12.03.1942
Neðri deild: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (457)

35. mál, raforkusjóður

*Flm. (Pétur Ottesen):

Það er mjög fjarri mér að vilja vekja nokkrar deilur um þetta mál, því að minn hugur stendur að því fyrst og fremst að geta fengið það afgreitt. með sem allra beztu samkomulagi.

Ég held, að það sé ekki rétt hjá hv. 5. þm. Reykv. að orða það svo, að þessi skattur, sem hér er gert ráð fyrir, að lagður verði á rafstöðvar, sem búið er að reisa, sé refsing á þær. Það getur náttúrlega verið rétt út frá því, ef segja má, að allur skattur sé refsing að vissu leyti, þannig að eftir því sem einstaklingurinn aflar sér meiri tekna, leggur meira á sig til að afla þeirra, þá sé það refsing á þennan dugandi og atorkusama mann, sem hann leggur fram í skatt. En ég vil benda á, að það mun vera svo yfirleitt, að þær stóru aflstöðvar, sem ákvæði þessa frv. ná til, munu undantekningarlaust vera reistar við þau beztu skilyrði, sem til eru í þessu landi, bæði að því er snertir að koma þeim upp og þó einkum og sér í lagi hvað hitt atriðið snertir, að þær eru byggðar til þess að nota rafmagnið frá þeim í þéttbýlinu, þar sem því rafleiðslukostnaður verður tiltölulega mjög litill, miðað við þau not, sem verða af rafmagninu. Þess vegna lítum við flm. frv. svo á, að miðað við okkar þjóðskipulag og það, hve löggjafinn leggur ríkt á herðar borgurunum að hjálpa hverjir öðrum, þá sé í þessu frv. ekki farið fram á nema í alla staði eðlilegt samstarf og eðlilega samhjálp með því en mitt að láta þessar stofnanir, sem reistar hafa verið við beztu skilyrði, leggja nokkuð af mörkum á móti ríkissjóði og svo vitanlega þeim, sem að fyrirtækjunum standa og verða að bera mestan þunga af þeim, til þess að landsmenn sem flestir geti fengið að njóta þess mikla ljós- og orkugjafa, sem rafmagnið er, með því að framleiða það úr því mikla vatnsafli, sem til er í landinu. Við höfum reynt, eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, að mæta þeirri óánægju, sem þessi ákvæði valda, með því að láta þessi skattákvæði ekki ná til stöðva, sem reistar eru fyrstu 5 árin, eftir að þær eru reistar, meðan þær eiga erfiðast vegna þess þunga, sem á þeim hvílir af lántökum til bygginga þeirra, heldur höfum við þær gjaldfrjálsar þennan tíma. Auk þess er það svo, að fyrst er skatturinn lágur, en svo má hækka hann að ákveðnu marki, og er með þessu móti hóflega í sakirnar farið. Síðan málið komst í þann búning, sem það hefur nú, er algerlega burtu fallið það, sem hv. 5. þm. Reykv. var að tala um, að þessi skattur ætti að vera nokkurs konar endurgreiðsla fyrir ríkisábyrgðir. Það álít ég, að alls ekki sé, heldur séu nægilega sterkar röksemdir færðar fyrir þessum skatti og þeirri sanngjörnu hjálp, sem á að sýna með álagningu hans, og því samstarfi, sem hér er lagt til að verði haft til þess að sem flestir geti notið rafmagnsins.

Þessi sami hv. þm. talaði um, að eldri stöðvar mundu búa við erfiðari vaxtakjör en gert er ráð fyrir í þessu frv. En það þarf enginn að búast við því, að þær stöðvar, sem reistar verða hér eftir, verði nema að örlitlu leyti fyrst í stað reistar fyrir lánsfé með þeim vaxtakjörum, sem hér er um að ræða, heldur munu þær verða að fá lán í öðrum lánsstofnunum en þessum sjóði og þá vitanlega að sæta þeim vaxtakjörum, sem um er að ræða á hverjum tíma. Og svo má benda á, að þær stöðvar, sem reistar verða hér eftir, eftir að þessi l. verða sett, ef frv. verður samþ., koma vitanlega til með að taka á sig þennan skatt eftir því, sem ákvæði eru um það.

Hitt er svo sjálfsagt, að n., sem fjallar um þeta mál, taki til athugunar þær brtt., sem fram koma um málið. Og ég er alveg viss um, að það er fullkominn vilji fyrir hendi í n: til þess að gott samkomulag náist um afgr. þessa máls. Því fer líka mjög fjarri, að ég taki aths. hv. 5. þm. Reykv. sem nokkra andstöðu gegn þessu máli af hans hendi. Mér hefur skilizt, að hann ekki einasta sé fylgjandi þessu máli, heldur beinlínis hafi áhuga á, að lausn geti fengizt á því. Ég minnist þess, að hann bar fram á síðasta þingi brtt., þar sem gengið var inn á þetta atriði í samræmi við 2. gr. þessi frv. Og ég er viss um það, að fjhn. muni vera reiðubúin að ræða við þennan hv. þm. og aðra, sem vilja, að þetta mál nái fram að ganga, þótt þeir kunni að lita nokkuð öðrum augum á gagnsemi frv. en við gerum, sem að frv. þessu stöndum.