04.05.1942
Neðri deild: 50. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (2667)

100. mál, sala og úthlutun bifreiða

*Flm. (Helgi Jónasson):

Þessi till. fer fram á, að skipuð verði þriggja manna n. af stj., sem hafi fullt vald með úthlutun bifreiða. Nú er það svo, að þriggja manna ráðgefandi n. gerir till. sínar til stj. um úthlutun bifreiðanna, en ráðh. hefur úrslitavaldið. Þetta er mjög leiðinleg aðferð. Á síðasta ári var mikið flutt inn af bifreiðum, og var mikil þörf á því, þar sem litið hafði verið flutt in síðustu sex ár. Árið 1940 voru fluttar inn 1200 vörubifreiðar, og var þess mikil þörf, þar sem síðustu sex ár hafði lítið sem ekkert verið flutt inn af þeim. Árið 1941–1942 hafa verið fluttar inn rúmlega 400 vörubifreiðar, og hafa þær mikið farið til að endurnýja eldri bíla, sem margir voru úr sér gengnir. Þörfin fyrir bíla er nú meiri en áður. Eins og við vitum, hafa margir bílar verið notaðir í þágu setuliðsins, og hafa menn haft mikið upp úr því. Eftirspurn eftir bílum hefur því verið ákaflega mikil, en ég tel alveg óviðeigandi, að ráðh., sem hafa í mörgu að snúast, eins og allir vita, þurfi að vera umsetnir af bílstjórum og öðrum, sem bíla vilja fá. Ég legg þess vegna til, að skipuð verði þriggja manna n., sem hafi fullt vald yfir þessari úthlutun. Það mun hafa verið svo fram að þessu, að þessi n. mun eingöngu hafa haft með höndum athugun á úthlutun vörubifreiða, en mér finnst eðlilegast, að framvegis verði því hagað þannig, að þessi n. sjái um úthlutun allra bifreiða, sem fluttar eru inn á vegum einkasölunnar, því að hún mundi athuga allar aðstæður og kynna sér alla málavexti eftir þörfum, áður en hún úthlutaði bifreiðunum, og hefði auðvitað miklu betri aðstöðu til þess heldur en ráðh. gæti haft.

Þá er hinn liður till., sem fer fram á, að þeir, sem fái nýja bíla, afhendi þessari n. þá gömlu. Ég skal játa, að þetta kemur nokkuð seint fram. Það hefði þurft að vera komið fram fyrir löngu, af því að vandræðaástand hefur ríkt hér um sölu gamalla bíla. Þó er betra seint en aldrei, því að í framtíðinni verður vitanlega haldið áfram að flytja inn bíla. Þó má segja, að hér geti komið fram misrétti, því að þeir, sem nú hafa selt gamla bíla, hafa haft af því hagnað, en þeir, sem eftirleiðis eignuðust bíla, mundu ekki sitja þar við sama borð. Ég held þó, að fullkomlega sé rétt, að þetta verði samþ.

Það getur vel verið, að heppilegra væri; að Alþ. eða einhverjir aðrir aðilar kjósi þessa n., en ég hef lagt til, að stj. skipi hana til þess að koma í veg fyrir það ófremdarástand, sem nú ríkir í þessum málum.

Ég skal svo ekki lengja frekar umr. um þetta, en óska, að till. verði samþ.