23.02.1942
Efri deild: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

3. mál, útsvör

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Í raun og veru hefur hv. 11. landsk. að mestu leyti tekið af mér ómakið, og sé ég því ekki ástæðu til að tefja þessar umr. Ég vil aðeins undirstrika þetta um pólitískan meiri hluta, sem hv. 2. landsk. virtist frekar líta hornauga til. Mér skilst, að honum gleymist, að allt okkar stjórnarfar byggist á því, að það sé pólitískur meiri hluti, sem ræður. En það er eins og sumum vilji gleymast þessi meginregla stundum, en fyrir mér er þetta, eins og raunar kemur fram í grg., meginatriði, að réttur kjósendanna komi þannig fram, að sá meiri hluti, sem er meðal þeirra, ráði í meðferð opinberra mála. Þannig er það í öllum öðrum kaupstöðum á landinu, og þannig á það þess vegna að vera í Reykjavík.

Hvað viðvíkur samstarfinu á skattstofunni, sem ég viðurkenni að sé fullkomin nauðsyn, þá er fyrir því séð í frv., að það haldist eins og nauðsynlegt er, þ.e., að n. hafi not af öllum gögnum skattstofunnar til að byggja niðurjöfnun á.