20.05.1942
Efri deild: 62. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

112. mál, ríkisborgararéttur

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Herra forseti ! Þetta frv. hefur legið fyrir hv. Nd. og verið samþykkt þar og hefur verið vísað til allshn. þessarar hv. d. eftir 1. umr. þess hér í d. En meðan n. hafði málið til meðferðar, barst n. umsókn um að bæta við einum manni inn í frv., sem er norskur maður að nafni Jostein Sölvberg, sem á heima á Hjalteyri, en er fæddur í Noregi.

Eftir að allshn. hafði athugað þau gögn, sem umsókn þessari fylgdu, komst hún að raun um, að þeim kröfum, sem gerðar eru til þeirra manna, sem sækja um ríkisborgararétt, var hjá þessum manni fullnægt. Leggur n. til, að honum verði bætt inn í frv. og það samþ. með þeirri breyt.

En sá galli er á skilríkjum, sem fylgja öllum þessum umsóknum um ríkisborgararétt, sem frv. er um, nema frá þessum Sölvberg, að það vantar alls staðar vottorð um það, hvort þeir hafi orðið sekir við landslög í föðurlandi sínu. En það er eitt af þeim skilyrðum, sem l. um ríkisborgararétt setja, að þeir, sem um hann sæki, færi sönnur á það, að þeir hafi ekki gerzt sekir við lögin í sínu eigin landi. En ástæðan til þess er, að ekki hefur verið hægt að láta þessi vottorð fylgja umsóknum þessum. En dómsmálaráðuneytið hefur lagt til, að vikið verði frá þessari kröfu í þetta skipti, þar sem vitað er, að vegna samgönguleysis við Norðurlönd er ekki hægt að fá þessi gögn. Og allshn. hv. Nd. hefur lagt til, að vikið væri frá þessu skilyrði. Allshn. þessarar d. hefur ekki viljað leggjast á móti því, að þessum, mönnum verði veittur ríkisborgararéttur, enda þótt þessu sé þannig áfátt, eins og ég hef nú lýst.