26.03.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (382)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Brynjólfur Bjarnason:

Ég geri ráð fyrir, að marga hafi fýst að heyra nánar skýrt frá langstærstu fjárl. í sögu þjóðarinnar, sem nema hvorki meira né minna en 34 milljónum króna.

Það var hérna á atvinnuleysisárunum, að Kommúnistaflokkurinn sýndi fram á, að með því að auka tekjur ríkissjóðs um 6–7 milljónir króna mætti gerbreyta högum þjóðarinnar til batnaðar. Þetta þóttu heldur en ekki skýjaborgir þá. Nú hafa ríkissjóðstekjurnar ekki verið auknar um 7 milljónir heldur um 20 milljónir, samkvæmt áætlun síðan þetta var. Og vitanlega fara tekjurnar langt fram úr áætlun. Við þetta bætist svo hvorki meira né minna en tæpar 18 millj. króna tekjuafgangur frá síðasta ári.

Samt gefa þessi fjárl. sáralitla hugmynd um þá gerbreytingu, sem orðið hefur í fjármálun landsins, af þeirri einföldu ástæðu, að stríðsgróðinn hefur ekki verið skattlagður svo að teljandi sé, heldur voru í skyndi samþykkt ný skattal. til þess að hlífa stríðsgróðamönnunum við skatta. Svo haganlega er þessu fyrir komið, að hátekjumenn, sem að vísu urðu að greiða allverulegan skatt árið 1941, sleppa við mestan hluta skattsins árið 1942.

Síðan fyrir stríð hafa þjóðartekjurnar a.m.k. þrefaldazt að krónutali. Ef þjóðartekjunum væri skipt jafnt niður á íbúa landsins, mundu koma a.m.k. 15000 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu. M.ö.o., hver einasta fjölskylda á landinu gæti lifað í velsæld og lagt þar að auki fyrir a.m.k. 5–7 þús. kr. á ári.

Þið vitið allir, sem mál mitt heyrið, að það er mjög fjarri því, að fólkið, sem byggir þetta land, eigi við slík kjör að búa. Þúsundir erfiðismanna misbjóða heilsu sinni með hóflausu striti og hafa þó ekki nema rétt til hnífs og skeiðar handa sér og fjölskyldum sínum. Gamalmennum og öryrkjum eru skammtaðar innan við hundrað krónur á mánuði til þess að lifa af í allri þeirri stjórnlausu dýrtíð, sem nú, er í landinu. Og hvert er svo öryggið fyrir framtíðina? Hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, hefur gefið fyrirheit um atvinnuleysi, hrun, bölvun eftir stríðið. Og það er alveg víst, að það fyrirheit verður efnt, ef hann og félagar hans halda áfram að stjórna þessu landi.

Hvað verður þá af öllum þjóðartekjunum? Hvað verður um allan hinn mikla auð, sem þjóðin aflar? Um það geta menn gert sér nokkra hugmynd, en þó hvergi nærri fullnægjandi, með því að athuga þær skýrslur, sem fyrir liggja samkvæmt skattaframtölum.

Fyrir árið 1940 töldu 117 menn 17 millj. kr. fram til skatts. Allir þessir menn höfðu yfir 25 þús. kr. í tekjur, en langmestur hluti þessarar upphæðar fellur þó aðeins á sárfáa menn. Þetta er samkvæmt þeirra eigin framtali. Vitaskuld eru hinar raunverulegu tekjur þeirra miklu meiri. Og á árinu 1941 hafa tekjur þessara manna enn hækkað stórum.

Eins og séð verður af þessu, renna tugir milljóna af tekjum þjóðarinnar í vasa örfárra fjölskyldna. Hverjar þessar fjölskyldur eru, geta menn áttað sig á með því að athuga nokkrar staðreyndir, svo sem sölur togaranna í Englandi, fyrirtæki, sem er í eign Thorsbræðra, seldi nýlega hlutabréf sín og græddi á því tæplega hálfa þriðju milljón króna. Það er til nóg af slíkum dæmum. Eigendur milljónanna eru nátengdir ríkisstjórn Íslands. Þetta er skýringin á ótal fyrirbærum í þjóðmálalífi landsins, skýringin á stjórnmálastefnu ríkisstjórnarinnar.

