23.03.1942
Efri deild: 21. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

50. mál, aðstoðarlæknar héraðslækna

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er flutt eftir tilmælum landlæknis. Allshn. hafði frv. til athugunar, og henni virtust þær ástæður, sem færðar eru fyrir því, að nokkra nauðsyn beri til þess, að ráðstafanir séu gerðar til þess að hafa til taks lækna til þess að aðstoða héraðslækna, séu á rökum byggðar. En hins vegar leit n. svo á, að þau vandræði, sem eru með lækna í héruðum úti um landið, verði ekki leyst með þessu frv. Það varð því nokkur tregða á því til að byrja með, að n. flytti frv., og það var vegna þess, að henni fannst of skammt gengið í þessum efnum. Það skal tekið fram, að n. átti tal við landlækni um þetta vandamál — hin læknislausu héruð úti á landi — og hann nefndi dæmi þess, að til stórvandræða horfði og bæta yrði úr með einhverjum hætti með læknaleysið út um landið. T.d. skýrði hann n. frá því, að læknirinn í Hornafirði væri veikur og þyrfti að komast að heiman til læknis. Það stendur nú yfir vetrarvertið á Hornafirði, og þar eru nú 400 aðkomusjómenn, en landlæknir skýrði svo frá, að sér hefði reynzt ómögulegt að bæta úr þessari þörf, svo að héraðslæknirinn kæmist að heiman. Hann lét þess getið, að hann gæti vel búizt við því, að lækninum stafaði nokkurt heilsutjón af því að geta ekki þegar komizt undir önnur skilyrði heldur en að vera neyddur til að sinna læknisstörfum í sínu héraði. Um leið og við ræddum þetta frv. við landlækni, spurðist n. fyrir um það, hvort það mundu vera líkur til þess, að læknar fengjust í þessi aukaembætti, og taldi hann nokkrar líkur til þess. N. bar þá undir landlækni, hvort ekki væri hægt að reyna með einhverju móti að tryggja það, að þessi ráðstöfun gæti komið að fullum notum, þannig að undir flestum kringumstæðum yrðu fyrir hendi menn, sem vildu fara í hin lausu læknisembætti. N. stakk upp á því, hvort ekki mundi tiltækilegt að leggja þá kvöð á læknakandidata, að þeir, til þess að geta fengið ótakmarkað læknisleyfi hér á landi, yrðu að vinna einhvern tíma sem aðstoðarlæknar eða settir læknar í læknishéruðum úti um land. Landlæknir gekk inn á það, að þessi ráðstöfun væri nauðsynleg og ekki ósanngjörn, og þess vegna er það, að n. flutti í fullu samráði við landlækni frv. um breyt. á læknalögum frá 1932 um rétt og skyldur lækna og annarra, er læknisleyfi hafa. Í því frv. er gert ráð fyrir, að heilbrigðismálaráðh. geti gert það að skilyrði fyrir ótakmörkuðu læknisleyfi, að læknakandídatar vinni allt að 6 mán. tíma sem aðstoðarlæknar eða gegni læknisembættum í héruðum úti um land. Ég skal ekkí fara neitt út í þetta frv. Því hefur enn ekki verið útbýtt í d., en umr. um það munu fara fram áður en langt líður, en ég læt þess aðeins getið frá n. hendi, að þessi frv. fylgjast alveg að. N. litur svo á, að frv. það, sem hér er nú til umr., komi ekki að fullum notum, nema því aðeins, að hitt fylgi með, og skal ég geta þess, að það má vel vera, að þessar till. nægi ekki, til þess að bæta úr þeim læknisvandræðum, sem eru úti um landið. En n. telur samt sem áður, að þetta sé spor í rétta átt, og vill gera þessa tilraun og þá sérstaklega vegna þess, að landlæknir hefur nokkra trú á því, að þetta geti bætt úr erfiðleikum þjónandi héraðslækna, þegar þeir þurfa að fara að heiman, og einnig í því tilfelli, þegar heil héruð eru læknislaus. Ég vil vænta þess, að d. taki þessu frv. með vinsemd og láti það ganga fram. Ég skal geta þess, að ég tel með öllu óþarft, að málið fari aftur til n., því að allshn. er alveg sammála um það, að málið gangi fram.