11.05.1942
Efri deild: 54. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

31. mál, til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar

*Frsm. (Páll Hermannsson):

Það hefur verið til umr. og afgr. hér á hæstv. Alþ. frv. um rafmagnsmál, sem sé frv. um rafveitur ríkisins. Og hæstv. Alþ. hefur nú samþ. það frv. og gert að l. Í þeim l. er gert ráð fyrir því, að ríkið taki að sér að reka nokkurn hluta af rafmagnsmálunum, sérstaklega dreifbýlisins, þannig að ríkið taki að sér að leiða rafmagnið ,frá raforkustöðvum til þeirra staða, þar sem á að nota það, en síðan taki við félög, sem annist dreifingu rafmagnsins til notenda.

Hér er svo á ferðinni annað frv., sem gerir ráð fyrir því, að rafmagn verði leitt frá Sogsvirkjuninni út til kauptúna í Árnessýslu og víðar, ekki á þann hátt, að ríkið takið það að sér, heldur á þann hátt, að til þess myndist félagsskapur, sem fái einkaleyfi um ákveðinn tíma til þess að leiða og selja rafmagnið til þessara staða og fái auk þess til þess sérstök hlunnindi, eins og t.d. undanþágu frá tekjuskatts- og útsvarsgreiðslu og enn fremur, að efni til þessa fyrirtækis verði undanþegið innflutningsgjöldum.

Iðnn. hefur athugað þetta frv. og rætt um það við forstöðumann rafmagnseftirlits ríkisins, og hann leggur til, að þetta frv. verði samþ. Og n. álítur, að það sé rétt af þessari hv. d. að gera þetta frv. að lögum. Iðnn. gengur sem sé út frá því, að jafnvel þó að sú aðferð, sem l. um rafveitur ríkisins gera ráð fyrir, sé einna heppilegust almennt, þá geti þó staðið svo á, að það sé heppilegra eða réttara að þurfa ekki að bíða eftir þeim framkvæmdum, hvað þessum stöðum við kemur, sem kunna að verða í samræmi við þau l., heldur gefa mönnum þarna kost á því, án íhlutunar ríkisins að ná til sín rafmagni frá Sogsvirkjuninni. Það er vitað, að Árnesingar eru um nokkur ár búnir að vita um þessa stóru virkjun við Sogið án þess að geta notið hennar, og er ekki nema eðlilegt, að þeir vilji gera hinar ýtrustu tilraunir til þess að mega ná þaðan þessu afli sér til nota.

Ég þarf svo ekki að segja um þetta frv. fleira fyrir hönd iðnn. annað en það, að n. ræður hv. d. til að samþ. það.