Hvaða gagn er svo þjóðinni af þessum tekjum, sem renna í vasa stríðsgróðamannanna? Starfssvið þessa fjármagns er yfirleitt í braski og spákaupmennsku, sem stendur nú í meiri blóma en dæmi eru til áður hér á landi. Þetta er ein aðalorsök dýrtíðarinnar í landinu. Fasteignir margfaldast í verði, og þessi verðhækkun á einna drýgstan þátt í því að skrúfa allt vöruverð upp úr öllu valdi. Þó er hitt aðalatriðið, að þessi taumlausa verðhækkun á fasteignum verðu. þyngsti myllusteinninn um háls þjóðarinnar, þegar útflutningsvörur hennar lækka aftur í verði. Og skyldi fjármagn þjóðarinnar vera í öruggri vörzlu í höndum stríðsgróðamanna? Ætli það sé bezt geymt í höndum þeirra, sem þjóðin sparar? Hvað segir reynslan? Thorsfjölskyldunni tókst að sólunda meginhlutanum af öllu veltufé þjóðarinnar á árunum fyrir stríðið. Svo er líka annað ráð til að láta spariféð gufa upp. Það er að lækka krónuna í verði. Auðvitað lýtur krónan okkar sömu örlögum og dollarinn. En hrun dollarsins þarf ekki heldur að koma til. Það er stefna útgerðarauðvaldsins að láta þjóðina borga brúsann, ef útgerðin gengur illa, með því að lækka gjaldeyrinn í verði. Fyrir stríðið tókst Kveldúlfi að fá alla þjóðstjórnarflokkana, ekki aðeins Íhaldsflokkinn, heldur líka Framsóknar- og Alþýðuflokkinn, til að fallast á þessa stefnu sína. Enn þá verður þjóðinni að blæða vegna þessarar ráðstöfunar. Dýrtíðin, sem við eigum nú við að búa, á að miklu leyti rót sína að rekja til lækkunar krónunnar. Þessari stefnu verður vitaskuld haldið áfram eftir stríðið, ef Kveldúlfur og taglhnýtingar hans fá að ráða. Jafnskjótt og útflutningsafurðirnar falla í verði, verður krónan aftur lækkuð. Fjármagnið, sem safnazt hafði saman á stríðsárunum, verður látið gufa upp, til þess að dögg gróðans geti haldið áfram að drjúpa á ekrur hinnar auðugu.

Nú skulum við eitt augnablik staldra við og athuga, hvar við erum staddir. Við búum við hið marglofaða skipulag „einkaframtaksins“, sem stjórnað er af „framtaksmönnunum“, „máttarstólpum þjóðfélagsins“. — Þegar nánar er að gáð, er þetta skipulag ekkert annað en bláber vitfirring. Þjóðinni safnast óhemju auður, svo mikill, að hvert einasta landsins barn gæti búið við allsnægtir. Þar að auki getum við safnað í kornhlöður til margra ókominna ára. Í einu orði sagt: Allir gætum við búið við velmegun og öryggi, hver einasti okkar. Í stað þess höfum við flestir rétt í okkur og á, þó að við stritum myrkranna á milli. Við látum afa okkar og ömmur, sem, meðan starfsorkan entist þeim, hafa lagt allt sitt fram til þess að skapa þjóðinni verðmæti, búa við þröngan kost. Og við höfum ekki tryggt sjálfum okkur réttinn til fæðis og klæða, þegar starfsorku þrýtur. Og eftir skamma stund megum við búast við að standa aftur í sömu sporum. Enn á ný munu þúsundir okkar ganga atvinnulausir, neitað um réttinn til að afla sér lífsviðurværis í landi allsnægtanna, og það, sem við höfum áður aflað, er horfið í gin gróðahýenanna, sem við höfum kosið til að vera forsjá okkar, sem við höfum kosið til að fara með stjórn landsins.

Er ekki mál til komið að binda enda á þetta brjálæði?

