20.05.1942
Efri deild: 62. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

128. mál, ógilding gamalla veðbréfa

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Herra forseti ! Þetta frv. er flutt af allshn. hv. Nd. eftir ósk dómamálarn. En frv. hafði verið samið að tilhlutun héraðsdómara og þess óskað af þeim, að stjórnin flytti það. Og frv. fer fram á að veita héraðsdómurum sérstaka heimild til þess að afmá veðskuldbindingar úr veðmálabókum. Reynslan hefur sýnt, að það kemur ekki sjaldan fyrir, að þeir, sem greiða upp veðskuldir, sem hvílt hafa á fasteignum og öðrum eignum og þinglýst er, láta undir höfuð leggjast að fá þau bréf afmáð úr veðmálabókum. Og þegar lengri tímar líða, þá verða veðmálabækurnar ekki í samræmi við raunveruleikann, að því er þetta snertir. Áður en l. um þetta efni voru sett árið 1933, þá voru afgamlar veðskuldir, sem skráðar voru í veðmálabókunum, að hvíldu á fasteignunum, sem vitanlega voru löngu greiddar, en enginn vissi, hvar bréfin voru niður komin, til þess að geta afmáð þau úr bókunum. Til þess að ráða bót á þessu, voru l. um þetta efni sett 1933, og héraðsdómurum og bæjarfógetum veitt heimild til þess að gefa út, undir vissum kringumstæðum, stefnu til ógildingar á þeim bréfum, sem höfðu verið gefin út fyrir 1. jan. 1905. Og þetta hafði þau áhrif, að mikið var hreinsað til og skýrðist mikið um eignahlutföll í fasteignum, sem áður var nokkuð á huldu. En nú hefur komið í ljós, að þetta hefur ekki verið nægileg hreinsun, því að það eru mörg bréf, sem gefin hafa verið út eftir 1. jan. 1905, sem enginn hefur framvísað til þess að afmá úr veðskuldabókum, enda þótt vitað sé, að það er ekki greitt af þeim. Þess vegna er þetta frv. borið fram. Og það er svo að segja orðrétt eins og l., sem samþ. voru 1933 á Alþ. Og þar sem reynslan hefur sýnt, að ekki hefur verið neitt athugavert við framkvæmd þessara l. um þetta efni frá 1933, þykir ekki ástæða til annars en að leggja til, að þessi heimild verði veitt á ný. En henni er ætlað að ná til allra bréfa, sem út eru gefin fyrir 1. jan. 1920, en að öðru leyti verður fylgt þeim reglum, sem eldri l. segja til um viðvíkjandi framkvæmd þessa máls. Hefur allshn. orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.