20.05.1942
Sameinað þing: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (1250)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Haraldur Guðmundsson:

Ég vil benda á það strax, að upphaf þessarar þáltill. er nokkuð óvenjulega orðað. Þar stendur: „Sameinað Alþingi felur stjórninni“ o.s.frv. Það er venjulegt að orða þetta þann veg, að stjórninni sé „heimilað“. Ég skal taka undir það með hv. flm., að það er fullkomlega eðlilegt, að bændur hafi óskað eftir því að fá einhverja vitneskju um það, hvers þeir mættu vænta um verð fyrir afurðir sínar á s.l. ári. Í þessari þáltill. er lagt til, að ríkissjóður leggi fram nokkurt fé til þess að tryggja bændum það verð fyrir útflutningsafurðir þeirri á s.l. ári, sem þeir fengu á árinu 1940, að viðbættri þeirri fjárhæð, sem Bretar lögðu fram til þess að verðbæta landbúnaðarafurðir, og mun það hafa verið á 5. millj. kr. Nú er það komið í ljós, að engra slíkra uppbóta mun von fyrir framleiðslu s.l. árs. Verð það, sem bændur munu hafa fengið að meðtalinni þessari uppbót, mun vera kr. 3.65 fyrir gærur og kr. 7.20 fyrir 1. flokks ull. Samkvæmt þáltill. á að tryggja bændum þetta verð að viðbættri dýrtíð, sem mun hafa vaxið á þessu tímabili um 20%, og mun þetta svara til þess, að verð á gærum til bænda muni verða um kr. 4.40 kg og fyrir ull kr. 8.60 kg. Nú verð ég að segja það, að mér er ekki ljóst, hvort þetta er sú upphæð, sem er eðlilegt, sanngjarnt eða nauðsynlegt, að bændur fái, vegna þess að um þetta liggja ekki fyrir neinar upplýsingar, og ég hygg, að afkoma sauðfjárbænda með því verðlagi, sem var á gærum að viðbættum 5 millj. kr., hafi verið nokkuð framar vonum flestra manna á því ári.

Ég man ekki betur, þegar verðlag var ákveðið á landbúnaðarafurðum í haust, en að það væri gert með hliðsjón af því, að svo mikil óvissa væri um verðlag á ull og gærum, að þess vegna yrði að hækka aðrar landbúnaðar vörur í verði. Þetta var m.a. borið fram sem röksemd fyrir hækkun kjötsins í frv., sem hv. 1. þm. S.-M. bar fram á haustþinginu.

Ég treysti mér ekki til þess að fullyrða neitt um það, að bændur séu of vel haldnir, þó að þeim væri greidd sú uppbót, sem hér er lagt til. Ég heyri, að hæstv. forsrh. tekur þessu vel og telur það mjög sanngjarnt og eðlilegt. Ég vil hó vekja athygli á því ákvæði, sem hv. 1. flm. málsins fór mjög fljótt yfir, þ.e., að hann taldi, að til þessa þyrfti 21/2–3 millj. kr. Ég vildi gjarnan fá nánari upplýsingar um það, á hverju hann byggir þetta. Sennilega byggir hann þetta þó á því, að ullin seljist á kr. 5.50 kg. eins og fæst fyrir hana í Bandaríkjunum.

Það var eitt atriði, sem hv. 1. flm. vék að í tilefni af þessu. Hann gat þess, að allmikill hluti gæranna hefði skemmzt og ætlazt hafi verið til, að það tjón verði að fullu bætt. Ég veit vel, að saltaðar gærur geymast illa, og ég er það ekki mótfallinn að verðbæta gærur, sem skemmzt hafa af óviðráðanlegum ástæðum, en ef staðurinn, sem valinn hefur verið til geymslu, hefur verið slæmur, eða gærurnar hafa skemmzt af aðgæzluleysi, þá tel ég það hæpið að bæta það tjón.

Mér þótti vænt um að heyra frá hæstv. ráðh. og 1. flm., að áhugi ríkir hjá þeim um, að ekki falli skuggi á rekstur þjóðarbúsins. Í því sambandi má minna á, að ýmsir fleiri framleiðendur en hér er um rætt, eiga við örðugleika að stríða, og má þar nefna útvegsmenn við Faxaflóa, sem urðu á síðustu vertið mjög hart úti að undantekinni einni veiðistöð. Veldur þar hvort tveggja, að afli hefur verið tregur, og líka, að sýnt sig hefur, að verðlag það, sem samið var um í brezka samningnum í fyrra, nægði ekki eins og það átti að gera, meðal annars fyrir það, að verðlag í landinu hefur breytzt á þessum tíma. Þegar samningurinn var gerður, þá var vísitalan 150–160 stig, og menn bjuggust við, að henni yrði haldið niðri, af því að þá voru dýrtíðarlögin nýafgreidd, en hún hækkaði um fullkomlega 20%, svo að afkoma manna er nú lakari en búizt var við. Ég tel því eðlilegt, að jafnframt verði gerðar ráðstafanir til að bæta þessum atvinnurekstri upp tjónið, sem hann hefur beðið við, að ekki fékkst nóg fyrir aflann. — Þeim óhöppum, sem stafa af aflatregðu, er alltaf hægt að gera ráð fyrir.

Ég mun fylgja þessari till. til 2. umr., en lít svo á, að skapa beri jafnræði milli framleiðenda í þessum verðuppbótum.