22.04.1942
Sameinað þing: 7. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (1466)

73. mál, áfengismál

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vil fyrst segja, að ég álít það gott, að þessi dagskrártill. liggur, nú fyrir, því að það er ófært að hafa þessi mál í því horfi, sem þau eru í nú. En hingað til hefur meðferð þeirra verið svo, að ýmiss konar ráðstafanir hafa verið gerðar af ríkisstj., án þess að fyrir liggi vilji löggjafans í málinu, en slíkt er afleitt stjórnarfar.

Ég mun ekki fara mörgum orðum um þetta mál, a.m.k. ekki að sinni, en vil þó taka það fram, að ég held, að ríkisstj. hafi, þegar allar málsástæður eru skoðaðar, talsverðar málsbætur, ef hún þarf á málsbótum að halda, vegna þess hvernig viðhorfið hefur verið. Fyrsta ráðstöfunin„ sem gerð var, var skömmtun á áfengi, sem var svo til komin, að það bar mikið á drykkjuskap meðal herliðsins hér, og var kvartað undan því, að ótakmarkað áfengi fengist handa hermönnunum á bifreiðastöðvum hér. Væri ekki hægt að taka ábyrgð á framkomu herliðsins undir þeim kringumstæðum, en þeir væru óvanir sterkum drykkjum, einkum brennivíninu. Var farið fram á, að takmarkanir yrðu gerðar, og ríkisstj. sinnti því, þar eð hún vildi að sjálfsögðu ekki bera ábyrgð á því, að framkoma herliðsins væri slæm. Ráðstafanir ríkisstj. sættu misjöfnum dómum, en við vitum það, að alls staðar þar, sem slíkar takmarkanir hafa verið settar, þarf mikla reynslu og æfingu í að framkvæma þær, svo að fullu haldi komi, og eru Svíar einna lengst komnir í því efni.

Eftir að þetta hafði verið gert, sem dró úr áfengisnautninni, en var þó mjög gallað fyrirkomulag, kom nýtt atriði til sögunnar. Það vantaði ýmsar tegundir áfengis í verzlunina, og forstjórinn stakk þá upp á því, að lokað væri um skeið, og eru því ummæli grg. um sérstaka og þakkarverða stefnu ríkisstj. ekki á rökum byggð, þar sem lokað var vegna vínþurrðar. En þegar hafði verið lokað um nokkurn tíma, þótti koma í ljós, að ástandið hafði batnað stórum og lögreglan gaf um það skýrslu. Þegar opnað var á ný, eftir að áfengi hafði verið flutt inn, kom í ljós eins og alltaf eftir lokunartímabil, að drykkjuskapur var mikill. En þó að ég vilji ekki halda því fram, að áfengisnautn sé eins mikil, þegar lokað er og opið, er það að sjálfsögðu rangur dómur um áfengisnautnina yfirleitt, hvernig hún er fyrst eftir fyrirvaralausa lokun.

