20.03.1942
Neðri deild: 23. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (2397)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það hefur verið minnzt á það, og því verið svarað, af þm. 5. þm. Reykv., að það mætti kalla það lélega forustu, að ekki hefði komið frá stj. frv. til nýrra stjórnskipunarl., til þess að við tökum einnig að forminu til í okkar hendur þau mál, sem Danir hafa farið með. En það þarf ekki að endurtaka það, sem hæstv. fjmrh. hefur um það sagt, að Alþ. var sammála um að breyta ekki stjskr.

Þessi ummæli hv. 5. þm. Reykv. eru því á misskilningi byggð. En hitt er annað mál, sem jafnframt gat falizt í þessum orðum hv. þm., að Alþ. væri óánægt með þá forustu, sem það hefði í ríkisstj. Það er vitað mál, að á slíkum tímum sem þessum gætir mikillar óánægju bæði hjá Alþ., ríkisstj. og meðal þjóðarinnar yfirleitt. mönnum hættir við að deila, því að þau viðfangsefni, sem við höfum við að stríða, eru allt önnur en á venjulegum tímum. Það er ekki hægt að koma af stað ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum vegna. örðugleika, sem alltaf sigla í kjölfar styrjalda. Óneitanlega væri mjög æskilegt að geta byggt íbúðarhús í þessum bæ, en það er ómögulegt vegna þess, að allt byggingarefni vantar. Það þarf að gera við höfnina, en það vantar timbrið til þess. Sama máli gegnir um ræktunina. Nú fyrir 2 dögum kom sú frétt til landsins, að skipið, sem átti að koma með tilbúna áburðinn, hefði forfallazt, svo að vafi er á, hvort við getum haldið við þeirri túnrækt og garðrækt, sem við erum nú búnir að gera. Þó voru áburðarpantanir sendar í ár með þeim lengsta fyrirvara, sem hugsanlegt var, til þess að þær kæmu í tæka tíð. Þannig er það með flest þau viðfangsefni, sem við verðum að berjast við, og á þessum tímum er áríðandi, að reyna að komast sem slysaminnst í gegnum það neyðarástand, er við lifum nú við á þessu landi.

Ánægjan getur aldrei orðið mikil með störfin, hvorki fyrir þá, sem vinna þau, eða fyrir þá, sem unnið er fyrir. Og það eru einmitt þessar aðstæður allar, sem eiga að gera mönnum það fráleitt að koma fram með frv. eins og það, sem nú liggur fyrir, vegna þess að það er einna líklegast til að valda miklum deilum á Alþ., eins og ég drap á í gær. Það má lengi ræða um þessi mál, og mætti þá minnast á þann rétt kjósendanna, sem ýmsir sjá og telja, að sé misboðið með því að hafa það stjórnarkerfi, sem við nú höfum, vegna þess hve flokksvaldið ræður þar miklu. Ýmsir merkir menn þjóðarinnar hafa bent á það, að sumir þeir menn, sem nú sitja hér á Alþ., sitji þar ekki nema í skjóli flokksvaldsins, en ekki í umboði fólksins á víssan hátt. Hv. 4. þm. Reykv. hefur komið fram með till. um að skipta landinu í færri kjördæmi, og það fyrir þá sök, að hann telur, að með því að skipta landinu í svo mörg kjördæmi sem nú er, geti frambjóðendur notað peninga til að afla sér meira fylgis. Ég hygg, að þó að landinu væri skipt í 5 eða 7 kjördæmi, yrði nokkurn veginn það sama uppi á teningnum.

Viðvíkjandi uppbótarþingsætum er það að segja, að nokkuð hefur þótt bera á því, síðan uppbótarfyrirkomulagið var lögleitt, að þeir þm., sem kosnir voru sem uppbótarþm. almennt, hafa getað neytt þeirrar aðstöðu, eins og hv. 5. þm. Reykv. benti á, að yfirbjóða hina þm., sem hafa umboð fyrir kjördæmið. Þessi galli á kjördæmaskipuninni er einn sá ískyggilegasti fyrir okkar stjórnarkerfi. Með því að hafa hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum yrði jafnframt bætt við því kapphlaupi milli þeirra þm., sem eru í kjördæminu. Sennilega yrðu þeir sinn úr hverjum flokki. Vitanlega yrðu þeir í stöðugu kapphlaupi hvor við annan um að vinna sem mest fyrir héraðið. Ef nokkuð gæti orðið til þess að auka deilur á Alþ,, þá mundi slík hlutfallskosning í kjördæmum gera það. Nú eru flestir þm. úr tvímenningskjördæmninum mjög samhentir um velferðarmál kjördæma sinna, og ágæt samvinna ríkir milli þeirra. Það þekkjum við af margra ára reynslu á Alþ. En ef hlutfallskosningu yrði komið á í þessum kjördæmum, væri samvinna þessi úti.

