21.05.1942
Sameinað þing: 19. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (1320)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Finnur Jónsson:

Af þeim umr., sem nú hafa farið hér fram, sérstaklega milli hæstv. forsrh. og hv. 1. þm. S.-M., mega kjósendur glögglega marka, hvernig samkomulagið hefur verið á kærleiksheimilinu, a.m.k. nokkra undanfarna mánuði. Ef svo ósamstæðir menn hefðu setið í stjórn og átt að ráða málum landsins, má nærri geta, hve vel þeim málum mundi hafa verið ráðið, ef slíkt ástand hefði haldið áfram, eins og kjósendur nú hafa heyrt hér í útvarpinu.

Hæstv. atvmrh. vildi halda því fram, að ég hefði sérstaklega gagnrýnt það atriði í framkvæmdaleysi hans á dýrtíðarl., að ekki hefði verið notuð heimildin til þess að taka útflutningsgjald af fiski, og sagðist sízt hafa búist við því af mér, að ég mundi leggja slíkt til. Það er vitað, og ég hef margoft bent á það, að fiskimenn búa við það fádæmi hér í landinu að hafa ekki fengið neina dýrtíðaruppbót á fisk sinn, frá því að verðlagsvísitalan var í 57 stigum og þangað til nú, að hún er komin upp í 83 stig. Nú er ákaflega fjarri því, að ég hafi deilt á fyrrv. ríkisstj., og þar með núverandi hæstv. forsrh., fyrir þetta atriðl. Hitt vil ég benda á, að hann lét undir höfuð leggjast að framkvæma dýrtíðarl. frá s.l. ári. En í þeim voru mörg ákvæði önnur en þetta, eins og t.d. heimildin til afnáms á tollum, heimild til þess að greiða uppbætur til framleiðenda, sem af styrjaldarástæðum neyðast til að selja vörur sínar óeðlilega lágu verði. Og sú heimild, að leggja á útflutningsgjald, sem er í 5. grein laganna, .er þannig, að ríkisstjórnin hafði heimild til þess að ákveða mismuninn, sem átti að greiða á hinar ýmsu útflutningsvörur, miðað við framleiðslukostnað og söluverð. En sömuleiðis var heimilt að ákveða, að gjald þetta skyldi aðeins ná til þeirra afurða, sem framleiddar voru eftir að reglugerðin öðlaðist gildi, og enn fremur að undanþiggja þær útflutningsvörur, sem seldust lægra verði en hún teldi, að framleiðslukostnaðurinn væri. Ríkisstj. hafði meira að segja, samkv. 5. gr. l., heimild til þess að leggja útflutningsgjald á vörur, sem seldust á háu verði, t.d. fisk frá togaraeigendum og fiskflutningaskipum. Einnig hafði hún heimild til að undanþiggja vörur, sem seldust óeðlilega lágu verði, útflutningsgjaldi, t.d. fisk frá bátaeigendum.

