14.04.1942
Sameinað þing: 6. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í D-deild Alþingistíðinda. (1330)

10. mál, fangagæzla

*Einar Olgeirsson:

Mér þykir vænt um, að þessar umr, hafi orðið og að hæstv. forsrh. vill taka þetta mál til rannsóknar. Hitt er eðlilegt, að mismunandi skoðanir komi fram um skýrsluna. Ég skil það vel, að hv. 2. þm. Árn. vilji draga taum Teits fangavarðar, sem hann þekkir að góðu einu. En það er oft svo um menn, að þeir geta verið ágætustu heimilisfeður, en eru svo í tillum viðskiptum svo harðdrægir og prettvísir, að undrum sætir. Það þýðir ekki að reyna að verða sammála, þegar lítið er sitt á hvora hlið á manninum, en Hallgrímur vildi nú einmitt unna honum sannmælis.

Ég þekki Hallgrím mjög vel eftir áratugs samstarf. Hann hefur hvað eftir annað verið í kjöri til Alþ., og ég hygg, að þeir þm., sem eru andstæðingar hans, mundu bera honum gott orð. Hann er einn af þeim fáu Íslendingum, sem hefur sýnt, að hann vill eitthvað í sölurnar leggja fyrir hugsjónir sínar.

Ég verð að segja út frá því, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að skrifin um Litla-Hraun hefðu ekki verið nógu hlutlaus, að hefði ég upplifað það, sem kom fyrir Hallgrím Hallgrímsson, og skrifað um það á eftir, hefði ég ekki í þeim skrifum mínum sýnt þá rósemi, sem hann hefur gert. Hæstv. dómsmrh. sagði, að í greininni væri mikill áróður, sem væri varhugavert að taka til greina. En ég segi: einmitt af því, að greinin er algerlega laus við áróður, sem hefði þó verið eðlilegt, að kæmi þar fram, er hún merkileg og hlutlaus skýrsla, sem verður að taka til greina. Menn eru sammála um, að fangelsin eigi að hafa bætandi áhrif á fangana, en það er langt frá, að menn vilji aðhyllast þá gömlu stefnu, að fangelsisvistin væri hegning þjóðfélagsins á fólkið og því ætti að fara illa með fangana á allan hátt. En það var þessi hugsunarháttur, sem kom fram hjá fangaverði þeim, sem hér er um að ræða, og þess vegna verður að skipta um stjórn á fangelsinu á Litla-Hrauni. Nú er það þannig, að þó að fanga á Litla-Hrauni langi til að kvarta yfir illri meðferð á sér við yfirboðara sinn; dómsmrh., þá er honum ómögulegt að koma bréfi til hans, vegna þess, hve margir menn eru þar á milli. T.d. stendur í þessari skýrslu, með leyfi hæstv. forseta: „17. júní skrifaði ég dómsmálaráðuneytinu bréf, varðandi úttekt dóms míns. Þegar ég bað fangavörðinn að koma því, vildi hann ekki taka við því, þar eð Gústaf Jónasson fulltrúi hefði skýrt sér frá því í síma, að dómsmálaráðuneytið anzaði engu bréfi, er frá mér kynni að koma.“ Það mun vera rétt, að hæstv. dómsmrh. hafi aldrei fengið slíkar umkvartanir, heldur hafi þeir menn, sem stóðu þar á milli, neitað að taka við bréfinu fyrir hans hönd, — án þess að spyrja leyfis. Ég veit um nokkur fangelsi erlendis, þar sem dómsmálaráðuneytið hefur eftirlit, og komist það á snoðir um, að föngunum sé misboðið, sendir það einn af sínum yfirmönnum sem fanga inn í fangelsið. Auðvitað hafa fangaverðirnir ekki hugmynd um annað en að hér sé um venjulegan fanga að ræða og fara með hann eins og aðra fanga. Einn góðan veðurdag kemur í ljós, að hér er um yfirmann fangavarðarins að ræða, og afleiðingin verður sú, að rannsókn er látin fara fram og hinn seki fangavörður sviptur embætti sínu. Þetta fyrirkomulag er auðvitað ekki hægt að hafa hjá svo fámennri þjóð sem okkur, en nauðsynlegra er að tryggja það, að kvartanir fanganna komist sína leið.

Nú er frá því skýrt í skýrslu þessari, að fanginn hafi verið lokaður inni í 11 sólarhringa, án þess að komast undir bert loft eða mega tala við gesti sína, Þetta er meðferð, sem alls ekki getur gengið í nokkru fangelsi í siðuðu landi. Ég þekki fangelsi í Bretlandi, og þar hefur hver fangi rétt til að njóta útivistar 2 tíma á dag. En á Litla-Hrauni er beitt þeirri hegningu, að maðurinn fær ekki að koma út svo dögum skiptir, og fyrst þegar loksins sýslumaður og læknir skarst í málið, fær hann að vera úti, fyrst 1/2 tíma og svo 11/2 tíma á sólarhring. Þetta er aðferð, sem er með öllu óhæf. Það getur ekki gengið, að fangelsisstjórar geti farið eftir sínum eigin geðþótta, og það verður að bera virðingu fyrir heilsu manna. Það verður að sjá um, að menn bíði ekki tjóu andlega með því að hafa þá algerlega einangraða, án þess að sjá blöð eða bækur. Ég held þess vegna, að full þörf væri á því, að grg. þessi kæmi fram á Alþ., og ég er fullviss um, vegna þeirra góðu undirtekta, sem þetta mál hefur fengið hjá hæstv. dómsmrh., að það verði til þess að bæta meðferð fanganna á Litla-Hrauni. Að öðru leyti mun ég ekki lengja þessar umr., án sérstaklega gefins tilefnis.