25.05.1942
Efri deild: 66. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

136. mál, tollskrá o.fl.

*Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Ég get því miður ekki orðið við þessum tilmælum hv. þm., vegna þess að ég hef ekki borið mig saman við hæstv. fjmrh., en það er hann að sjálfsögðu, sem mun ákveða, hvort þessi heimild verður notuð. Ég veit ekki hins vegar, hvort hv. 11. landsk., sem er honum nákominn í embættisfærslu, mundi nokkru geta um það svarað. En ég vil aðeins segja það um þetta ákvæði, að eins og till. var upphaflega, þá fannst mér hún óheppileg, og þótti mér því vænt um, að hún var ekki samþ., einmitt af þeim rökum, sem hv. 1. þm. Eyf. greindi, að tollskráin er reiknuð út með fragt, sem á að innheimta toll af. Það eru til um þetta tvær mismunandi reglur, að reikna tollinn af verði vörunnar, kominnar um borð, eða á ákvörðunarstað. Fyrri reglan var notuð, þangað til tollskráin var leidd í lög, en hin reglan var tekin upp með þessari tollskrá. Það hefur verið talas um, að það raskaði þessum grundvelli allmikið að reikna tollinn af þessum stríðsfarmgjöldum. Út frá því hefur þetta mál verið athugað, og hefur þá upplýst, að það munar ótrúlega litlu. Það var reiknað út í fyrri mþn. með 50% –100% hækkun, og kom þá í ljós, að hækkun á vöruverði af þessari ástæðu væri svo lítil, að óhugsandi væri, að það kæmi fram á verðlagi vörunnar nema á örfáum vörutegundum, eins og sementi.

Ég vildi aðeins benda hv. þm. á þetta, áður em till. kæmi til atkvæða. Ég vildi mælast til þess, að hv. þm. létu frv. fara óbreytt í gegnum d., og ég óska eftir því, að komi einhverjar brtt. fram, þá verði fleiri þm. staddir í d. heldur en nú. En ég hef ekkert vald eða umboð til að svara fyrirspurn hv. þm.