Ég vil ekki endurtaka það, sem ég sagði í gær, og það hefur ekkert komið nýtt fram, sem beint hefur verið til mín. Ég minntist sér staklega á í sambandi við þetta mál, að yrði frv. þetta samþ., mættum við búast við kosningum aftur, og ekkert mál væri líklegra til að valda deilum og ófriði en kjördæmamálið. En hv. 5. þm. Reykv. minntist á ávarp, sem ég hefði gefið út nú fyrir bæjarstjórnarkosningarnar, og var að fetta fingur út í það, sem ég ræddi þar um bæjarmál Reykjavíkur frá almennu sjónarmiði. Ég mun hér ekki ræða ýmsar blaðagreinar og ávörp, sem ég hef skrifað, en ég vil þó segja, að vitanlega getur mér yfirsézt um málefni Reykjavíkur eins og öðrum. En það hefur ekkert ávarp í þessum kosningum verið sett fram af meir sannfæringu heldur en það, sem ég sagði um atvinnuvegi Reykv. eftir styrjöldina og þær framkvæmdir, sem ég taldi nauðsynlegar nú þegar. Ég hef áður látið í ljós þá „kommúnistísku“ skoðun, að ég trúi ekki á einstaklingsframtakið. Nú upp á síðkastið sýnir atvinnur þróunin í bænum, að voði er fyrir dyrum, ef við treystum á einstaklingsframtakið, og það ekki eingöngu fyrir Rvík, heldur og fyrir landið allt. Það er fyrst og fremst Alþ., sem þarf að koma auga á og leysa vandamál atvinnuveganna, og við verðum að hafa skilning og víðsýni til að taka upp þau vinnubrögð í atvinnumálunum, sem hljóta að koma eftir þessa styrjöld. Og það verður ekki einstaklingsframtakið, sem þá kemur til greina, í þeirri mynd, sem við nú þekkjum það, þótt ekki taki við nazismi eða kommúnismi, heldur verða meiri samtök en áður milli einstaklinga, ríkis og bæjarfélaga, og einstaklingsframtakið verður beinlinis hagnýtt í þágu þess opinbera innan vissra takmarka. Ég tala nú ekki lengra inn á þetta mál. En í tilefni af ummælum, sem fallið hafa hjá einu blaki bæjarins í dag, út af því, hvort rétt sé að gera þessi mál opinber, vil ég taka fram, að ég tel fulla þörf á að við gerum okkur allar hliðar málsins ljósar. Það þarf ekki neinn flokkslegan fjandskap, þó að sett séu fram sjónarmið, sem nauðsynlega þurfa að koma fram. Þó að ekki sé samvinna um málin, má enginn láta undir höfuð leggjast að setja skoðanir sínar fram.

Í sambandi við kosningafrestunina féllu þau orð, bæði hjá hv. 5. þm. Reykv. og hv. þm. V. Sk., að þeir, sem ætla að „brjótast út úr friðarhringnum“, eins og það var orðað, verða að gera grein fyrir því, hvers vegna þeir gera þá, fyrir þá sök, að það væru sízt minni ástæður nú til þess að fresta kosningunum heldur en var, þegar kosningunum var frestað fyrir tæpu ári síðan. Í þessu máli hafa gerzt þeir atburðir, sem hv. þm. eru vel kunnir, að einn þm. sagði af sér þingmennsku s.l. sumar. Og þegar kom til athugunar, hver ætti að fylla það skarð, á héldu Framsfl. og Alþfl. því fram, að þm. yrði úr þeim flokki, sem átt hefði sætið áður. Þetta gat Sjálfstfl. ekki fallizt á. Það var ef til vill sök ríkisstj., að ekki var skriflega gengið frá því, hvernig fara ætti, ef þm. segði af sér. Það var auðsætt mál, að hefðu kosningar farið fram í Norður-Ísafjarðarsýslu, þá hefðu allir þm., sem voru óánægðir með kosningafrestunina, sagt af sér og krafizt kosninga í sínum kjördæmum. Má nefna hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Vestm., og þannig var ástatt um fleiri þm., sem voru óánægðir með kosningafrestunina, þó að þeir létu tilleiðast að slíta ekki stjórnarsamvinnunni. Það er ekki enn búið að kjósa í N.-Ísafjarðarsýslu, vegna þess að ég sem forsrh. neitaði að láta kosningar fara fram. Ef ég hefði leyft þær þá, var ekki hægt að neita öðrum hv. þm. að láta kosningar fara fram í kjördæmum þeirra.

