17.03.1942
Neðri deild: 20. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

40. mál, læknisvitjanasjóður

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Þegar þetta eða skylt frv. til l. um læknisvitjanasjóði var hér fyrir síðasta reglulegu Alþ., mátti segja, að menn væru ekki alveg á eitt sáttir til að byrja með, hvert ætti að stefna í því efni.

Eins og kunnugt er, hafa margir hreppar, sem vitað er, að voru þannig settir, að þeir áttu erfitt til læknissóknar, fengið úr ríkissjóði nokkurn styrk. Hann hefur ekki verið mikill, en þó svo, að þá hefur um munað. Um þetta hefur ekki verið neinn ágreiningur. Þegar umsóknir um þessa styrki bárust til fjvn., bar mönnum ekki alltaf saman um, hvaða hreppur var betur í sveit settur en annar. Samt var vinsað úr, og mér er kunnugt, að það var engin örtröð af þessum umsóknum. Það var meira orð á því gert en raunveruleikar greindu. En svo kom það til, að fulltrúar tveggja sýslufélaga vildu haga þessu öðruvísi, og þannig varð þetta frv. til. sem hv. 2. þm. Rang. og landlæknir báru fram. En það er um það, að tekið verði upp annað form, þannig að hinir sérstöku hreppastyrkir falli niður, og öllu sé komið í eina súpu. Auk þess á, samkv. frv. þessu, að leggja nokkrar kvaðir á héraðsbúa til þess að þeir verði aðnjótandi þessara styrkja.

Ég og nokkrir fleiri hv. þm. vorum ekki alls kostar ánægðir með þetta í upphafi, og var það vegna þess, að við vildum ekki, að einstakir hreppar yrðu sviptir þessum styrkjum, sem að okkar dómi verðskulduðu þá. Fyrir það varð að samkomulagi, að inn í l. um læknisvitjanasjóði var sett ákvæði um, að þessir styrkir héldust, þótt einstakir hreppar héldu sig utan við sjóðina. Nú er samt svo komið, að landlæknir og sjálfsagt einhverjir meðal hv. þm. vilja koma þessu í það horf, að í rauninni eiga þessir hreppar ekki undankomu auðið, að geta haldið sér út af fyrir sig með sína styrki, svo framarlega sem læknisvitjanasjóður verður stofnaður í hverju héraði. Og eins og kunnugt er, þá virðist mjög auðvelt að stofna þessa sjóði, ekki sízt þegar nákvæmar reglur vantar um það. Örfáir menn geta t.d. fundið upp á að stofna læknisvitjanasjóð, sem gildir fyrir heilt hérað. Og þeir, sem styrks hafa notið og vilja balda honum áfram, en telja sig ekki bættari með því að fara í samlögin, verða nauðugir viljugir að fara inn í þessa sjóði, Nú er svo komið, að þar, sem hreppar eru sér um eignarhlutdeild í sjóðnum, eru þeir þrátt fyrir það háðir till., sem ráðsmenn þessara sjóða vilja vera láta. Þetta tel ég miður farið. Ég tel, að l., eins og þau voru orðin, hafi verið við hlítandi, þótt ég hins vegar hafi grun um, að þau hafi ekki komið að sérlega miklum notum.

Ég segi fyrir mig, að ég vil mótmæla því, að þessu er slegið svona saman, eins og í þessu frv. á sér stað. Með því er réttur einstakra, afskekktra og mannfárra hreppa, sem svo illa eru settir, að þeir geta vart styrklaust borið þann kostnað, sem af því leiðir að vitja læknis, mjög fyrir borð borinn. Þó að vegir og aðrar samgöngubætur hafi batnað mjög á síðari árum, þá vill svo einkennilega til, að það er tiltölulega dýrara að ná til læknis núna en áður var.

Þetta vildi ég segja til aðgæzlu fyrir þá hv. n., sem fær þetta til meðferðar. Ég vil ekki, að gerð sé nein réttarskerðing á einstökum hreppum, sem hafa fengið þennan styrk. Þeir eiga að halda honum öllum. Fyrir því tel ég réttara að haga orðalagi þessa frv. öðruvísi en hér er gert.