19.05.1942
Neðri deild: 61. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (567)

115. mál, barnakennarar og laun þeirra

*Frsm. meiri hl. (Bjarni Bjarnason):

Svo sem gerð er grein fyrir í þessu nál., eru aðeins 3 nm., sem standa að því. Einn nm., hv. þm. V.-Sk., vildi ekki sinna málinu, og hv. þm. Dal. var fjarstaddur. Nú veit ég ekki, hvort hv. þm. V.- Sk. er andvígur málinu. Það hefur ekki komið nál. frá honum enn þá.

Það eru aðallega tvær breyt., sem farið er fram á með þessu frv., sem sé breyt. á l. nr. 75. um skipun barnakennara og laun þeirra. Fyrra atriðið er smávægileg breyt. á launum, og síðara atriðið er nokkur trygging fyrir því, að fyrir þá kennara, sem ætlaður er bústaður ókeypis, sé sá bústaður virkilega til staðar. Enn fremur að einn flokkur kennara, sem sé í föstum skólum utan kaupstaða, njóti einnig þessara fríðinda.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að þessari launabreyt., sem gildir um kennara við fasta heimangönguskóla utan bæja. Þeir hafa nú 1300 kr. laun. Í frv. er gert ráð fyrir, að þeir fái 1600 kr., og töldum við flm., að það væri aðeins eðlileg samræming á kaupi þeirra við aðra kenna:a. Kennarar í bæjum hafa nú 1500 kr. fyrir 6 mán. En nú mun starfstíminn verða yfirleitt í slíkum skólum 9 mánuðir eða jafnvel 91/2 mánuður. þannig að kennarar fá í grunnlaun 2250 kr. í 9 mánuði, en 2375 kr. í 91/2 mánuð, og aldursuppbót 1000 kr. En við fasta heimangönguskóla utan bæja fá kennarar 1300 kr., miðað við 6 mánuði, og 2100 miðað við 9 mánuði, sem nú er að verða allalgengur kennslutími. Og þar með hafa laun þessara kennara nálgazt laun kennara í bæjum, og eru þó hér um bil 300 kr. lægri fyrir sama tíma, auk þess sem bæjakennarar fá 1000 kr. aldursuppbót, en kennarar við fasta heimangönguskóla utan bæja ekki nema 500 kr. og aldursuppbót, þannig að munurinn á grunnlaunum verður um 800 kr. Þetta finnst okkur flm. ástæðulaus munur. Enn fremur skal ég geta þess, að í bæjum er víða veitt staðaruppbót og hér í Reykjavík t.d. mun hún vera mismunurinn þeirri dýrtíðaruppbót. sem ríkið borgar. og því, sem bærinn borgar sínum starfsmönnum. Ríkið borgar 25%, en Reykjavíkurbær 40%. Mismunurinn er því 15%. Og sumir kennarar. t.d. Reykjavíkurbæjar, fá alveg sérstaka staðaruppbót, og kemur það enn þá til að auka mun á greiðslum til bæjarkennara annars vegar og þeirra, sem í smærri kauptúnum búa, hins vegar. Mér er ekki alveg ljóst, hvort þessi staðaruppbót hefur verið greidd í öðrum bæjum, en hygg það þó.

Væri svo, að einhver þm. teldi þetta ganga gegn ákvæðum l. um gerðardóm, þá er einmitt ákvæði í þeim, sem heimilar að breyta kjörum manna í launahækkunarátt til samræmis við aðra. Og við teljum, að hér sé um réttláta samræmingu að ræða. Ég vil því eindregið vænta þess, að hv. d. sjái sér fært að fallast á ýmsa till., sem hér er fram komin. Hitt atriðið, sem frv. fjallar um, er komið fram vegna þess. að mjög hefur reynzt erfitt að fá bústað fyrir kennara. Dæmi eru til þess, að skólanefndir eru í hreinustu vandræðum að koma kennurum fyrir. Og hafa kennarar jafnvel neyðzt til að hverfa frá þeim stöðum, þar sem þeir eru þó ráðnir. vegna þess að ekki hefur verið sinnt þeirri sjálfsögðu skyldu að hlynna að því, að þeir gætu fengið bústað.

Að því er snertir barnaskóla í bæjum og heimavistarskóla í sveitum og eflingu farkennslunnar. þá er gert ráð fyrir, að skólastjórarnir eða forstöðumenn þessara skóla fái húsnæði án endurgjalds. En nú hefur reynslan sýnt. að úr þessu geta orðið talsverð vandræði. Það er því gert ráð fyrir með þessum till. menntmn., að til séu fastir kennarabústaðir á þeim stöðum, sem ætlazt er til, að kennarar fái ókeypis húsnæði, og æskilegast mundi því vera, að slíkir bústaðir væru í skólahúsinu sjálfu fyrir skólastjórann. Hins vegar gæti líka orðið samkomulag um það, að hann leggi sér til húsnæði sjálfur, og fengi hann þá greitt jafngildi þess í peningum.

Í l. um skipun barnakennara og laun þeirra eru engin ákvæði, er snerta þá kennara, sem vinna við fasta skóla í bæjum. Þeir eru því eini flokkurinn, sem er út undan, að því er þessi fríðindi snertir. Frv. gerir ráð fyrir, að einnig vegna þessara skóla sé til fastur kennarabústaður. Og með þessu er gengið út frá, að kjör skólastjóranna við þessa skóla séu bætt á þennan hátt, og það er aðeins til samræmingar við aðra kennara, eins og ég hef lýst. Um leið og bætt væri úr ósamræmi með þessum breyt., væri og bætt úr þeim vandræðum, sem hlotizt hafa af því, að þó nokkur þorp úti á landi hafa haust eftir haust orðið að sjá kennurum fyrir íbúð. Þetta eru að sjálfsögðu nokkur útgjöld fyrir sveitarfélögin og ríkissjóð, en ég Verð að telja, að þau útgjöld. sem af þessu leiðir. séu eðlileg og réttlát.

Ég skal geta þess viðvíkjandi þessum breyt. að hér er um launahækkun úr kr. 1300.00 í kr. 1600.00 að ræða, sem aðeins snertir 53 kennara. Útgjöld ríkissjóðs af þessu nema kr. 7950.00, og fyrir hreppsfélögin nemur það öðru eins. Enn fremur kemur svo verðlagsuppbót á alla upphæðina úr ríkissjóði, eða á kr. 15900.00, og verð ég að telja, að þessi útgjöld fyrir ríkissjóð séu smámunir einir.

Ákvæðið um fasta skólastjórabústaði snertir 70 til 80 skólastjóra, og verður að gera ráð fyrir, að ríkið styrki slíka kennarabústaði í sama hlutfalli og skólana. Af þessu leiðir að sjálfsögðu nokkurn kostnað, en hann er með þessu frv. færður yfir á ríkið og hreppsfélögin, í staðinn fyrir að kennararnir gera hann sjálfir nú, þrátt fyrir sín lélegu laun.

Ég vænti, að ekki þurfi að hafa fleiri orð um þetta. Ég vil aðeins endurtaka, að þau tvö atriði, sem hér er um að ræða, eru, að kennarar við fasta skóla utan kaupstaða fái launahækkun úr kr. 1300.00 í kr. 1600.00, og að í bæjum, þar sem þess er sérstök þörf, séu til fastir skólastjórabústaðir, og enn fremur að forstöðumenn fastra heimangönguskóla utan kaupstaða njóti sömu fríðinda.