24.04.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (1474)

73. mál, áfengismál

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég er sammála hv. 2. landsk. þm. um, að ekki sé nauðsynlegt að vísa þessu máli til n., af því að þm. séu ekki reiðubúnir til að greiða atkv. strax. Hins vegar er það yfirleitt gangur mála hér á Alþ., að þeim sé til n. vísað, og vil ég ekki skorast undan, að svo verði líka nú.

Það hafa komið fram till. bæði um allshn. og fjvn., og virðist gæta nokkurs skoðanamunar um það, til hvorrar n. málið skuli fara. Yfirleitt hafa áfengismálin verið hjá allshn. deildanna, og þar sem allshn. í Sþ. hefur svipuðu hlutverki að sinna og í d., væri ekki óeðlilegt, að málið færi þangað, en hitt er líka rétt, að eins og málið liggur fyrir, er það mikið fjárhagsmál. Alþm. verða svo að ráða það við sig, hvort er þyngra á metunum, ef málinu verður vísað til n. En ég vænti þess, að hvor n., sem fær málið til meðferðar, finni mikilvægi þess og afgreiði það skjótlega.

Það mætti svara ýmsum fjarstæðum, sem fram hafa komið, einkum frá einum þm., en rétt er að láta það bíða almennrar umr. Ég hef ekki undan að kvarta undirtektum þeirri tveggja ráðh., sem talað hafa, mér fannst þeir ekki taka óliðlega í þáltill. Það var auðheyrt, að hjarta hæstv. fjmrh. var með okkur flm., en hæstv. forsrh. skaut málinu til þingsins og kvað sér skylt að fara eftir samþykkt þess. En ég vildi aðeins vekja athygli Alþ. á dagskrártill., sem fram er komin frá hv. 6. þm. Reykv., og aðallega vekja athygli hæstv. forseta á henni, því að hún er plagg, sem er einstakt í sinni röð, og hef ég þó um dagana séð framan í margar till. til rökst. dagskrár hér á Alþingi.

Það er ástæða til að gera þetta fáránlega plagg að umtalsefni, og vil ég þá fyrst minnast á það, að þar er sagt: „Þar sem Alþ. lítur svo á, að lokun áfengisverzlananna hafi, meðal annars, haft í för með sér aukið vínsmygl ....“ o.s.frv., — virðist vera gert ráð fyrir því, að alþm. hafi sannprófað af eigin sjón, að forsendur till. séu réttar, því að það væri hin freklegasta móðgun, ef búizt væri við, að við alþm. færum að fella dóm okkar eftir hugarburði annarra manna. Það, sem við eigum fyrst að álykta, er, að lokun áfengisverzlunarinnar þ.e. með því að loka aðaldyrunum, en hafa bakdyrnar opnar —, hafi haft í för með sér aukið vínsmygl. Hafa alþm. staðið vörð við skipin eða hvað? Ég vil spyrja, hvaða aðstöðu þeir hafi haft til þess, eða á ályktunin að hyggjast á því, að þeir hafi sjálfir tekið þátt í smyglinu? Því að þetta getur ekki verið byggt á því, að þeim sé þetta kunnugt, nema því aðeins, að þeim sé ætlað að hafa sjálfir tekið þátt í smyglinu eða staðið aðra að því. Ég veit ekki, hvort hv. þm. er að bera þm. það á brýn, að þeir séu beinir þátttakendur í vínsmygli, en það liggur næst að álykta, að svo sé, en hitt er auðvitað fjarstæða, að þm. hafi getað staðið við lúguhlera eða hverja dyragætt á hverju skipi, sem kemur í höfn hér í Rvík. Það er rétt að athuga þetta og gera sér grein fyrir, hvað í þessu felst, og hafi flm. ekki gert það sjálfur, þá vil ég hjálpa honum til þess að komast í skilning um það, hvað liggur á bak við orð hinnar rökst. dagskrár. Það næsta, sem þingmenn eiga að byggja á úrskurð sinn um að vísa málinu frá, er það, að þetta —hafi aukna leynivínsölu í för með sér. Hver er nú aðstaða hv. alþm. til þess að dæma um þennan hluta hinnar rökst. dagskrár? Hvernig hafa þeir átt að vera á verði á bílastöðvunum, þar sem þessi viðskipti eiga að fara fram, — eða er það meiningin, að alþm. hafi verið beinir þátttakendur í því að kaupa smyglað vín? Það liggur næst að álykta, að þessu sé þannig varið.

