17.03.1942
Neðri deild: 20. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

40. mál, læknisvitjanasjóður

Helgi Jónasson:

Mér skildist á hv. þm. V.-Sk. sem hann áliti, að þær till., sem um þetta efni komu fram á þinginu í fyrra, hefðu komið af öfund okkar, sem þannig erum settir, að við áttum ekkert að fá í fjárl. til okkar héraða. Þetta er mesti misskilningur. Ég tók það fram í fyrra og einnig nú, hversu mikið ósamræmi væri orðið í þessum styrkveitingum. Þó að fyrir 20–30 árum væri sums staðar erfitt að ná til læknis, þá er það nú orðið ekki meiri erfiðleikum bundið en víða þar, sem enginn styrkur hefur verið veittur af því opinbera. Þessu vildi ég beina til hv. þm. V.-Sk. Í hans kjördæmi fá nú flestir hreppar styrk í fjárlögum, og að mínu áliti eiga þeir líka fulla sanngirniskröfu á því. En þar er það þó hvorki erfiðara vegna vegalengda né annars heldur en í fjölda hreppa á landinu, sem líkt stendur á um og engan styrk hafa fengið. Þetta viljum við samræma. Og ég get ekki séð, að sú breyt., sem ráðgerð er hér á l., skerði á neinn hátt rétt þeirra hreppa, sem áður hafa haft hlunnindi úr ríkissjóði til læknisvitjana. Tel ég breyt. þessa á l. eins réttmæta fyrir því, þó að ég vilji einnig, að þeir hreppar, sem notið hafa styrks í þessu efni, fái hann óskertan áfram. En verði ekkert gert í þessu efni þá átt, sem frv. fjallar um, fullyrði ég, að yfir Alþ. muni rigna umsóknum um slíka styrki frá 2. eða 3. hverjum hreppi í landinu.

Mikið hefur verið gert hér á landi til þess að greiða fyrir samgöngum. Ár hafa verið trúnaðar og vegir eru viða góðir. En þar sem 70–80 km leið er til læknis, þá vita allir, sem til þekkja, hvað kostar að kaupa bil alla þá leið til og frá. Bílkostnaður í slíkar ferðir getur orðið 80–100 kr., og allir sjá, hve dýrt þetta er ofan á allt annað, sem þeir, sem vitja þurfa læknis, verða að borga.

Það, sem samþ. var um þetta efni, læknisvitjanastyrkinn, í fyrra, var ekki stórtækt, og hefðu þau framlög kannske mátt vera hærri. En það var þó til stórra bóta fyrir héruðin, og það má alltaf bæta við þetta. Tel ég ekki erfitt að framkvæma l. frá í fyrra víðast hvar. Veit ég það a.m.k. fyrir mitt hérað. Læt ég svo útrætt um þetta.