04.09.1942
Sameinað þing: 14. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (1146)

33. mál, drykkjumannahæli

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Ég heyri það, að hv. þm. Borgf. hefur skipt um skoðun síðan hann flutti þáltill. um þetta á síðasta þingi.

Ég vantreysti hæstv. ríkisstj. að vísu ekkert sérstaklega í þessu máli. En ég veit, að hún hefur í ákaflega mörg horn að líta. Og ég vitna til þess, að árið 1935 var ríkisstj. beinlínis falin framkvæmd í þessu máli. Sú ríkisstj. var, eins og ég ætla, að þessi ríkisstj. sé, málinu hlynnt. Eigi að síður varð ekkert úr framkvæmd. Það er þetta, sem kemur mér til þess að óttast um það, að sú afgreiðsla málsins, sem hér hefur verið lögð fyrir, að vísa málinu til ríkisstj., kunni að fresta framkvæmdum í því óhóflega lengi. Þess vegna óska ég, að efnislega verði gengið frá þessu máli hér nú með því að ganga til atkv. um þáltill. sjálfa, en það fellt að vísa málinu til ríkisstj., af því að ég hygg, að það, að vísa málinu þangað, þýði ekkert annað en töf í málinu.