrði þá rökræða um, hvort rétt hafi verið hin einróma. samþykkt Alþ. fyrir skemmstu. Ég tek þá afgreiðslu gilda sem sönnun þess, að samningurinn sé okkur mikilsverður og ekki rétt að rifta honum. Ég gæti auk þess lagt á borðið þau gögn, sem ég hef fyrir því, að samningnum bar eigi að rifta, en mér nægir alveg að vitna þar til vilja Alþ.

Það, að mér sé að því sérstakur styrkur, að afgreiðsla Alþ. á málinu varð lýðum ljós, gæti vel verið rétt hjá hv. þm. Mér hefur verið kennt um samninginn sérstaklega, og nú telur Alþ. óráðlegt að afsala sér þeim fríðindum, sem hann veitir. Ég vil gjarnan, að það verði opinbert. En hefði ég lagt á það sérstaka áherzlu, gat ég óskað þess, að afgreiðsla málsins yrði opinber eða endurtekin á opnum fundi. Hvers vegna gerði ég það ekki? — Af því að ég hef aldrei trúað því, að óbilgjörn gagnrýni gæti skaðað mig sérstaklega. Ég gat neytt Alþ, til þess að leggja kortin á borðið, en notaði mér það ekki, þóttist ekki þurfa neins slíks mín vegna. Ég veit ekki, hvort hv. þm. telur það benda til þess eða ekki, að það hafi verið ég, sem komið hafi fregninni á framfæri í blaðinu. Hitt er ljóst, að mér var opin önnur sjálfsögð leið, hefði ég talið, að það hefði mikilsverð áhrif á dóma manna um mig eða málið, að allt hið sanna yrði sem ljósast.

Ég vildi með þessu hafa sannað : 1) Það er á engan hátt Íslendingum til óhags, að vitneskja var gefin hér á landi um niðurstöðu þeirra umræðna, er skáru úr um, hvort rifta skyldi samningnum eða eigi. 2) Þetta var á vitorði mjög margra manna, þegar eftir að gengið hafði verið til atkvæða, — og tek ég þar algerlega undir það, sem segir í bréfinu frá ritstjórum Mbl. til forseta Alþ. 3) Mér var það í lófa lagið að sjá um, að atkvgr. yrði opinber, svo að engin persónuleg freisting gat verið fyrir mig að fara aðra leið til að gera þetta uppskátt.

Að lokum vil ég spyrja hv. 1. þm. Rang., hvað hann hefur fyrir sér í því, að einn ráðherranna — og mun því beint til mín — hafi verið riðinn við það, sem er sakargift till. hans. Þetta er í sjálfu sér nauðaómerkilegt, ég hef bara gaman af að vita, hvað hann hefur fyrir sér í því. Annars má hann gjarnan ráða málflutningi sínum. Ég þykist hafa annað þarfara að gera en taka slíka hluti allt of hátíðlega.