16.05.1942
Efri deild: 59. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Ég hefði ekki kvatt mér hljóðs, ef hæstv. atvmrh. hefði ekki beint til mín beinni spurningu. Hann spurði, hvað ég héldi, að gert yrði, ef ríkissjóð skorti , fé og hér bæri einhver stórvandræði að höndum, áður en stríðinu lyki. Ég vil benda honum á, að þetta fé fer ekki á fjöll, jafnvel þó að þetta frv. verði samþ., ef fé gæti þá bætt úr þeim vandræðum, sem kynnu að höndum að bera. Gæti þá ríkissjóður sjálfsagt tekið þetta fé að láni. En annars hef ég ekki trú á því, að meðan stríðið stendur, beri þannig löguð vandræði að höndum, að peningar geti mikið úr bætt. Hæstv. ráðh. vildi gera mun á venjulegum l., sem hann kallaði, og þessum l., vegna þess að venjuleg l. væru framkvæmd þegar í stað, en þessi l. ekki. En þetta er misskilningur. Það á að framkvæma þessi l. þegar í stað, að því leyti að leggja þetta fé til hliðar. Hann minntist á l. um jöfnunarsjóð ríkisins, sem sett voru að ég ætla árið 1932. Það er alveg rétt hjá honum, að þessu frv. svipar að nokkru til þeirra l., en þó eru þau algerlega miðuð við venjulegt ástand, þegar gengur upp og niður fyrir ríkissjóði, en alls ekki miðuð við hið óvenjulega ástand, sem nú hefur skapazt. Þess vegna er það, að það, sem átti vel við 1932 á ekki við öllu lengur. Í frv. er gefin alveg sérstök heimild til þess að nota þetta fé í ákveðnu augnamiði, til þess að rétta við atvinnulíf þjóðarinnar að stríðinu loknu, en jöfnunarsjóður var alveg sérstaklega miðaður við þarfir ríkissjóðs, ef þær yrðu stundum meiri en á öðrum tíma. Ég held því, að ekki sé beinlínis þörf að nema l. um jöfnunarsjóð úr gildi; þó að þetta frv. verði samþ.

Þá vék hv. þm. að viðlagasjóðnum gamla og virtist halda, að hann hefði verið stofnaður til þess að útvega landsmönnum veltufé, — vera eins konar lánsstofnun. Þetta er misskilningur. Hann var stofnaður til þess að tryggja ríkissjóð, — hann var varasjóður ríkissjóðs. Hitt er annað mál, að hann var ávaxtaður með því að lána úr honum oft og tíðum einstökum mönnum og stofnunum. Því að þegar viðlagasjóðurinn var stofnaður, var engin lánsstofnun til í landinu, sem gæti tekið við slíku fé til ávöxtunar. Voru þá slegnar tvær flugur í einu höggi, að tryggja ríkissjóð og veita fé út til atvinnulífsins. En það kemur ekki þessu máli við, þó að það, sem eftir var af viðlagasjóði, hafi verið afhent Búnaðarbankanum. Það var ekki gert vegna þess, að það væri sérstaklega í samræmi við fyrra starf viðlagasjóðsins, heldur af því, að þarna voru til peningar til að láta Búnaðarbankann hafa. Og hann var látinn hafa það sem eins konar stofnfé til þess að koma honum á laggirnar í fyrstu.

Þá taldi hv. ráðh. það meginmun á þessu og varasjóðum félaga, að sömu menn hefðu umráð yfir þeim ár frá ári, en hins vegar breytilegt, hverjir sætu á þingi, skildist mér. En í sumum félögum, sem hafa varasjóði, er það svo, að þeim málum er ráðið til lykta á fulltrúafundum, þar sem fulltrúarnir eru kosnir árlega, en ekki til 4 ára eins ag alþm. Svo að ég held, að þessi rökfærsla nái ekki langt.

Hv. 10. landsk. skal ég ekki svara miklu. Hann kvað einhverja framsóknarmenn hafa borið fram till. um að taka 3 millj. til væntanlegra ráðstafana út af sauðfjárpestunum. Ég sé ekki, að sú till. komi þessu máli neitt við. Hv. þm. sagði, að þar eð ég teldi ekki þörf á að samþ. till. hans, af því að heimild til sömu framkvæmda og till. fjallar um fælist í frv., mætti mér standa á sama, þótt frv. væri visað til stj., enda kærði ég mig ekki um að telja upp það, sem ætti að gera með þetta fé. Kvað hann þá stj. mundu ráðstafa fénu í sama tilgangi sem búið var að tala um. En hér er tvennu ólíku saman að jafna. Frv. hefur inni að halda heimild til alls þess sama sem till. hv. þm. fjallar um, þó að það sé ekki eins greinilega orðað í frv. En þó að frv. verði vísað til stj., þá hefur stj. enga heimild til að nota þetta fé öðruvísi en með frekari ákvörðun Alþingis, í fjárl., eða með þál. o.s.frv. Því að þótt umframgreiðslur hjá stj. séu samþ. eftir á, þá veit hv. þm., að samkv. stjórnarskránni hefur stj. ekki heimild til að greiða fé ríkissjóðs, nema með því móti, að Alþ. hafi á einhvern hátt veitt heimild til þess.