02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í D-deild Alþingistíðinda. (1198)

18. mál, undanþága frá greiðslu á benzínskatti

Skúli Guðmundsson:

Þeir hv. þm., sem hafa talað um þessa þáltill., hafa margir hverjir látið sér tíðrætt um það, að ríkið legði fram mikinn styrk til strandferða, sem önnur héruð yrðu aðnjótandi en héruðin sunnanlands, en héruðin sunnanlands hefðu þess styrks engin not, vegna þess að þar væru engar hafnir. Ég býst við, að það sé fyrir ókunnugleika á þessu máli, að hv. 5. landsk. þm. (IngJ) gerir svo mikið úr því, hve mikil þau hlunnindi séu, sem með þessu eru veitt öðrum héruðum. En það er nú þannig, að síðan stríðið hófst, hefur skort mjög mikið á það, að strandferðir hafi verið fullnægjandi. Eimskipafélag Íslands hefur að miklu leyti hætt að senda skip sín á hinar smærri hafnir kringum landið. Skip þessi hafa komið á stærstu hafnirnar, en að mestu hætt að koma á smærri hafnirnar. Og þar sem ekki hafa verið nægilega mörg strandferðaskip í þjónustu ríkisins, hefur þetta leitt til þess, að strandferðirnar hafa verið algerlega ófullnægjandi. Af því stafar aftur, að þeir, sem nálægt smærri höfnunum búa, hafa orðið að nota bifreiðar til vöruflutninga miklu meira en áður var. Svo er t. d. með ýmis héruð norðan lands og vestan. Ég get getið þess, að það hefur orðið nú síðustu árin t. d. að senda mikið af kjöti frá verzlunarstöðum við Húnaflóa og úr Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu á bifreiðum hingað til Rvíkur vegna þess, að ekki var hægt að fá skip til þess að annast þessa flutninga. Frá sumum þessara héraða hafði kjöt verið selt á Noregsmarkað, áður en stríðið hófst. Þegar sá markaður lokaðist, varð að senda þessa vöru nýja á markaðsstaði innan lands, og þangað var ekki hægt að koma henni óskemmdri nema á bifreiðum.

Ég tel, ef fara á inn á þá braut að aflétta benzínskatti fyrir þá, sem þurfa að flytja á bifreiðum hér sunnan lands, þá nái engri átt að láta það ekki ná einnig til annarra landshluta. Skiptir í því sambandi ekki máli, hvor leiðin er farin, sú, sem hér er stungið upp á, eða að létta undir með þessum flutningum á annan veg, eins og rætt hefur verið um í sambandi við næsta mál á dagskránni. Það kemur vitanlega ekki til mála, að slíkir styrkir nái ekki til fleiri héraða heldur en þeirra, sem hér er um að ræða í þáltill. Ég vil taka þetta fram viðvíkjandi þeirri brtt., sem ég og fleiri hv. þm. berum fram við þá þáltill., sem hér liggur fyrir. Þó að ýmis héruð austan Hellisheiðar þurfi að flytja vörur á bifreið um 60–80 og upp í 100 km vegalengd, þá er það sízt meiri kostnaður heldur en ýmis önnur héruð verða að hafa af vöruflutningum. Á síðasta ári var h. u. b. sami kostnaður við að senda kjöt frá höfnum við Húnaflóa með skipum til Rvíkur eins og á bifreiðum. Og ég geri ráð fyrir, að það muni nú sára litlu sem flutningurinn er ódýrari með skipum. Og ég hygg, að flutningskostnaðurinn hafi aukizt meira með skipunum heldur en með bifreiðum upp á síðkastið. Þetta sýnir, að það er ekki sanngjarnt að taka einstök héruð út úr og láta þau vera afskipt með öllu, ef farið verður inn á þessa braut.