Lítum nú á fjárlagafrv., sem hér er til umr. Nú skortir ekki milljónirnar. Tugir milljóna eru í ríkissjóði umfram venjulegar þarfir. Og enn gæti ríkissjóður aflað tuga milljóna, ef hann vildi. Nú skortir sannarlega ekki „afl þeirra hluta, sem gera skal“. Það er vissulega ekki einleikið, ef þessi fjárlög eru með venjulegum hætti. Mun nokkur trúa því, að hvergi votti fyrir því í fjárl., að reynt sé að leysa vandamálin, sem þjóðin er nú að glíma við; og búa í haginn fyrir framtíðina. Fjárlagafrv. er eins konar stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Hvað verður gert til að vinna gegn dýrtíðinni? Hvað verður gert til þess að tryggja afkomuna að stríðinu loknu? Hvaða ráðstafanir eru gerðar til að koma á fót fullkomnum alþýðutryggingum?

En fjárl. eru einmitt með venjulegum hætti. Í þeim er ekki stafur, sem bendir til þess, að nokkurn skapaðan hlut eigi að gera til að vinna á móti dýrtíðinni. Ekkert til þess að bæta kjör fólksins í landinu.

Ríkisstjórnin talar seint og snemma um dýrtíðina. En á fjárl. er ekki varið einum einasta eyri til að vinna gegn dýrtíðinni. Hins vegar ætlar ríkisstjórnin að innheimta vörumagnstoll og verðtoll að upphæð 15 milljónir króna árið 1943, Það er allt að því helmingur af öllum áætluðum tekjum ríkissjóðs það ár. Síðast liðið ár námu þessir tollar 23 milljónum. Að öllu óbreyttu verða þeir vitaskuld miklu hærri 1943.

Niðurstaðan verður því þessi: Á síðast liðnu ári varði ríkisstjórnin ekki einum einasta eyri til að vinna á móti dýrtíðinni. Aftur á móti varði hún 23 milljónum til að auka dýrtíðina. Því að. það hlýtur hver maður að skilja, að þegar 23 milljón króna tollur er lagður á innfluttar vörur, þá verða þar 23 milljón krónum dýrari. Þetta verkar þó enn meir til hækkunar á smásöluverð, þar sem álagning á tollinn bættist við.

Samkvæmt fjárlagafrv. ætlar ríkisstjórnin að halda áfram sömu stefnu á næsta ári. Það er ekki sýnilegt, að það verði varið eyri til að vinna á móti dýrtíðinni, en aftur á móti verður varið sennilega 20–30 milljónum til þess að auka dýrtíðina. (Það er að vísu erfitt að áætla í tölum á þessum tímum, þegar allt er á hverfanda hveli. En það skiptir ekki máli. Stefnan er sú sama.)

Það er nú liðið rúmt missiri síðan ríkisstj. lét Alþingi samþykkja lagabálk mikinn á móti dýrtíðinni. Samkv. honum voru stjórninni gefnar heimildir til að afla yfir 20 millj. króna tekna, að mestu leyti með sköttum á almenningi, til þess að vinna á móti dýrtíðinni. Það var nú frá upphafi heldur óljóst, hvernig átti að fara að þessu, en manni skildist helzt, að fyrirkomulagið ætti í stórum dráttum að vera eitthvað á þessa leið: Fyrst á að innheimta tolla af innfluttum vörum að upphæð 20 milljónir og hækka þannig vöruverðið um sömu upphæð. Síðan á að innheimta skatta af landsmönnum að upphæð 20 milljónir til þess að lækka vöruna um sömu upphæð, eða í raun og veru til að endurgreiða tollana: Útkoman 0. En til þess að innheimta tollana þurfti ærið starfsmannalið með ærnum kostnaði. Ekki þurfti minna starfsmannalið og minni kostnað við að innheimta skattana til að endurgreiða tollana. Þetta fyrirkomulag mundi náttúrlega hafa hjálpað mörgum góðum framsóknarmanni, íhaldsmanni og alþýðuflokksmanni um atvinnu, fina atvinnu, þar sem hægt var að ganga með flibba um hálsinn. Og sjálfsagt hefði það þótt virðulegri atvinna en að láta þá bera sand í poka með sama fyrirkomulagi og sagt er að tíðkist á Kleppi. En fyrir þjóðarbúið hefði það komið út á eitt, hvort verkið þeir hefðu verið látnir vinna.

