02.05.1942
Neðri deild: 46. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

81. mál, eignarnám hluta af Vatnsenda

Skúli Guðmundsson:

Það kemur ekki fram í þessu frv., hve mikill hluti af jörðinni frv. ætlast til, að keyptur verði. Nú stendur í bréfi skógræktarfélagsins, að land þetta sé ekki ýkja stórt, en bezta sauðfjárland bóndans á Vatnsenda. Mér er ekki kunnugt um þetta atriði, enda skiptir það ekki miklu máli, hvort stóran eða lítinn hluta af landinu á að taka. Hv. 1. flm. talar um óþarfa viðkvæmni mína í svo lítilfjörlegu máli. Ég vil endurtaka það, að ekki er rétt að eyðileggja að nauðsynjalausu fyrirmæli í erfðaskrám manna. Á síðari árum hafa margir menn lagt fram fé í sjóði til almenningsþarfa. Eru þegar til margir slíkir sjóðir, þar sem gefendurnir hafa með skipulagsskrám ákveðið, hvernig skuli ráðstafa fé sjóðanna. Ekki alls fyrir löngu hefur Alþ. sett löggjöf um eftirlit með opinberum sjóðum í því skyni að tryggja, að farið yrði eftir fyrirmælum gefendanna. Sú löggjöf mun styrkja þá trú manna, að einhverja þýðingu hafi að ráðstafa fé á þennan hátt. Ég tel því illa viðeigandi, að Alþ. fari að óþörfu að ógilda fyrirmæli í erfðaskrám, og hefur því ekki verið mótmælt af hv. 1. flm. Og ég sé ekki betur en brotið verði í bága við áðurnefnda erfðaskrá, verði frv. samþ. óbreytt. Ég vil því leyfa mér að bera fram þá brtt. við frv., að í stað eignarnáms komi leigunám, og mun afhenda forseta till.