Þá er þriðja atriðið, sem fjallar um það, að bruggun hafi aukizt í stórum stíl. Hvað hafa hv. alþm. um þennan lið dagskrárinnar að segja? Það liggur næst að halda, að með þessu sé verið að gefa í skyn, að alþm. séu teknir upp á því að brugga. Hvernig er það hugsanlegt, að alþm. séu með nefið ofan í hverri kirnu og kopp í landinu, þannig að þeir gætu vitað um það, ef einhvers staðar hefði verið lagt í kerald? Einasta leiðin til þess, að þeir vissu eitthvað um þetta, væri þá sú, að þeir tækju sjálfir þátt í brugginu, ef þeir eiga að dæma út frá sinni eigin aðstöðu, eins og flm. till. virðist meina. Ég held, að hv. flm. till. hljóti að sjá það, að ísinn er að brotna undan honum, en væntanlega er vatnið ekki svo djúpt, að hann drukkni alveg, vonandi kemst hann upp úr. Það ber vott um harla einkennilegt sálarástand, að hv. þm. skuli bera slíka dagskrártill. fram sem þessa og ætlast til þess, að hæstv. forseti fari að bera hana upp hér á hæstv. Alþ. — Þá kemur það næst í þessari till., að lokunin, eins og hún er framkvæmd nú, hafi stóraukin kynni og viðskipti landsmanna við setuliðið í för með sér. Hvað hafa hv. alþm. um þennan lið þáltill. að segja? Hefur þetta orðið til þess, að þeir hafi haft meiri kynni af setuliðinu í landinu en ella? Hafa alþm. verið að bjóða setuliðsmönnum heim til sín til þess að reyna að hafa út úr þeim vín, eða með hverjum öðrum hætti ætti alþm. að vera þetta kunnugt ? Það má segja, að hér sé hver silkihúfan upp af annarri, en það er ekki allt búið enn. Svo kemur það að lokum, að af lokuninni hafi hlotizt neyzla ýmissa banvænna vökva. Það mætti nú kannske segja, að þetta ætti ekki beinlínis við alþm., þannig að enginn þeirra hefur hrokkið upp af af þessum sökum. Ég veit náttúrlega ekki um það, hvað kunnugleika alþm. hafa haft af slíku, en ég held, að það renni ekki sterkar stoðir undir það, að þessi slys eigi rót sína að rekja til þess, að áfengisútsalan hefur verið lokuð á þessu tímabili. Svo kemur niðurlag till. Það má að vísu segja, að það sé ekki út af fyrir sig móðgun gagnvart þm., en það sýnir svona, hvað stendur hér á bak við. Það stendur hér, að „í fullu trausti þess, að stj. taki nú þegar til rækilegrar athugunar, á hvern hátt er hægt að koma í veg fyrir, að landsmenn neyðist til að afla sér áfengra drykkja ólöglega“, og í fullu trausti þess, að ríkisstj. taki til athugunar, á hvern hátt verði komið í veg fyrir þetta, þá á að reka endahnútinn á með því að vísa þessari þáltill. frá, sem hér er til umr. Ég veit ekki, hvað þessi feluleikur á að þýða, ég held, að það hefði verið betra fyrir hv. þm. að ganga hreint til verks og segja, að hann vildi opna allt upp á gátt, í stað þess að snúa þetta allt eins og roð í hund. Nei, ég held, að það megi segja, að þetta sé sama endemið frá upphafi til enda. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þessa till. Ég veit, að hæstv. forseti reynir að fara sem mýkstum höndum um þennan óskapnað, en ég hef ekki komizt hjá því að benda á það, hvað fyrir dagskrártill. er mikil hringavitleysa frá upphafi til enda og flm. hennar og raunar Alþingi í heild til háborinnar skammar, að hún skuli fram komin.