22.05.1942
Efri deild: 64. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (2490)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Árni Jónsson:

Hæstv. forseti gat þess, að æskilegt væri, að menn hefðu ekki mjög mörg orð um þetta mál, og sízt vil ég verða til þess að lengja þessar umr. mikið, en verð þó að segja hér nokkur orð, vegna þess að svo stendur á, að ég hef sérstöðu til þessa máls — ekki þessa máls, heldur þess máls, sem var náskylt þessu, sem var kosningafrestunin frá í fyrra.

Ég skal játa það, að hv. 1. þm. N.- M. getur talað djarft, því að hann var sá eini, sem raunverulega var á móti kosningafrestuninni, enda lagði hann ekki fingurinn á milli, hvort sem hann talaði um sinn eiginn forsrh. eða aðra. Það fer fjarri því, að ég sjálf eftir að hafa greitt atkvæði með kosningafrestuninni, þegar hún var samþ. hér á þingi í fyrra. Ég játa, að þan rök, sem voru borin fram þá, hafi verið réttmæt, og af því að ég álít, að kosningafrestunin hafi verið réttmæt í fyrra, hef ég talið ekki einu sinni réttmætt, heldur sjálfsagt, að halda þessari kosningafrestun áfram út kjörtímabilið, eða meðan það ástand helzt, sem nú er. Og ég er á þeirri skoðun, að það sé tæplega sæmandi fyrir þingið að rjúfa þá ályktun, sem gerð var í fyrra. Þess vegna hreyfði ég því máli í vetur að halda kosningafrestuninni, áfram, en hélt því jafnframt fram, að eina ráðið til þess, að svo mætti verða, væri að taka upp starfssamvinnu á breiðari grundvelli en eftir áramótin í vetur, og þykir mér undarlegt, að framsóknarmenn hafa mjög haldið því fram, að einmitt þeir, sem berjast fyrir áframhaldandi kosningafrestun, séu að rjúfa friðinn. Mér þykir þetta skjóta mjög skökku við, þegar athugað er, hvernig þeirri bendingu, sem ég bar fram í vetur, var tekið af hv. framsóknarmönnum.

Nú er það svo um þá breyt., sem hér er fram borin, að það er ekki nema um tvennt að gera, að játa eða neita að vera lýðræðissinni. Ef við játum að vera lýðræðissinnar, erum við með henni, en ef við neitum að vera fylgjandi lýðræði, erum við á móti þessari breytingu.

Hv. 11. landsk. sýndi fram á, að það gæti komið fyrir, þar sem 4999 menn væru á kjörskrá og 5 í kjöri, að sá flokkurinn, sem fengi 1000 atkv., fengi 2 menn kjörna, en hinir flokkarnir engan. Ég játa, að í þessu tilfelli næði lýðræðið ekki tilgangi sínum.

Ef fulltrúar allrar þjóðarinnar hefðu viljað taka höndum saman um vandamálin, hefði þetta ekki þurft að koma fyrir núna, en slík mál geta alltaf komið fram. Og einmitt á þessum tímum, þegar mesta lýðræðisbaráttan fer fram í heiminum, situr ekki á okkur að draga okkur í hlé í þessu efni, og ég er sannfærður um, að sá mikli misskilningur, sem kemur fram hjá vissum mönnum á þessu máli, hlýtur að skaða okkur út á við. Það er ekki lýðræði, að flokkur, sein hefur 14500 atkvæði, skuli hafa fleiri þm. en flokkur, sem hefur 24 þús. atkvæði, og það er ekkert lýðræði, að kjósendur sumra flokka skuli hafa tvöfalt vald á við kjósendur annarra flokka. Það er ekki hægt að komast hjá því að rýra persónulegt frelsi sumra kjósenda, þega: sumir hafa tvöfaldan rétt. Þetta finnst mér allir ættu að skilja. Það er réttur dreifbýlisins, sem er tryggður með þessu, en eins og hv. 1. þm. N.- M. veit, hafa þær till., sem fram hafa verið bornar, verið miklu róttækari en hér er gengið út frá. Það er einmitt með hlutfallskosningum í tvímenningskjördæmunum, sem réttur dreifbýlisins er tryggður. Það veit ég, að hann skilur, og honum er óhætt að kannast við, að hann skilji það. Ég vil benda honum á, að þeir framsóknarmenn ættu að fagna þessu, því að hitt var líka til, að breyt. yrðu miklu róttækari.

Þá er það, að við séum hér siðferðislausir og að verið sé að svíkjast aftan að kjósendum. Það er ekki verið að því. Það, sem gerzt hefur, er það, að Alþfl. neyddist til að draga mjög úr sínum fyrstu kröfum og Bændafl. líka.

Ég kunni ekki við annað en að segja þetta, sérstaklega af því, að ég taldi það í samræmi við það, sem samþ. var í fyrra, að kosningum væri enn frestað, en það krafðist samstarfs á víðtækari grundvelli en nokkru sinni áður. Og ég er á þeirri skoðun, að okkur hafi aldrei verið meiri þörf samstarfs en einmitt á þeim hættutímum, sem nú eru.