Nú er það kunnugt, að fob.-verð það, sem fiskimenn hafa selt fiskinn fyrir, frá því að brezki samningurinn var gerður, er 35 aurar pr. kg. Hins vegar hefur söluverð á erlendum markaði verið ákaflega hátt síðan þessi samningur var gerður. Það hefur meira að segja verið hærra en það var áður en núverandi tollur var settur á. Ef dreginn er frá kostnaður samkvæmt reglum útflutningsnefndar, áður en hún reiknar útflutningsgjaldið ,sem er sölukostnaður úti, 10%, allir tollar og flutningsgjald, 3–400 kr. á smálest, þá kemur í ljós, að söluverðið á þeim fiski, sem seldur hefur verið frá því samningurinn gekk í gildi og þar til fyrir á að gizka einum mánuði, hefur til jafnaðar verið kr. 1.10 til kr. 1.40 pr. kg, á sama tíma og menn hafa hér verið að selja allan fisk fyrir 35 aura kg. Ég hef deilt á hæstv. forsrh., þótt ég hafi ekki gert það að þessu sinni, fyrir að hafa ekki notað þessa útflutningsgjaldsheimild á fiski, sem seldur er þessu háa verði á frjálsum markaði erlendis. Og ég vil benda á það, að ef hæstv. forsrh. hefði viljað nota útflutningsgjaldsheimildina og leggja útflutningsgjald á þennan fisk, þá hefði hann, með því að leggja 10% á fiskinn, fengið í ríkissjóð á þessu tímabili 6–7 millj. króna. (Forsrh.: En á ekki ríkissjóður mest af því með sköttum, dýrtíðarskatti?). Ef hann hefði viljað, þá hefði hann getað notað þetta fé til þeirra, sem höfðu framleitt bátafisk með tapi á síðustu vertíð, til þess að borga þeim með því eitthvað af því tapi. En hæstv. forsrh. hefur ekki kosið að nota þessa heimild. Ég þakka honum fyrir, að hann gaf mér tilefni til þess að minnast á þetta í útvarpinu, því að það sýnir, að hans stjórnarstefna, hvorki fyrr né síðar, hefur verið miðuð sérstaklega við hag bátaútvegsmanna, heldur stórútgerðarinnar. (Forsrh.: Mest af þessum peningum er komið í ríkissjóð.) Í öllu falli ekki til bátaútvegsmanna, þótt þeir hefðu getað það, ef hæstv. forsrh. hefði viljað svo vera láta.

Um framkvæmd dýrtíðarl. að öðru leyti vil ég benda á, að ríkisstjórnin hefur frá áramótum stöðvað hækkun dýrtíðarvísitölunnar. En hún hefur ekki gert það með gerðardómsl., heldur með því að nota heimildir, sem til voru í gömlu dýrtíðarl. Eins og kunnugt er, hefur grunnkaup farið hækkandi, með þeim undantekningum, sem ég greindi í fyrri ræðu minni, þrátt fyrir gerðardómsl. Allar aðrar heimildir voru til í gömlu l. Vísitalan hefur verið stöðvuð frá síðustu áramótum með því að nota heimildirnar, sem til voru í gömlu dýrtíðarl., en ríkisstj. sveikst um að framkvæma frá því að þau voru samþ. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta meira.

Ég hef ekki ætlað mér á þessum tíma nætur, að vekja neinar deilur við hv. 4. þm. Reykv. En út af því, sem hann sagði um Alþýðusambandið, að það hefði hindrað sameiningu verkalýðsins, þá er það ósatt. Alþýðusambandið breytti lögum sínum s.l. haust þannig, að félög eru nú tekin inn í það af hvaða pólitísku sauðahúsi sem stjórnir þeirra eru, enda hefur svo alltaf verið. Menn eiga enn fremur rétt á því að kjósa hvaða menn sem þeir vilja sem fulltrúaefni á Alþýðusambandsþing. Hitt er annað mál, að um leið og Alþýðusambandinu var breytt, var kosin stjór n, sem er af tilviljun að mestu eða öllu leyti Alþýðuflokksstjórn, sem stafar af því, að þá voru ekki aðrir fulltrúar á Alþýðusambandsþinginu. En það fer saman, að í sambandsstjórninni eru formenn stærstu verkalýðsfélaga landsins og þeir menn, sem á undanförnum árum hafa haft. trúnað verkalýðsins, hvaða pólitískum flokki sem verkalýðurinn hefur tilheyrt. Kosningarétturinn er og hefur verið ótakmarkaður í félögunum, og það, að þessir menn eru kosnir á sambandsþingið og síðar í sambandsstjórn, þótt það séu að mestu leyti Alþýðuflokksmenn, er eingöngu af því, að þeir hafa notið trausts verkamanna í félögunum, hvaða pólitískum flokki sem þeir hafa tilheyrt.

