23.03.1942
Neðri deild: 24. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

13. mál, skemmtanaskattur

*Frsm. (Stefán Stefánsson):

Hv. þm. Borgf. flytur hér ásamt hv. þm. Ísaf. brtt. við frv., og vilja þeir nú krukka í þann sjóð, sem nú á að afla til viðbótar í þjóðleikhússjóð Íslands. Ég get lýst yfir því f.h. meiri hl. n., að hann er þessu mótfallinn. Eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, þá á skemmtanaskatturinn Samkv. l. frá 1923 að renna óskertur í þjóðleikhússjóð Íslands, og við þann tilgang viljum við halda okkur óskorað. Við viljum, að allt það fé, sem fæst með þessu móti, gangi að svo stöddu og þar til nóg fé er fengið til byggingarinnar, í einn og sama sjóð. Hv. flm. gat þess, að með þessu væri verið að flytja fé til Reykjavíkur.

Það kann að vera, einhverjar örlitlar tekjur, en eins og ég gat um um daginn, þá verður fé flutt frá Reykjavík og til leikhúsbygginga utan Reykjavíkur, þegar nægilegt fé hefði fengizt í þjóðleikhússjóðinn. En svo er einnig á það að líta, að þjóðleikhúsið er ekki aðeins fyrir Reykjavík, heldur fyrir allt landið, og það má vera öllum landsmönnum metnaðarmál. Með þessari till. á að stíga spor aftur á bak, en ég held, að við ættum að sleppa allri hreppapólitík, þangað til þjóðleikhúsið er komið upp, og með tilliti til þessa greiði ég atkv. á móti þessari till.