Þegar þessi krafa var uppi á teningnum, var því . haldið fram af Sjálfstfl., að Alþfl. væri dauður flokkur. Alþfl. svaraði með því að krefjast almennra kosninga, þegar hann fékk ekki þingsæti sitt í N.-Ísafjarðarsýslu mótsagnarlaust. Eftir að þessi krafa Alþfl. kom fram, var hafin hatrammleg árás á mig fyrir að hafa ekki tafarlaust látið fara fram almennar kosningar. Það var talað um, að bæjarstjórnin mundi fresta bæjarstjórnarkosningum, en eftir að ágreiningurinn reis með N.-Ísafjarðarsýslu, náðist ekki samkomulag um þessa frestun, og þess vegna voru þær látnar fara fram. Ég álít, að frestun bæjarstjórnarkosninganna væri nauðsynleg og þessi niðurstaða hafi verið hinn mesti pólítíski ósigur fyrir flokkana alla, vegna þess að það ber vott um vanþroska. Ég er sömu skoðunar eins og fyrir ári síðan, þegar ég áleit rétt að fresta kosningunum. En mér hefur stórlega yfirsézt, þegar ég trúði því, að flokkarnir hefðu þroska til að framkvæma þetta mál. Þegar deilan reis um eitt einasta þingsæti, var ómögulegt að koma í veg fyrir pólitíska baráttu, sem hlaut að hafa þessar afleiðingar. Ég sagði mínum flokki það í fyrra, að væri ekki einróma samþykkt hjá Alþfl. um að fresta kosningunum, tæki ég ekki á móti heimild til að framkvæma kosningar. Og ég er enn á sömu skoðun.

Það er vitað, að Alþfl. hefur birt opinberlega um þessi mál, að hann sé frestuninni mótfallinn. Ég og fleiri hér á Alþ. erum þeirrar skoðunar, að þó að samkomulag náist um kosningafrestunina, á sé ekki fært að framkvæma hana, jafn vel þó að þörfin sé nú enn þá meiri heldur en s.l. ár. (GSv: Samþykktin er í gildi.). Um það eru nokkrar júridískar deilur, hvort þurfi heimild til þess að láta kosningar fara fram eða ekki, og ég fer nú ekki inn á þetta atriði að svo komnu. En ég álít, að þótt þörf sé á að fresta kosningum, getum við það ekki, nema við sýnum þann þroska að standa saman um það. Það hlýtur að vera sprottið af óánægju hjá stjórnarandstæðingum með ríkisstj., og það getur verið varhugavert, þegar þeir halda því fram, að stjórnarflokkarnir hafi ekki þorað að láta kosningar fara fram. Það, sem ég var hræddur við í sambandi við kosningafrestunina, var, að mikið af mönnum kæmi fram á sjónarsviðið, sem segði, að stjórnarflokkarnir þyrðu ekki að láta kosningar fara fram af ótta við að fá ekki meiri hluta þjóðarinnar með sér. Þessu hefur daglega verið haldið fram. Ég álít, að svo mikil hætta stafi af þessum undirróðri, að það sé hættulegra fyrir stjórnarkerfi vort heldur en láta nú til skarar skríða og vera lausir við þennan undirróður næstu 4 ár. Þetta er afleiðingin af þeim vanþroska, sem ekki verður afstýrt. Hins vegar lít ég þannig á, að það sé ekki bætandi á þann eld, sem verður í kosningunum í vor, með því að innleiða í Alþ. nú það mesta deilumál, sem uppi hefur verið í landinu. Það er undarlegt, þegar flokkarnir hafa verið ófáanlegir til að breyta þessu ákvæði stjórnarskrárinnar síðustu 10 ár. Eftir því, sem hæstv. fjmrh. upp1ýsti, var Alþfl. ófáanlegur til að breyta þessu í samvinnu við Sjálfstfl. Nú, þegar ástandið í landinu hefur aldrei verið ískyggilegra, er allt í einu orðið nauðsynlegt að breyta stjskr. Hvað veldur þessu? Ef þetta mál, sem hefur mátt bíða í tíu ár, þarf að takast upp núna á þessum tímum., þegar kosningum var beinlínis frestað í fyrra til þess að hafa frið í landinu, þá finnst mér það í fyllsta máta undarlegt. Það er auðsætt mál, að þar að auki er ekki takandi í mál að breyta stjskr., þegar konungssambandinu er ekki slitið, því að þegar þessi breyt. yrði tilkynnt erlendum þjóðum, þá verður hún tilkynnt sem breyt. á stjskr. konungsríkisins Íslands. (GSv: Enn þá heitir hún stjórnarskrá konungsríkisins Íslands.) Hún heitir það núna og kemur til með að heita það líka eftir breyt. , En mér finnst það í hæsta máta undarlegt, að þessi breyt. skuli ekki mega bíða í eitt til þrjú ár, úr því sem komið er.

Hafa menn gert sér grein fyrir, hvaða afleiðingar það hefur að breyta þessu núna? Fyrst verða nú kosningar í vor. Síðan verður Alþ. samþ. þetta, og þá er það fyrst orðið að l., og þegar það er orðið að l., þá stendur svo í frv., með leyfi hæstv. forseta: „Umboð þingmanna fellur niður, þegar stjórnarskipunarlög þessi öðlast gildi, og fara þá fram almennar kosningar til Alþingis.“

Kosningar eiga að fara fram í júní, svo kemur þingið saman í júlí, og samþ. þetta, og um leið, sama dag og það er samþ., er umboð þm. þurrkað út. — Þá þurfa að fara fram kosningar aftur seinni partinn í sumar eða fyrri partinn í vetur. Er nokkuð vit í þessu? Nei, ég held og er þess fullviss, að með þessari breyt. sé verið að leggja út í eins mikið ábyrgðarleysi og lengst er hægt að komast hér á landi.