21.05.1942
Neðri deild: 63. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Ed. hefur gert á þessu frv. nokkra breyt. Er hún á þá leið, að tekin er upp í 1. gr. frv. upptalning á nokkrum verkefnum, sem ætlazt er til, að fé framkvæmdasjóðs verði notað til, þegar þar að kemur. Ég tel, að þetta hafi verið óþarft í sjálfu sér, en vil þó mæla með, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, heldur en að farið verði að hrekja það á milli d., þar sem mér virðist eins og 1. gr. er orðuð, að þessi upptalning sé nánast ábending, að það geti komið til athugunar, sem þar er til greint, en einnig sé hægt að verja fé sjóðsins til fleiri framkvæmda en þar eru taldar upp, enda er fram tekið í 3. gr. frv., sem Ed. hefur enga breyt. gert á, að Alþ. skuli sérstaklega taka ákvarðanir um, hvernig fé sjóðsins skuli varið. Ég tel því rétt fyrir d. að samþ. frv. eins og það liggur fyrir, en þar sem nokkur ágreiningur var um frv., þá vil ég skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann geti ekki fallizt á að fresta atkvgr. þar til síðar, er fleiri hv. þm. væru í d.