23.05.1942
Sameinað þing: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (1266)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Emil Jónsson:

Ég gat þess við fyrri umr. þessa máls, að ef till. mín um það, að þessu máli yrði vísað til n., yrði felld, mundi ég bera fram brtt. í þá átt, að ríkisstj. væri einnig heimilt að veita þeim fiskframleiðendum, sem hafa selt fisk sinn hér heima samkv. brezka samningnum, nokkra hækkun miðað við vísitölu frá þeim tíma, sem brezki samningurinn var gerður. Þessari till. hefur nú verið útbýtt, og liggur hún fyrir á þskj. 50.

Ég skal ekki fara langt mál út í þetta á ný, ég gerði það nokkuð við fyrri umr., sem fór fram í gær. En till. er um það, að ríkisstj. hafi heimild til, ef henni finnst ástæða til, eftir að þessir útvegsmenn hafa gert upp reikninga sína, að veita þeim einhverja uppbót, allt að vísitöluhækkun fyrir það tímabil. Það var allmikið kvartað um það, þegar brezki samningurinn var gerður á s.I. ári, að verðið væri lágt. Þá var vísitala framfærslukostnaðar 155, en nú er hún 182 eða 183, svo að það hefur orðið æðimikil breyt. síðan. Hvort útgerðarkostnaður hefur vaxið hlutfallslega við þessa vísitöluhækkun, skal ég ekki segja. En það var upplýst í gær, að ekki fáir bátar, sem stundað hafa síðustu vertíð, hafi tapað, og þá er ástæða til að veita þeim uppbót fyrir það tímabil. Mér er fullljóst sjálfum, að ekki liggja fyrir neinar fullnægjandi upplýsingar um afkomu þessa atvinnuvegar á s.l. ári. En ég álít engu að síður heimilt að koma með þessa till. heldur en það er fyrir meiri hl. fjvn. og aðra flm. þessarar till. að koma með sína till., því að hún er algerlega óundirbyggð. Það lá ekki fyrir, hver kostnaður mundi vera fyrir ríkissjóð af framkvæmd þeirrar till. Samkv. upplýsingum frsm. gat það oltið á upphæð frá 1–5 millj. kr.

Ég vil að lokum beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að ég fái að koma að skrifl. brtt. um fyrirsögn till., ef mín till. verður samþ., því að eins og till. er flutt, er hún eingöngu um útflutning landbúnaðarafurða, en mundi verða um útflutningsvörur yfirleitt, ef till. mín verður samþ.