15.04.1942
Efri deild: 33. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

18. mál, stimpilgjald

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti ! Mér skilst, að þetta frv. sé borið fram af hv. flm., vegna þess að honum finnst fullt tilefni til þess. Húseignir hér í Reykjavík og víðar hafa ver ið seldar miklu hærra verði. en sem svarar fasteignamati, og hv. flm. hefur viljað koma í veg fyrir, að menn slyppu við að greiða lögmæt gjöld í ríkissjóðinn. Í fyrra, þegar mál þetta var til umr., var ég sammála meðnm. mínum um, að með þessum breyt. væri að vísu alls ekki girt fyrir það, að menn gæfu upp skakkt söluverð og kæmu sér þannig hjá því að greiða lögmætt stimpilgjald, en þó væri innheimtunni komið í betra horf. N. varð þá sammála um að vísa málinu til ríkisstj. með beiðni um., að hún athugaði það. En eins og hv. þdm. er kunnugt, var þessi tillaga felld, en málið dagaði uppi. Hefur hv. flm. nú flutt frv. á ný. N. mælir með, að það verði samþ., — þó að hún viti, að það sé engan veginn öruggur mælikvarði á rétt stimpilgjald, þá er það þó betra en áður var. Hins vegar lít ég svo á, að það hafi verið ætlun löggjafans, þegar þessi l. voru sett, að með ákvæðum 14. gr. væri innheimtumönnum ríkissjóðs gert að skyldu að fá upp rétt söluverð, og hygg ég, að þeirri reglu hafi verið fylgt nákvæmlega víða úti um land. Má vera, að betra hafi verið að fylgja þessari reglu þar, vegna þess að þar fer söluverð ekki langt frá fasteignamati að öllum jafnaði. Okkur nm. þótti rétt að herða ákvæðin um ákvörðun stimpilgjaldsins frá því, sem nú er, ef innheimtumenn ríkissjóðs teldu vafa á því, að þeir gætu fengið upp rétt söluverð. Annars virðist mér, að í flestum tilfellum hljóti innheimtumennirnir að geta fengið upp rétt söluverð.

Hv. 11. landsk. hefur flutt brtt. á þskj. 100, sem alveg gerbreytir þeim anda, sem virðist vera í stimpilgjaldslögunum frá 1921, þar sem brtt. gerir ráð fyrir, að stimpilgjald verði ekki miðað við söluverð, heldur við fasteignamátsfjárhæð. Ég geri ráð fyrir því, ef þessi brtt. verða samþ., mundu þær verða til mikils léttis fyrir þá, sem eru í húsabraski hér í Reykjavík og sumum öðrum kaupstöðum landsins, en það getur þó tæplega verið meining löggjafans að ívilna þeim, sem eru í slíku braski. Mér finnst, að í fyrsta lagi sé hér vikið frá því, sem ætlazt er til í l. um stimpilgjald, á þann hátt, að þetta mundi koma harðast niður á þeim, sem ekki á að refsa. Í öðru lagi mundi þessi breyting koma harðast niður á þeim, sem selja eða kaupa eignir úti á landi. Enn sem komið er mun söluverð eigna ekki vera eins hátt víða úti um land eins og hér er gert ráð fyrir, eða tvöfalt fasteignamatsverð. Mér hefur skilizt það, að fasteignamat á húsum hér í Reykjavík sé allmiklu lægra miðað við kostnaðarverð heldur en er úti á landi, og þess vegna mundi þessi brtt., sem ætlazt er til, að nái helzt til húsabraskara í Reykjavík, alls ekki ná tilgangi sínum, heldur koma langharðast niður á efnalitlu fólki í hinum fámennari byggðarlögum, þar sem fasteignámat er tiltölulega hærra en í Rvík, og því nær kostnaðarverði og venjulegu söluverði. Vegna þessara ástæðna sé ég mér ekki fært að samþ. brtt hv. 11. landsk. og mun því greiða atkv. móti henni.