22.05.1942
Efri deild: 66. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

144. mál, Eyri við Ingólfsfjörð

*Ingvar Pálmason:

Ég tók eftir því við 1. umr., að þessu máli var ekki vísað til n. Vera kann, að ekki sé ástæða til þess, þar sem störfum þings er það langt komið, að n. munu ekki geta sinnt mikið málum, sem til þeirra kynni að vera vísað, en ég verð að segja, að þetta er mjög óvenjuleg aðferð, og ég efast um, að þingið hafi nokkurn tíma heimilað sölu á eignum ríkisins, án þess að n. ætti kost á að kynna sér málið. Má vel vera, að engin ástæða sé til annars en að leyfa þessa sölu, en ég er þessu máli alveg ókunnugur, og af þeim gögnum, sem fyrir liggja, get ég ekki séð, að brýn nauðsyn sé á, að þetta mál gangi í gegnum þingið, án þess að það sé athugað af n., a.m.k. í annarri d., en ég hygg, að frv. hafi verið lítið athugað í Nd., og í þessari d. hefur athugunin verið engin. Byggi ég þetta á því, að þeir, sem fara fram á að fá kauparétt á þessari landspildu, hafa leigurétt á henni nú. Að vísu er það svo; að leiguréttur þeirra er ekki frá ríkisstj., heldur sitja þeir í leigu frá leigjanda. Þetta kann að vera að einhverju leyti bagalegt, en mér finnst samt, að með þessu sé alveg vikið frá þeim venjum, sem fylgt hefur verið hér á þingi, og án þess að ég ætli að setja fótinn fyrir þetta frv., þá verð ég að segja, að mér finnst aðferðin svo óviðeigandi, að ég mun alls ekki greiða atkv. um þetta frv. Ég kunni ekki við annað, af því að málið ber svo óvenjulega að, en að benda á, að þessi aðferð er mjög óvanaleg.