08.04.1942
Neðri deild: 30. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Einar Olgeirsson:

Hæstv. fjmrh. minntist á það í ræðu sinni áðan, að ég hefði í ræðu minni í gær farið inn á ákvæði 4. gr. frv. um það, að takmarkað útsvarsfrelsi ætti að gilda, á meðan skatturinn væri svona hár. En ég vil benda á það, að einmitt flestir tollarnir lenda á alþýðunni, og þeim er komið þannig á, að það er sagt, að þeir eigi aðeins að gilda til bráðabirgða. Viðvíkjandi því, sem hæstv. viðskmrh. sagði, þá vil, ég segja það, að okkur greinir mikið á um það, hvað legið hafi til grundvallar hjá þeim, sem undirbjuggu frv. Ég vildi meina, að þarna væri gerð tilraun til þess að tryggja hlut stríðsgróðamanna. En hæstv. viðskmrh. vildi hins vegar meina, að aðalhvötin, sem hafði legið til grundvallar þessu frv. hjá stjórnarfl., hefði verið sú, að þeir óttuðust, að bæjarfélögin í landinu mundu ekki seilast nógu langt niður í vasa gróðamannanna, þess vegna hefði stj. hlaupið undir bagga og tekið þennan kost til þess að koma í veg fyrir, að bæjarfélögin gætu hlíft stríðsgróðamönnum. Eftir þeirri hvöt, sem hæstv. viðskmrh. telur, að hafi ráðið við samningu frv„ þá finnst mér, að flm. ættu ekki að hafa neitt á móti því, að þau bæjarfélög, sem vildu seilast lengra niður í vasa gróðamannanna heldur en stj. hefur viljað gera með þessu frv., þeim væri gefinn fullur réttur til þess. Ég álít, að það væri rétt, að fjhn. athugaði þetta vandlega fyrir 2. umr.

Svo langar mig til að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. viðskmrh., hvort hann teldi ekki rétt, að heimilt væri að leggja á veltuútsvör og eignarútsvör án nokkurra sérstakra takmarkana af hálfu bæjarfélaganna. Mér virðist mikill mismunur á því, hvaða skilning hv. 7. landsk. og hæstv. viðskmrh. leggja í þetta ákvæði. Mér finnst alveg nauðsynlegt að ganga þannig frá þessum ákvæðum, að ekki verði farið í kringum þau, eins og átt hefur sér stað að undanförnu.

Mér virðist af þeim umr., sem fram hafa farið um málið, að það vera á því hin mesta þörf, að n. rannsaki þetta mál allt mjög gaumgæfilega. Ég vil svo endurtaka það, að mér þætti mjög fróðlegt að heyra, hvað hæstv. viðskmrh. hefur að segja gagnvart þeirri fyrirspurn, sem ég bar fram.