27.04.1942
Efri deild: 41. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

33. mál, sala á prestsmötu

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þetta frv. er hingað komið frá Nd. Efni þess er það, að andvirði prestsmötu, sem seld hefur verið og seld kann að verða, renni til kirkna þess prestakalls, þar sem prestsmatan hefur verið, og skiptist milli þeirra, en ríkissjóður greiði prestlaunasjóði í staðinn þann halla, sem hann verður fyrir af þessu.

Fjhn. mælir með þessu frv., eins og sjá má á nál. á þskj. 201. Hún mælir með þessu frv. sökum þess, að hún lítur svo á, að sanngjarnt sé, að þjóðkirkjan á þennan hátt njóti þeirra fjármuna, sem liggja í andvirði prestsmötu. Ég er ekki svo fróður, að ég geti nákvæmlega sagt um, hvernig prestsmatari er til komin, en það er samt áreiðanlegt, að hún er lögð á í þeim tilgangi að verða kirkjunni í landinu til hagsmuna, og n. telur rétt, að svo verði áfram. Má að vísu segja, að prestsmatan gangi til kirkjunnar eins og nú er, með því að hún er hluti af launum prestanna, þar sem prestsmata er á annað borð, en þegar þess er gætt, að fjöldamargar kirkjur úti um byggðir landsins hafa svo lítil fjárráð, að tæplega er hægt að halda þeim sæmilega við, þó að þess sé þörf, þá virðist ekki veita af, að sjálfar kirkjurnar geti fengið þessar tekjur, sem af sölu prestsmötunnar leiðir.

Ég skal játa, að það getur verið talsvert vafamál, hvort á að samþ. frv. óbreytt, því að það er svo um prestsmötuna, að hún hefur tilheyrt ákveðnum kirkjum, en ekki prestaköllum. Það kynni því að vera eins eðlilegt, að andvirði seldrar prestsmötu ætti að renna til þeirrar kirkju, þar sem prestsmatan hefur hvílt á, og til annarra kirkna prestakallsins, ef fleiri eru. N. hefur þó ekki gert brtt. um þetta. Það má líka líta svo á, að það sé ekki með öllu ósanngjarnt, að þetta gangi til allra kirkna prestakallsins, því að hingað til hefur prestsmatan gengið til að launa prestana, en ekki til kirknanna, og virðist því ekki óeðlilegt, að allar kirkjur prestakallsins njóti þess.

Ég var ekki viðstaddur 1. umr. þessa máls, en mér hefur verið tjáð, að hv. 1. þm. N.-M. hafi óskað þess, að n. rannsakaði, hvað víða þessi prestsmata væri og um hvað mikla fjárhæð mundi vera að ræða. Ég get ekki gefið skýrslur um þetta, því miður, en eftir því, sem ég bezt veit, er verið að rannsaka þetta atriði í dómsmrn., og má vera, að hægt verði að gefa upplýsingar um þetta við 3. umr. En hvað n. snertir, þá mun sú skýrsla, ef hún fæst, ekki breyta afstöðu n. neitt, því það er áreiðanlegt, að þessi upphæð er ekki svo stórkostleg, að n. sjái ástæðu til þess, að það standi í vegi fyrir, að kirkjurnar verði þessara hlunninda aðnjótandi. Má að vísu segja, að með því að ákveða, að ríkissjóður bæti prestlaunasjóði þennan tekjumissi, sé lagður nokkur baggi á ríkissjóð, en n. lítur svo á, að það sé ekki nema sanngjarnt, og ríkissjóður, eins og nú stendur, mun áreiðanlega vera fær um að taka það á sig. Og þegar litið er á ýmsar kröfur, sem vel er tekið, um að ríkissjóður styrki kirkjubyggingar t.d. í Reykjavík, þá sýnist ekki ósanngjarnt, að kirkjurnar úti um landið geti orðið þessara hlunninda aðnjótandi, jafnvel þó að það kosti ríkissjóð nokkurt fé.

Ég vona sem sagt, að ég geti gefið nánari upplýsingar við 3. umr., þó að það sé ekki víst, en till. n. er, að frv. sé samþ., en vera kann, að n. taki til athugunar við 3. umr., hvort ekki sé rétt að breyta frv. lítið eitt um það atriði, sem ég nefndi áðan, en með höfuðefni þess mælir hún.