Þegar svo Bandaríkjaherliðið kom hingað, um það bil, sem áfengisverzlunin var opnuð á ný, voru uppi háværar raddir um, að drykkjuskapur væri hér óvenju mikill. Fyrstu hersveitir Bandaríkjamanna hér var landgöngulið ameríska flotans. Það var grennslazt eftir því, hvort þeir hefðu áfengi, og upplýsingar gefnar í þá átt, að í skipum flotans væri áfengi ekki veitt. Þá var það, að ríkisstj. ákvað samkv. till. hæstv. fjmrh. að loka áfengisverzluninni á ný, og var það fyrsta lokunin, sem framkvæmd var af ríkisstj. sem varúðarráðstöfun til að koma í veg fyrir ofnautn áfengis. Við höfðum heyrt, að Bandaríkjahermenn væru uppívöðslusamir, og vildum því ekki hafa opnar áfengisbúðir, ef hermennirnir hefðu ekki áfengi sjálfir. Síðan hefur það oft verið rætt í ríkisstj., hvort ætti að opna áfengisverzlunina eða ekki. Eiginlega er lokunin gerð þvert ofan í landsl. Það er gert ráð fyrir því í okkar tollalöggjöf og fjárl., að við höfum opna áfengisverzlun, en það var ætlunin að láta lokunina halda áfram þar til aukaþingið kæmi saman. En þegar þetta mál kom þá fyrir Alþ., var það á síðustu dögum þess, og málinu var vísað frá án þess að það fengi afgreiðslu og án þess að vilji Alþ. kæmi í ljós. En vegna þess, að málinu hafði verið vísað frá og auk þess meðal annars þótti ekki rétt að breyta þeirri ákvörðun, sem stj. hafði tekið, að láta lokunina halda áfram. Eftir áramótin bar mjög mikið á því, að áfengisneyzlan væri veruleg, og það er óhætt að segja það, að það var mjög mikið um það í veizlum hér í bænum, að notað væri smyglað áfengi. Það voru haldnir fundir um þetta í ríkisstj., og það var ákveðið, ekki af allri stj. heldur af meiri hl. hennar, að veita undanþágu fyrir boð. Það höfðu verið haldnar nokkrar veizlur dagana áður en þessar reglur voru upp teknar, og það sýndi sig; að mikið af þeim mönnum, sem þessar veizlur sátu, höfðu áfengi meðferðis, er þeir stóðu upp frá borðum, og neyttu þess áfengis í hliðarherbergjum. Þessi veizlusiður er með þeim hætti, að það er tæplega hægt að taka upp annan sið, sem bendi til meiri ómenningar. Þess vegna var það, að þessar reglur voru upp teknar og veittar undanþágur fyrir boð í einstaka tilfellum, og það er ekki hægt að neita því, að þær undanþágur hafa fremur farið vaxandi heldur en hitt. Það Iiggja sjálfsagt ekki fyrir neinar skýrslur um það, hvað mikið er selt af áfengi óleyfilega, en það áfengi er vitanlega sérstaklega selt af því herliði, sem nú dvelur í landinu. Ég hygg, að það áfengi, sem keypt er með þessum hætti, sé nokkuð, en ég hygg, að hjá þeim mönnum, sem sérstaka áherzlu leggja á það að opna áfengisverzlunina, sé það nokkuð orðum aukið, hvað þessi sala sé mikil, og svo mun einnig vera hjá þeim, sem vilja loka henni. Um það, hvað þessi áfengissala sé mikil, hef ég ekki annað við að styðjast en þá reynslu, sem ég fékk á þeim tíma, sem ég var lögreglustjóri hér í Rvík. Þá var leynivínsalan nokkuð í samræmi við það, hvað áfengið var dýrt, og áfengið er nú orðið mjög dýrt, en fyrst eftir áramótin var það um það bil helmingi dýrara en það er nú, hjá þessum ólöglegu seljendum, og býst ég við, að það stafi af því, að flutningaerfiðleikar hafa vaxið. Það, sem ég vil leggja áherzlu á, án þess að ræða málið frekar nú, er það, að ríkisstj. verður að leysast undan þeim vanda að þurfa að setja reglur um þessi mál án þess að hafa um það heimildir frá Alþ. Það, að það hefur verið beðið með að opna áfengisverzlunina, er vegna þess, að það var ætlazt til þess, að tekin yrði ákvörðun um þetta á aukaþinginu í haust, en vegna þess að till. þeirri, sem þá kom fram í málinu, var vísað frá, þá töldum við ekki rétt að opna áfengisverzlunina. Nú verður málið að fá afgreiðslu þingsins, og það liggur ekki nema tvennt fyrir, annaðhvort að loka alveg eða opna áfengisverzlunina og taka upp ákveðnar reglur um skömmtun á áfengi, — ótakmörkuð sala kemur ekki til mála. Þetta verður hæstv. Alþ. að taka ákvörðun um. Ef það tekur enga ákvörðun, liggur ekki annað fyrir en að opna áfengisverzlunina og fara eftir þeim l., sem um þetta mál gilda. Það er engin ástæða til þess, þó að málið sé vandasamt, að þm. komist hjá því að taka ákvörðun um það.