En í sambandi við það, að hv. 4. þm. Reykv. hefur vakið hér máls á þessu, þá vil ég nota tækifærið til þess að vara menn við því, að kommúnistar ekki veki nú upp pólitískar deilur innan verkalýðsfélaganna, jafnhliða og búið er að koma félögunum á þann grundvöll, sem þau nú starfa á, og að þeir veki ekki upp þá undirróðursstarfsemi, sem þeir eru alltaf að ala á meðal verkalýðsins.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði; að Alþýðusambandið mundi reyna að koma því þannig fyrir, að Stefán Jóh. Stefánsson og hans klíka innan sambandsins héldi völdum á þingi þess í haust. Nú er þetta svo fráleitt, af því að Stefán Jóh. Stefánsson er ekki í neinu félagi innan Alþýðusambandsins. Hann getur því ekki mætt á þingi þess í haust eða haft þar nein áhrif.

Annars er það athugandi í þessu sambandi, hver það er, sem hefur komið fram málum verkalýðsins. Getur hv. 4. þm. Reykv. bent á nokkur einasta, hagsmunamál verkalýðsins, sem konunúnistar hafa komið hér fram á Alþingi? Getur hann bent á, að kommúnistar hafi hindrað eitt einasta óþurftarmál, sem borið hefur verið fram af andstæðingum verkalýðsins hér á Alþingi? Ég geri ráð fyrir, að þótt hv. 4. þm. Reykv. talaði hér á eftir mér og talaði til morguns, þá gæti hann ekki bent á nokkurt mál, sem kommúnistar hafi komið fram hér á þingi, né óþurftarmál, sem þeir hafi hindrað, af því að þeir hafa enga aðstöðu haft til þess. Aftur á móti hefur alþfl. átt frumkvæðið að því að koma fram öllum mannréttindamálum, sem samþ. hafa verið hér á Alþingi. Og hann hefur í stjórnarsamvinnunni frá 1939 hindrað mörg óþurftarmál, sem andstæðingar Alþfl. hafa ætlað sér að koma fram, t.d. launaskattinn. hað er líka fyrst og fremst verk Alþfl., að gerðardómsl. eru runnin út í sandinn. Það er verk Alþfl., en ekki kommúnista. Ég vil benda á það, að þegar gengisl. voru sett 1939, sem kommúnistar héldu fram, að væru stórkostlegustu kúgunarl., þá gerðu þeir allt, sem þeir gátu, til þess að þau kæmu ekki að gagni í framkvæmd, en þeir voru einskis megnugir um það. Það er fyrst, þegar Alþfl. tekur forustu á móti einhverju máli og sameinað Alþýðusamband, að ekki er hægt að stjórna landinu neina með vilja verkalýðsins. Þó að kommúnistar segi eitthvað, hefur það engin áhrif.

Ég læt nú útrætt um þetta, því að umræðutími minn er nú á þrotum. En við Alþýðuflokksmenn úti um land vil ég segja þetta: Látið ekki blekkjast af þeim gífuryrðum, sem höfð kunna að verða í frammi í garð Alþfl. nú eins og endranær. Því hefur verið haldið fram, fram á síðustu tíma, að Alþfl. væri deyjandi flokkur. Hann hefur sýnt það við nýafstaðnar bæjarstjórnarkosningar, að hann heldur fullum velli, þrátt fyrir ómaklegar árásir og reynt hefur verið að villa alþýðunni sýn. Og ég skora á Alþfl.-kjósendur um land allt að fylkja sér um þann eina flokk á Íslandi, sem hefur reynzt eini trúi flokkurinn um málefni alþýðunnar í landinu. Og þar sem Alþfl. hefur ekki menn í kjöri, kjósi Alþýðuflokkskjósendur landslista flokksins. Á þann einan hátt verður lýðræði og framfarir til handa alþýðunni á Íslandi tryggt. Góða nótt.