19.08.1942
Efri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Bernharð Stefánsson:

Borgarstjórinn í Reykjavík, hv. 5. þm. Reykv., ætlast víst til þess, að réttur framsóknarmanna og þá sérstaklega réttur dreifbýlisins verði annar og minni en Reykvíkinga hér eftir, og það er nokkur vorkunn, að hann trúi því og skáki í því valdi. Og svo brigslar hann og hans flokksmenn um, að við framsóknarmenn séum að tefja þingið með því að lýsa yfir skoðunum okkar, þó að lengst af sitjum við hér til þess eins að hlusta á vaðalinn í þeim. Við eigum ekki að andmæla neinu til að tefja ekki þingið, sá skal nú vera réttarmunurinn.

Ég held, að það, sem af er þessu þingi, hafi aðeins einn framsóknarmaður tekið til máls hér í hv. d.

Annars var það alveg óþarfi fyrir þennan hv. þm. að svara mér með þeim rembingi, sem hann gerði. Ég var ekki að setja ofan í við hann eða aðra hv. þm. Ég var með meinlausa fyrirspurn til hæstv. forseta um það, hvort leyfilegt væri í sambandi við eitt mál að tala um hvaða mál, sem væri, eða hvort hv. þm. ættu að halda sér við efni málsins.

Þessi hv. þm. hefur skrifað bók um deildir Alþ., og hann er að benda mér á það, að talað hafi verið vítt um mál af öðrum í sambandi við önnur mál. Maður, sem skrifar vísindalegt rit um Alþ., ætti að vita, að nokkur munur er á 2. og 3. umr., þannig að leyfilegt er að ræða meira almennt um mál við 3. umr. heldur en við 2. umr. Auk þess hefur sá siður jafnan gengið, að frjálsar er litið á þessa hluti, þegar útvarpsumr. eru heldur en annars.

Ég hef ekki tilhneigingu til þess að veitast sérstaklega að nýjum þm. En ég verð að segja það, að á þessum 25 þingum, sem ég hef setið að þessu meðtöldu, hef ég aldrei vitað menn byrja þingmennsku sína eins og þessir tveir hv. sessunautar hafa nú gert í þessari d., borgarstjórinn í Reykjavík og hv. þm. Barð. (GJ). Og hér í þessari hv. d. hefur aldrei verið slík málafylgja og aðferð höfð nú að minnsta kosti í 10 ár.