10.03.1942
Neðri deild: 16. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (872)

28. mál, ársskýrslur síldarverksmiðja ríkisins

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég ætla nú ekki mikið að blanda mér inn í þessar umr., en þykir þó rétt að taka það fram, í sambandi við aðfinnslurnar út af þessum kaupum, að það er fyrst og fremst verk hæstv. atvmrh., að þessi verksmiðja hefur verið keypt. Það er alltaf venja mín, þegar ekki er farið rétt með mál, að leiðrétta það, og ég veit, að hæstv. viðskmrh. hefði óskað eftir að gera það, ef hann væri viðstaddur.

Það eru tvö sjónarmið, sem hér eiga við, og þau eru allt of kunn þessari hv. d. og Alþ. yfirleitt til þess, að þau þurfi að skýra með löngu máli. Annars vegar eru hagsmunir hinna stóru verksmiðja. Og það er kannske ekkert óeðlilegt, þó að stjórn síldarverksmiðja ríkisins, með duglegan framkvæmdastjóra í broddi fylkingar, haldi fram því sjónarmiði, að ekki eigi að kaupa hinar minni verksmiðjur, sem bera sig miður, heldur eigi einungis að hugsa um það, sem einnig kom hér fram í þessum umr., að þær stóru verksmiðjur, sem sitja að beztu framleiðsluskilyrðunum, beri sig sem bezt.

Hins vegar er það sjónarmið, sem ákaflega oft hefur komið fram og kom fram viðvíkjandi verksmiðjunum á Húsavík og Seyðisfirði og einnig í sambandi við kaupin á þessari verksmiðju, þar sem svo að segja allir útgerðarmenn á Norðfirði, og ég held margir á nálægum stöðum, skoruðu á ríkisstj. að kaupa þessa verksmiðju, vegna þess að það hendir ekki svo sjaldan, að síld er fyrir Austurlandi, og það er ekki hægt að notfæra sér þá síld, nema henni sé komið í verksmiðju, sem er nægilega nærri. Það er þetta sjónarmið, sem réð, þegar Norðfjarðarverksmiðjan var tekin. Hitt er annað mál, hvort sjónarmiðið á að ráða, en ég álít, að ekki sé hægt að komast hjá því að taka það til greina, að verksmiðjunum sé þannig fyrir komið í landinu, að hægt sé að nota sér þá síldveiði, sem völ er á á hverjum tíma sem allra bezt, og að á milli þeirra geti orðið hentugt samstarf. Þó að áraskipti séu að því, hefur oft fyrir Austurlandi veiðzt mikil síld.

Ég álít rétt, að þetta komi fram, því að það er þetta, sem um er deilt, m.a. af hæstv. atvmrh. En sannleikurinn er, að það sjónarmið, að taka tillit til hinna smærri staða, var stutt af mér, og þó að leiðinlegt sé að vera að vitna í ráðherrafundi, get ég sagt það, að ég hygg, að ráðh. Alþfl. hafi, þegar um þetta var rætt, sízt verið fjarlægur því sjónarmiði að taka jafnframt tillit til hinna smærri staða.