Það er auðráðin gáta, hvaða mannsheili hefur fóstrað hugmyndina um þessi Bakkabræðravinnubrögð. Það er heili Eysteins Jónssonar, hæstv. viðskmrh. En þetta fannst Ólafi Thors, hæstv. atvmrh., alveg ágætt. Hann sagði, að þetta væri einna merkasta löggjöf aldarinnar.

Nokkru síðar voru hagfræðingar látnir reikna út, hvað það kostaði að lækka vísitöluna um eitt stig. Það kostar 3/4 úr milljón. Þá gáfust þjóðstjórnarhetjurnar alveg upp. Dýrtíðarl. komu aldrei til framkvæmda, nema fjmrh. notaði tækifærið til að innheimta tekjuskattinn með 10% álagi. Engum eyri var varið til að lækka verðlagið. Síðan hefur vísitalan hækkað um 30 stig. Og Morgunblaðið viðurkenndi, að þetta væru einhver aulalegustu l., sem Alþingi hefði samþykkt.

Það hlýtur að liggja hverjum manni í augum uppi, að allt skraf um að halda verðlaginu niðri með því að gefa með vörunum er marklaust þvaður. Ef gert er ráð fyrir, að hneigðin til verðhækkunar verði sú sama og verið hefur, þá mundi allt það fé, sem ríkisstjórnin hefur yfir að ráða, tæmast á einu misseri til þess að koma í veg fyrir, að vísitalan hækkaði. Að þeim tíma liðnum héldi verðhækkunarflóðið áfram óhindrað, og ríkissjóður stæði tómur eftir. Hitt er jafn augljóst, að það er alveg fráleitt að ætla sér að lækka verð með gerðardómsákvæðum án þess að leggja fram fé til að jafna verðlækkunina. Enginn mun láta sig dreyma, að ríkisstjórnin ætli að láta kaupmenn eina bera allan kostnaðinn af vaxandi dýrtíð. Enda er það ekki á hennar valdi. Ef verðið er lækkað á einni vöru, hækkar það bara á annarri.

Ríkisstjórnin veit það bezt sjálf, að allt gasprið um baráttuna á móti dýrtíðinni er bláber þvættingur. Hún ætlast til, að menn séu svo grunnhyggnir, að þeir skilji þetta ekki fyrr en um seinan, eftir að menn hafa látið blekkjast til fylgis við hana um kosningar. Ríkisstjórnin hefur aðeins eitt áhugamál: að lækka kaupið. Og til þess eins eru refirnir skornir.

Til þess að vinna á móti dýrtíðinni með árangri þarf að gera eftirfarandi: Hækka gengi íslenzku krónunnar, afnema alla tolla á almennum neyzluvörum, taka stríðsgróðann úr umferð með því að skattleggja hann nógu hiklaust og hlífðarlaust, lækka framleiðslukostnað landbúnaðarins með ríflegri og röggsamlegri aðstoð við þá bændur, sem hafa hæstan framleiðslukostnað, hafa röggsamlegt og skynsamlegt verðlagseftirlit.

Ríkisstjórnin mun ekki framkvæma neina af þessum ráðstöfunum, eins og fjárlagafrv. ber með sér. Hún hefur skapað dýrtíðina, til þess að hinir ríku geti haldið áfram að græða á kostnað hinna fátæku. Af sömu ástæðum mun hún halda dýrtíðinni við, því að það er ekki hægt að vinna gegn dýrtíðinni nema á kostnað hinna ríku.

Sósfl. hefur aftur á móti lagt fram og mun leggja fram till. um allar þær ráðstafanir gegn dýrtíðinni, sem hér eru taldar. Hann mun leggja fram till. um afnám tolla á almennum neyzluvörum og að stríðsgróðinn verði skattlagður.

