12.05.1942
Neðri deild: 56. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

55. mál, lækningaleyfi

*Garðar Þorsteinsson:

Ég og hv. 6. þm. Reykv. (JGM) berum fram brtt. við þetta frv., og er brtt. okkar á þskj.. 359, í tveim stafl. Fyrri brtt. er um það að stytta tímann, sem hægt er að gera læknakandidötum það að skyldu að vera aðstoðarhéraðslæknar eða gegna læknisstörfum í héraði, úr 6 mánuðum í 4 mánuði. Hin brtt., þ.e. síðari málsliðurinn, er um það, að launin, sem þessir aðstoðarlæknar skuli hafa, skuli hækkuð úr 400 kr. á mánuði upp í 500 kr. á mánuði, auk dýrtíðaruppbótar, og séu þá greiddar 400 kr. af því frá ríkissjóði, eins og nú er ætlazt til, en þessum læknum séu svo tryggðar 100 kr. á mánuði annars staðar frá.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, gengur út á það, að það sé heimilt að gera það að skilyrði fyrir því, að læknakandidatar fái ótakmarkað lækningaleyfi, að þeir hafi gegnt læknishéraði eða aðstoðarlæknisstörfum hjá héraðslækni í allt að 6 mánuði að loknu námi. Og ástæðan fyrir því, að þetta frv. er komið fram, mun vera sú, að erfitt mun hafa verið að fá lækna í ýmis héruð, sem hafa verið læknislaus, og eins það, að héraðslæknar hafa ekki getað fengið læknakandidata til að vera hjá sér. Með þessu móti, sem í frv. má sjá, á svo að þvinga það fram, að læknakandidatar taki við þessum störfum um ákveðinn tíma, og það á að gerast með þeirri aðferð að neita þeim að öðrum kosti um lækningaleyfi. Ég dreg nú nokkuð í efa, að þetta sé rétt leið til þess að bæta úr þessari annmarka. Það er a.m.k. svo, að Læknafélag Reykjavíkur hefur skrifað Alþ. bréf, þar sem það af ýmsum ástæðum mælir gegn því, að þetta mál verði samþ. Í fyrsta lagi telja þeir félagsmenn, að þetta nýmæli muni að vísu geta þvingað marga unga lækna til þess að vinna að þessum störfum, en samt sem áður muni þetta ekki bæta úr þeim vandkvæðum, sem eru tilefni þessa frv., því að naumast þurfi að búast við, að lækna kandidatarnir, sem gegn vilja sínum fari í slik embætti, muni ílengjast í héruðunum fram yfir þann nauðungartíma, sem þeir væru skyldaðir til að gegna störfum í héruðunum, auk þess sem þessi skyldukvaðartími sé mjög langur, og að þess sé krafizt af þessum mönnum (læknunum), að þeir þurfi að sigla og vinna við spítala erlendis, og í það fari jafnvel nokkur misseri. Það má þess vegna segja, að þessir menn séu orðnir gamlir, þegar þeir loks geta farið að gefa sig við sínu eiginlega lífsstarfi hér heima, eftir langt og dýrt nám. Og þeir kandidatar, sem taka að sér læknishéruðin, eiga að leggja sér sjálfir til lækningaáhöld, a.m.k. í mörgum tilfellum, sem eru mjög dýr.

Við, hv. 6. þm. Reykv. og ég, sem berum fram þessa brtt., viljum samt sem áður ekki skilyrðislaust beita okkur á móti þessu frv., af því að það kann að vera nokkur nauðsyn á ákvæðum í þessa átt. En við viljum, að tíminn sé ekki 6 mánuðir, sem ákvæði þessara l. miðast við, heldur 4 mánuðir. Það hlýtur þó að bæta nokkuð úr, en er þar hins vegar gengið nokkuð til móts við óskir læknanemanna. Ég get ekki fallizt á, að nauðsyn sé á að þvinga þá til þess að gegna þessum störfum lengri tíma. A.m.k. finnst mér ekki sanngjarnt að gera það að skilyrði fyrir ótakmörkuðu lækningaleyfi, að þeir gegni þessum störfum í 6 mánuði.

Í l., sem hafa verið afgr. eða eru í þann veginn að verða afgr. frá þessu þingi (50. mál.), er gert ráð fyrir því, að læknakandidatar fái sem aðstoðarlæknar 400 kr. í laun á mánuði úr ríkissjóði. Virðist ekki vera nema sanngjarnt, ef læknakandidatar eru þvingaðir gegn vilja sínum til að gegna þessum læknisstörfum að afloknu löngu og dýru námi, að þeir fái þá nokkrar sárabætur með því að fá aukin laun fyrir það. Og þess vegna er síðari stafl. brtt. okkar fram fluttur, um það, að þeim verði tryggðar a.m.k. 100 kr. á mánuði annars staðar frá en frá ríkissjóði eftir hinu frv. um þetta mál. Og þá er till. okkar hugsuð þannig, að um leið og. landlæknir semur við læknakandidat um að fara sem aðstoðarlæknir út í hérað, þá tryggi landlæknir kandidatinum með samningi a.m.k. þessar 100 kr. auk hinna 400 frá ríkissjóði. En ef þetta hérað, sem læknakandidatinn fer í, er ekki skipað, þá fái læknakandidatinn a.m.k..500 kr. úr ríkissjóði á mánuði. Ég veit af viðtali við ýmsa læknanema, að þeir telja nokkra bót í þessu, ef þeir fá hækkuð laun sín. Það er sitt hvað að fara — viljugur út í slíkt starf sem þetta, sem hér er um að ræða, eða fara í það nauðugur, og má því ekki minna vera en að læknakandidötum sé bætt það upp, og þá helzt með launaviðbót, ef þeir eru þvingaðir til þess að takast slík störf á hendur. Og að því miðar þessi brtt., sem ég vænti því, að verði samþ., því að hún er á fyllstu sanngirni byggð.