08.05.1942
Sameinað þing: 13. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (2565)

97. mál, bókasafn menntaskólans í Reykjavík

*Magnús Jónsson:

Þegar ég kvaddi mér hljóðs, var það til þess að mæla fyrir brtt., sem ég vildi flytja, en hafði þá ekki hugmynd um, að ég væri að stinga hendinni inn í geitungabú. Hv. 1. þm. Skagf. virðist halda, að þetta sé einhver eldhúsdagur til árása á sig, og vill snúa því upp í eldhúsdag til várása á háskólann. Ég bara skil ekki, hvernig hann getur snúið þessu máli þannig fyrir sér. Ég skal ekki láta mér detta í hug að svara í sama tón, get látið mér nægja að færa rektor háskólans þessa hólmgönguáskorun hins hv. þm. ásamt hinum kurteislegu aðdróttunum um þjófnað úr sjálfs hendi og eitthvað smávegis fleira heyrðist mér. (PHann: Þm. fer ekki rétt með orð mín.): Það má vera, að hv. þm. hafi ekki verið allsgáður í ofsanum áðan. Nú verð ég samt að standa hér sem e. k. sakamaður, því að ég er í háskólaráði, — var raunar ekki á fundinum, þegar það ræddi um og ákvað að gera þetta tilboð, en vissi síðan til þess, að bréfið var sent, og áleit enga ósvinnu í tilboðinu fólgna.

Nú hélt ég, að hér ætti að ræða um bækur, en ekki rektora, og hafði hugsað mér að bera fram brtt. Um safnið get ég sagt frá skólaárum mínum, að það var kallað bókasafn rektors og var eins dularfullt nemendum eins og launhelgarnar í Elvsis á sinni tíð. Við áttum þess yfirleitt ekki kost að fá úr því bækur, og ég held ég hafi aldrei komizt nær því en horfa á það inn um glugga. Nú er ekki aðeins þetta breytt, heldur er það sláandi dæmi um gleymsku manna og síðan misskilning á safninu, að flestir nefna það alröngu nafni: Íþöku. En svo hét lítil lesstofa, sem nemendur höfðu, með dálitlu af bókum frá Willard Fiske, og runnu þær saman við safn skólans síðar. Skólasafnið getur ekki fyrir því heitið Íþaka.

Þegar núv. rektor menntaskólans, Pálmi Hannesson, bauð guðfræðideild háskólans að taka við hebreskum bókum o.fl. leifum frá guðfræðinámi þar í fyrri tíð, stóð svo á húsakosti hennar, að mikið af bókum sínum varð hún að geyma í geymslu á Lbs., en ekki handbært við kennslu, og gat engu bætt við. Nú er það gerbreytt og háskólabókasafn myndað, þótt deildin eigi enn eftir að heimta þangað bækur, sem hún á í Lbs. Habent sua fata libelli, má um þessar sögur segja. E.t.v. hafa bækur guðfræðideildar hjálpað Lbs. til að fylla þessi 100 þús., sem þm. talaði um. Ég býst við, að áður en langt um líður verði gangskör gerð að því að fá þær í háskólabókasafnið, og mér fannst, að þær bókatilfærslur, sem eðlilegar eru, þegar þar er bæði komið gott húsnæði fyrir bækurnar, bókavörður og allgóður lestrarsalur, þótt ekki sé stór, ættu að geta farið fram illindalaust, einnig að því er snertir guðfræðibækur menntaskólasafnsins. Hitt veit ég ekki, hvort farin hefur verið rétta leiðin með því að bjóða nú safninu í heild húsnæði um stund, án þess að ræða um það fyrst við. rektor skólans. Má vel vera, að hann geti talið óþarflega fram hjá sér gengið. En það finnst mér þá svo litil yfirsjón, að bæta mætti úr og ekki ættu bækurnar að gjalda hennar. Í rauninni er það samkvæmt réttum venjum, að rektor háskólans riti f.h. háskólaráðs yfirmanni sínum, kennslumálaráðherra, en hann sendi síðan rektor menntaskólans bréfið til umsagnar.

Ég vil skjóta því til hv. þm., hvort þeir telji ekki eðlilegt, að þál. verði á þá leið, að í staðinn fyrir orðin „og gera það aðgengilegt til afnota“, komi „og afhenda það háskólanum til geymslu“. Ég varaði mig ekki á, að hv. þm. er svo reiður yfir, að talað sé um að skrásetja það, svo að það mætti þá ganga burt líka, en ég skil ekki, að orðið „skrásetning“ geti verið neitt meiðyrði.

Það er óþarfi fyrir hv. þm. að sletta því til háskólans, að honum sé nær að skrásetja sitt eigið bókasafn. Veit hann nokkuð, hvað því líður? Hann er þá fróðari um það en ég, því að ég veit ekki letur en að til séu aðgengilegar skrár yfir það.

Ég vildi helzt geta haldið þessari till. efnislega utan við þessar harðvítugu umr., því að mér finnst, að fyrir allra hluta sakir væri mjög heppilegt að koma þessu bókasafni fyrir í húsakynnum háskólabókasafnsins undir umsjón bókavarðarins þar. Þar er allgóður lestrarsalur, og býst ég við, að stj. mundi, um leið og hún afhenti safnið, setja það skilyrði, að menntaskólamenn gætu fengið aðgang að safninu, og yrðu þá samningar um það milli stj. og rektors háskólans.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en afhenda hæstv. forseta skrifl. brtt. við till. og vænti þess, að hann leiti afbrigða um hana, þar sem hún er skrifl. og of seint fram komin.