25.02.1942
Neðri deild: 5. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (347)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Einar Olgeirsson:

Það þykir alltaf kostur, ef einhverjum verður á að gera iðrun og yfirbót og sýna í einhverju, að hann skammist sín. Hitt er leiðinlegt, ef menn forherðast og segja á eftir, að þeir hafi haft fullan rétt til að fremja prakkarastrikið, með því að þeir eigi meiri rétt til þess, sem aðrir eiga. Almennt talað er þetta kallað yfirgangur, og er jafnvel stundum verra orð notað. Hv. sessunautur minn segist hafa meiri rétt til þessa bréfs en ég sjálfur. Hann leyfir sér, eftir að hann hefur gert sig sekan um mjög svo óþinglega framkomu, að bera fram, að ég hafi fengið bréfið með óheiðarlegu móti. Mér finnst sannast að segja skörin færast upp í bekkinn, þegar menn, sem sýna sig í því að gerast svona hálfgerðir ræningjar, fara svo að þjófkenna aðra. Ég vil upplýsa hann um það, að þetta bréf hefur einn framsóknarmaður gefið mér, sem kom til mín með það, og hann óskaði eftir sérstaklega, að gert yrði heyrinkunnugt, hvað í bréfinu stæði. Ég vil um leið upplýsa, að þegar bréfið var sent af hálfu stj. Framsfl., þá virðist hafa verið varazt að senda það til hinna og þessara, sem talið var, að formaður flokksins hefði ímugust á. Samt sem áður eru þeir framsóknarmenn, sem formaðurinn trúir, hvorki öruggari en þetta né ánægðari en þetta með þá pólitík, sem fram fer í þeirra herbúðum, að þeir koma til okkar til þess að gefa okkur þessi plögg til birtingar á framferði þeirra flokksmanna, sem hrifsað hafa til sín völdin sem stendur, þar sem þeir haga sér þvert á móti vilja framsóknarmanna yfir höfuð og þvert á móti vilja miðstjórnar flokksins.

Mér virðist kenna nokkuð mikillar mótsetningar hjá sessunaut mínum, þegar hann dróttar því að mér að hafa með óheiðarlegum hætti náð í margnefnt bréf, í sömu andránni sem hann býðst til að lána mér sams konar bréf. En þegar ég eignast þetta bréf frá öðrum framsóknarmanni,. vill hann rífa það af mér og þykist eiga meiri rétt á því en ég. Ef form. Framsfl. hefði komið sjálfur og sagt: Ég ætlaðist ekki til þess, í guðanna bænum, að bréf mitt til minna manna. yrði kunnugt gert í þingsölunum, — þá hefði maður kannske helzt getað sagt, að hann hefði rétt til að afturkalla það, sem hann hefði skrifað. En þegar fylgismenn hans gerast svo taugaóstyrkir að leggja í handalögmál út af bréfinu, þykir mér bregða nokkuð undarlega við. Lýsingin á handalögmálinu sjálfu skiptir kannske ekki mestu máli. En ég skal geta þess, að þó að ég tæki mestan hluta bréfsins af hv. þm., var ósköp litið horn, sem hann kastaði í svo sem tveggja stóla fjarlægð frá sér og ætlaðist til, að annar framsóknarmaður tæki það upp, en enginn vildi gera sig sekan um að skipta sér af slíku.

Það vill stundum verða, að þeir, sem tala um, hvernig þingleg framkoma eigi að vera og geta varla verið þekktir fyrir að sitja á þingi með vissum þingmönnum, tala um friðsemi sína og fyrirlitningu á öllu „handalögmáli“, að þeir gerðu bezt í að gæta sín að gera sig ekki seka um óþinglega framkomu. Það er afar leiðinlegt, ef formaður flokks hleypur á sig og kemur mönnum sínum í vandræði, en ekki bætir úr, ef einstakir flokksmenn gera sig seka um árásir og fruntaskap, til þess að reyna að bjarga þessu við. Ég held þess vegna, að miklu viðkunnanlegra væri fyrir þennan hv. þm. V.-Húnv. að biðja ósköp rólega afsökunar, — býst við, að hæstv. forseti mundi frekar hvetja hann til þess heldur en hitt. En viðkunnanlegast af öllu væri, ef hv. þm. fyndi hvöt hjá sjálfum sér til þessa. Virðist mér hann og fremur vera að átta sig á, að þetta hafi ekki verið heppileg framkoma, en vilji þó breiða yfir, með því að gera sem minnst úr. En sem pólitískan lærdóm af þessu fyrir hann vildi ég helzt draga þá ályktun, að bezt sé fyrir þá framsóknarmenn að hafa ekki í frammi þess konar aðgerðir, sem ofbjóða þeirra eigin flokksmönnum svo, að þeir finni sig knúða til að fara til annarra flokka til þess svo að segja að halda uppi þeim heiðri, sem Framsfl. og formenn hans hafa sjálfir átt að passa.