04.05.1942
Neðri deild: 50. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í D-deild Alþingistíðinda. (2671)

100. mál, sala og úthlutun bifreiða

*Flm. (Helgi Jónasson):

Ég hef með þessari þáltill. viljað létta af viðkomandi ráðh. þeirri miklu vinnu og öllu því vafstri, sem er því samfara að þurfa að svara ótal fyrirspurnum frá viðkomandi mönnum. Það er að vísu ekki nema eðlilegt, að menn vilji tala við ráðh. um þessi mál, þar sem hann hefur úrslitavaldið, en ef þessi n. verður skipuð, geta menn, sem þarna eiga hlut að máli, snúið sér til hennar. Í sambandi við það atriði, að gömlu bílarnir verði afhentir, skal ég játa það, að það er kannske of seint fram komið, þar sem búið er að selja flesta gömlu bílana, en það verður sennilega haldið áfram að flytja inn bíla, og það má því gera ráð fyrir því, að haldið verði áfram að braska með þá. Það gæti því verið mikils virði að fá þessa gömlu bíla metna af dómbærum mönnum, vegna þess að þá mundu kaupendurnir leita sér upplýsinga um það, hvað vær í hið rétta matsverð, og þar af leiðandi síður borga bílinn miklu hærra verði en hann hefði verið metinn. Það gæti að vísu vel farið svo, að hjá öðrum eða þriðja aðila færi bíllinn nokkuð fram úr sannvirði, en þetta ætti þó að geta komið í veg fyrir það óheyrilega okur, sem hér er á þessum gömlu bilum, en þeir eru seldir fyrir 10–12 þús. kr., jafnvel þó að þeir séu orðnir 10–15 ára gamlir.

Hvað brtt. snertir, mun ég ekki geta fallizt á hana, en ég vil gera það að till. minni, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.