Sósfl. hefur lagt fram tillögur um, að jarðræktarstyrkurinn til smærri bænda og miðlungsbænda verði hækkaður svo mjög, að þeir geti haft samkeppnisfært kaup við jarðræktarframkvæmdir og önnur störf á heimilum sínum. Ef þessar till. næðu fram að ganga, gætu smábændur og miðlungsbændur komið jörðum sínum í það horf á fáum árum, að búskapur þeirra yrði samkeppnisfær við aðra framleiðslu í landinu. Þetta er hin rétta aðferð til þess að auka landbúnaðarframleiðsluna, til þess að bæta kjör bændafólksins, svo að það uni við störf sín í sveitinni, og til þess að lækka framleiðslukostnað landbúnaðarafurða. Því að eins og kunnugt er, verður verðið á landbúnaðarafurðum að miðast við hæsta framleiðslukostnað, þ.e. framleiðslukostnað þeirra býla, sem eru lakast sett frá náttúrunnar hendi, eru í lélegastri rækt og hafa minnst af þeim mannvirkjum, sem nauðsynleg eru til þess að búskapurinn beri sig. Þess vegna er það hagsmunamál alls almennings í landinu að koma þessum býlum í það horf, að þau verði samkeppnisfær.

Jafnframt höfum við lagt til, að lagt verði fram fé úr ríkissjóði til að gera bændum kleift að greiða samkeppnisfært kaup um annatímann.

En það er eftirtektarvert, að þrátt fyrir allt bændaskjallið og allar tugmilljónirnar, sem ríkisstj. hefur yfir að ráða, bólar ekki á neinum slíkum tillögum frá henni, heldur hefur hún látið lið sitt á Alþingi drepa allar tillögur Sósfl. í þessa átt.

Það eru aðeins hagsmunir stórbændanna, sem hún ber fyrir brjósti. Þess vegna lætur hún sér nægja að leggja fram fé til þess að gefa með áburðinum. Það kemur stærstu bændunum að langmestum notum. Með því fá stórbú á borð við Korpúlfsstaðabúið háan styrk úr ríkissjóði, sem fátækt fólk í sveitum og kaupstöðum verður að greiða með sköttum sínum. Styrkurinn til smábóndans verður aftur á móti alveg hverfandi. Og eins og liggur í augum uppi hefur þetta engin varanleg áhrif til þess að lækka framleiðslukostnað landbúnaðarins. Það er því léleg ráðstöfun gegn dýrtíðinni og verður ekki til þess að gera sveitabúskapinn lífvænlegri til frambúðar.

Þrátt fyrir hinar gífurlegu tekjur ríkissjóðs er ekki ætlazt til þess, að verklegar framkvæmdir verði meiri en verið hefur, nema óhjákvæmileg aukning á viðhaldi vega. Framlög til vita og hafnargerða eru lækkuð. Ekki er til þess ætlazt, að nein tilraun verði gerð til þess að bæta úr byggingarþörf landsmanna. Framlag til atvinnuaukningar og framleiðslubóta er lækkað um 300 þús. kr. Þess er ekki heldur að vænta, að ríkisstj. leggi fé til atvinnuaukningar, þegar það er aðaláhyggjuefni hennar, hvernig hún eigi að fara að því að minnka atvinnuna í landinu.

Það er ómögulegt að segja um það fyrirfram, hvort það verður mikið eða lítið unnið að hernaðaraðgerðum hér á landi árið 1943.

Ef þjóðin hefði verið svo lánsöm að búa við stjórn, sem borið hefði hag þjóðarheildarinnar fyrir brjósti, þá hefði nú þegar verið gerð áætlun um þau mörgu verk, sem bíða framkvæmda. tryggt nauðsynlegt fé til þeirra og allt undirbúið til að hefjast handa strax og unnt er.

Nú er hið ákjósanlegasta tækifæri til þess að búa sig undir að mæta atvinnuleysinu, sem hlýtur að koma eftir stríðið, ef auðvaldsskipulaginu verður lengra lífs auðið, þ.e.a.s. að svo miklu leyti sem hægt er að tryggja sig gegn böli þessara brjáluðu mannfélagshátta. Það þarf ekki að taka það fram, að ríkisstjórninni hefur aldrei flogið neitt þvílíkt í hug.

