14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Guðmundsson:

Það er auðsætt af nál. meiri hl. stjskrn. og ræðum, sem fylgismenn stjskrbreyt. hafa flutt hér í d. í dag, að stjórnarflokkarnir þrír ætla að halda áfram á þeirri glötunarbraut, sem þeir hurfu inn á á síðasta þingi. Þeir ætla sér að knýja fram þessa breyt., enda þótt þeir sjálfir, a. m. k. sumir þeirra, játi að vísu, að hún sé aðeins til bráðabirgða, en engin framtíðarlausn á kjördæmaskipunarmálinu. Við framsóknarmenn höfum á síðasta þingi og nú varað við slíku flani á þessum hættulegu tímum. En þó að við höfum beitt okkur móti þessar í breyt. á stjskr. og teljum, að með henni sé stefnt á óheillabraut, þá er ekki þar með sagt, að við séum ánægðir með það kosningafyrirkomulag, sem nú er. Ég tel, að það kosningafyrirkomulag, sem upp var tekið 1933 þ. e. uppbótarsætafyrirkomulagið, hafi á margan hátt reynzt illa og frá því beri að hverfa svo fljótt sem þannig ástæður skapast í landinu, að verjandi sé að stofna til aukakosninga í sambandi við breyt. á stjórnarskrá landsins.

Ég vil láta koma fram við þessa umr. þá skoðun mína, að okkar þjóð muni bezt henta, að öllu landinu verði skipt í einmenningskjördæmi og jafnframt verði í lög tekið, að frambjóðandi skuli vera búsettur í kjördæminu. Tvímenningskjördæmunum, sem nú eru, ætti að skipta, og Reykjavík einnig. Þm. gæti þá fækkað nokkuð frá því, sem nú er, en þjóðin fengi starfhæfara þing. Það er þetta skipulag, sem gilt hefur í þeim löndum heims, þar sem þingræði og lýðræði er einhvers megnugt nú á tímum.

Hin leiðin, sem stjórnarflokkarnir þrír nú berjast fyrir, eru auknar hlutfallskosningar, en það eru þær, flokkafjöldinn og glundroðinn, sem af því fyrirkomulagi hefur leitt, sem fyrst og fremst hefur valdið hruni þingræðisins í mörgum löndum og rutt einræðinu braut, með auknum hlutfallskosningum er stefnt frá raunverulegu lýðræði til flokksræðis. Með þeim eru allir, sem vilja nota kosningarrétt sinn, dregnir í einhvern flokksdilkinn, nauðugir viljugir. Persónulegt mat kjósenda á frambjóðendum og persónulegt traust á þeim kemur trauðlega til greina.

Spá mín er sú, að því aðeins eigi þingræði okkar framtíð, að einmenningskjördæmaskipulagið verði upp tekið.

Ég veit, að það hefur enga þýðingu að bera fram brtt. nú, því að meiri hl. þm. er svo sjóndapur í þessu máli, að allar skynsamlegar fortölur eru árangurslausar. Því verður ekki forðað, að hann haldi áfram á feigðarbrautinni.