04.05.1942
Neðri deild: 50. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

106. mál, byggingarsamvinnufélög

*Einar Olgeirsson:

Mér finnst vera um eitt mjög merkilegt atriði að ræða í sambandi við brtt. á þskj. 274, 2. kafla. Það hafa komið fram tvö mismunandi sjónarmið á því, til hvers lögin um byggingarsamvinnufélög voru sett í upphafi. Því hefur verið lýst hér yfir, að frá sjónarmiði Sjálfstæðisflokksins hafi tilgangurinn verið sá að veita eins konar styrki til þess að koma upp húsum. Hins vegar er það vitanlegt, að frá sjónarmiði ýmissa, sem börðust fyrir lögunum, var tilgangurinn sá að gera tilraun til þarflegra umbóta á sviði húseignafyrirkomulagsins í kaupstöðunum, að reyna að koma í veg fyrir brask. Það, sem hér er um að ræða, er það, hvort það á að dæma þessa tilraun til umbóta til dauða. Mér finnst eðlilegt, ef 2. gr. er samþykkt, að menn geti komizt undan þessu með því að borga sinn hluta, ef fallizt er á þetta fyrirkomulag, og að þeir séu lausir við alla ábyrgð, hvenær sem þeim þóknast, og þeir gætu hvenær sem er fengið peninga til þess að kaupa sinn hlut. Það er hér um að ræða að afnema smátt og smátt það, sem búið er að koma upp. Nú vil ég segja við þá, sem vildu gera þessa tilraun, að svo framarlega sem það sýnir sig, að grein eins og 2. gr. verður samþ., er þingið að kveða upp dauðadóm yfir þeim endurbótum, sem gerðar hafa verið á þessu sviði.

Ef ekki er hægt að tryggja með lögum um byggingarsamvinnufélög, að þessi tilraun fái að lifa áfram, vegna þess að það tekst ekki að samræma eignarrétt hins opinbera og einstaklinganna, þá sýnir það, að eina ráðið eftir þær aðfarir væri að tryggja hinu opinbera eignarrétt á slíkum húsum. Ég held, að þeir menn, sem með svona tillögum berjast á móti byggingarsamvinnufélögum og vilja afnema þau á tímum eins og þessum, þeir séu að hlúa að því, að hið opinbera eignist húsin sjálft, því að þeir menn, sem vilja afstýra braskinu, hljóta, ef 2. gr. er samþykkt, að vinna að því, að hið opinbera eigi húseignirnar, að því fé, sem hið opinbera leggur fram, verði varið til þess, að hið opinbera eigi húsin sjálft, svo að ekki sé verið að blanda saman eignum hins opinbera og einstaklinga. Ég vildi segja þetta til þess að vekja athygli þeirra, sem bera fram þessa tillögu, á því, hvert þeir eru að fara.

Ég held, að það sé heppilegra, að hið opinbera eigi húseignirnar og það gangist fyrir byggingu góðra húsa fyrir fjöldann og það komi í veg fyrir húsabraskið og lóðabraskið með því að eiga slik hús. Nú er fengin reynsla af því að fara þá leið, að blanda saman opinberum eignarétti og einstaklingseignarétti, og hér verður greitt atkv. um það, hvort slíkt fyrirkomulag á að standa. Ég er með því að gera þessa tilraun og móti því að drepa það, en ég vildi segja þetta til þess að þeir, sem vilja beita sér fyrir endurbótum á sviði húseigna og koma í veg fyrir húsa- og lóðabraskið, að þeir dragi réttar ályktanir af atkvæðagreiðslunni.

Að síðustu vil ég segja það, viðvíkjandi kvörtunum þeirra, sem standa að brtt. við 2. gr., um, að þeim, sem hafi lagt fé í þetta, væri gerður óréttur, að sá óréttur, sem þeim er gerður, er sá, að þeir fái ekki sama gróða af því fé, sem þeir hafa lagt í þessar húseignir, eins og því fé, sem þeir leggja í aðrar eignir. Þeir fá sömu tekjur af þessu fé og þeir fengju, ef þeir ættu það í sparisjóði. Órétturinn, sem þeim er gerður, er sá sami, eins og ef þeir hefðu lagt í sparisjóð. Nú verða menn að gæta að því, að eignarréttur þeirra, sem hafa lagt í húseignir, er takmarkaður gífurlega með húsaleigulögunum. Þannig, að það er ekki viðurkennt, að menn hafi fullan rétt yfir því, sem þeir leggja í húseignir. Hið opinbera tekur af þeim ráðin um það, og það húsabrask, sem fer fram með einstakar eignir, fer fram, án þess að menn séu vissir um að geta haft tilsvarandi meira upp úr þeim. Það eru þess vegna ýmsir, sem verða að þola misrétti, og er þetta lítið hjá því, sem meiri hluti þjóðarinnar verður að þola eftir þeirri löggjöf, sem þetta þing hefur klakið út, svo að ég hef enga löngun til þess að taka það tillit til fáeinna eignamanna, að þeir geti haft braskverð fyrir hús sín.