Sósfl. mun leggja fram till. á þinginu um atvinnuleysistryggingar. Fjárins til atvinnuleysissjóðanna verði aflað með framlögum frá ríki og bæ og með iðgjöldum atvinnurekenda, er greiði til sjóðanna í ákveðnu hlutfalli við vinnulaun þau, sem þeir greiða. Við munum leggja til, að atvinnuleysissjóðnum verði tryggðar tekjur, sem nemi að minnsta kosti 10–12 milljónum á ári fyrstu árin. Hvað sem líður gildi sjóðsafnana nú á tímum, þá yrðu verkamönnum tryggð mikils verð réttindi, sem erfitt yrði að taka frá þeim aftur, ef þessar till. næðu fram að ganga.

Hér er um að ræða kjarabætur á kostnað a tvinnurekenda til þess að tryggja verkamenn gen atvinnuleysi eftir stríðið. Það væri gaman að heyra, hvað Ólafur Thors atvmrh. segir við þeim. Eins og kunnugt er, lét hann banna allar grunnkaupshækkanir af einskærri umhyggju fyrir hag verkamanna til þess að tryggja þá gegn atvinnuleysi. Hann var svo sem ekki að hugsa um stríðsgróðamennina. Hann vildi svo sem gjarna láta þeim blæða, — eftir því, sem hann sagði sjálfur. Nú skuluð þið bara taka eftir, hvernig hann snýst við þessari till. Ekki er hætt við, að hann sé að hugsa um hag stríðsgróðamannanna ! Og ekki er hætt við, að hann vilji ekki tryggja verkamenn gegn atvinnuleysi!

Hvað er þetta? Mér sýnist háttvirtir þingmenn brosa eitthvað svo kankvíslega? Og það meira að segja flokksmenn Ólafs Thors, hæstv. atvmrh. Getur það verið, að þeir efist um einlægni flokksforingjans?

Ekki er lagður eyrir til aukinna trygginga á fjárl., þrátt fyrir milljónatekjurnar. Það er rétt á takmörkunum, að framlög til alþýðutrygginganna haldist í hendur við aukna dýrtíð. Rekstursgjöld ríkisspítalanna eru meira að segja lækkuð, af því að daggjöld þeirra hafa hækkað svo mjög.

Gamalmenni og öryrkjar eru ekki aðeins látin búa við sömu eymdarkjörin og fyrir stríð, heldur hafa kjör margra þeirra stórum versnað á sama tíma sem árstekjur einnar stríðsgróðafjölskyldu mundu nægja til að sjá þeim öllum mjög sæmilega farboða. Þetta er svo smánarlegt framferði, að þegar maður hugsar út í það, þá finnst manni næstum því furðu gegna, að þeir þingmenn, sem hafa verið með í að samþykkja slíkt, skuli geta litið upp á nokkurn mann án þess að blygðast sín.

Sósfl. mun leggja fram tillögur um, að Lífeyrissjóður Íslands komi tafarlaust til fullra framkvæmda og til þess verði honum tryggt nægilegt fé úr ríkissjóði. Jafnframt verði öllum gamalmennum og öryrkjum tryggður ákveðinn, boðlegur lífeyrir með l. Og við álítum það með öllu ósæmilegt að ætlast til þess, að nokkur einstaklingur hafi minna en 200 krónur og nokkur hjón minna en 300 kr. í lífeyri á mánuði, eins og verðlagið er nú í kaupstöðum landsins.

En þið, hlustendur góðir úti um byggðir landsins, skuluð ekki gera ykkur neinar vonir um, að tillögur okkar nái fram að ganga. Fyrst þurfum við á fulltingi ykkar að halda til þess að koma þessari ríkisstjórn frá völdum. Það er fyrsta skilyrði þess, að hægt sé að gera sér vonir um framgang nokkurs meiri háttar framfara-, umbóta- og menningarmáls hér á alþingi.