08.04.1942
Efri deild: 28. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

Erlendur Þorsteinsson:

Ég vil byrja á að þakka n. fyrir góða afgreiðslu á þessu máli, eins og við mátti búast, þar sem n. mælti með því á vetrarþinginu, að frv. yrði samþ. En út af ummælum hv. 1. þm. N: M. vil ég gera nokkrar aths.

Hann vill blanda saman tveimur óskyldum málum, sem sé hvort kaupstaðirnir eigi að fá keypt það land, sem þeir standa á, og hvernig eigi að koma í veg fyrir lóðabrask. Það v ar upplýst hér við fyrri umr., hvernig þróunin hefur verið í lóðabraskinu á Siglufirði. Ríkið hefur átt þetta land, en hefur ekki fylgzt með betur en svo, að þær ráðstafanir hafa átt sér stað, sem lýst var við 1. umr. Það er því alveg þveröfugt, sem hv. 1. þm. N.- M. var að halda fram, að ríkisstj. væri betur trúandi til með eignarhaldi á þessu landi að koma í veg fyrir lóðabrask. Mér finnst þetta líka leiða af sjálfu sér. Ríkisstj. hafa í það mörgum málum að snúast, að þær geta ekki haft beint eftirlit með þeim daglegu viðburðum í hinum ýmsu kaupstöðum landsins. Bæjarstj. eru aftur á móti losnar til þess að fylgjast með þeim málum, sem fram fara innan takmarka bæjarfélagsins. Það er því eðlilegt og sjálfsagt, að bæjarstj. fylgist betur með í því, hvort þetta brask heldur áfram eða ekki, og hvað sem verða kann með þá bæjarstjórn á Siglufirði, sem kæmi til með að framlengja þá samninga, sem nú eru í gildi tig hún þarf að framlengja, þá veit ég, að eins og bæjarstj. þar er nú, þá mun hún fylgjast með þessum málum með miklum áhuga og reyna að koma í veg fyrir hina óeðlilegu verðhækkun, sem átt hefur sér stað á þessum óbyggðu lóðum á Siglufirði.

Af framangreindu tel ég tryggingu fyrir, að bæjarstj. og hreppsn. hafi miklu meiri möguleika til að fylgjast með því, sem gerist' í þessum málum, heldur en ríkisstj. Þess vegna finnst mér, a:ð rök hv. 1. þm. N.- M. snúist alveg á móti því, sem hann vill vera láta. Hins vegar mun ekki standa á mér að samþ. skilyrði fyrir kaupum á Hvanneyri, sem ættu að koma í veg fyrir brask með þetta land, eða að veita mitt samþykki til, að reynt verði að koma í veg fyrir slíkt hvar sem er á landinu. Ég er sammála hv. 1. þm. N.- M., að það beri að gera allt, sem hægt er, til að koma í veg fyrir verðhækkun á byggingarlóðum í kaupstöðum.

Ég vænti þess að lokum, að þegar hv. þm. athugar þetta nánar, þá fallist hann á, að það er enginn skaði skeður, þó að bæirnir eignist þessi lönd, og það ætti sízt að torvelda, að l. verði sett um þetta efni hér á landi.