18.08.1942
Neðri deild: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti! Það mætti helzt ímynda sér, að hv. síðasti ræðumaður hefði tekið ræðu sína upp úr gömlum blöðum Sjálfstfl. Því níði mun verða svarað næsta kvöld, að því leyti, sem það er svaravert.

Kjördæmamálið hefur markað afstöðuna í stjórnmálum landsins síðustu mánuðina og mun gera það enn um skeið, ef afgreitt verður á þessu þingi, eins og stuðningsflokkar þess búast nú til að gera. Þess vegna er eðlilegt, að rætt verði almennt um stjórnmálaviðhorfið í landinu nú í sambandi við afgreiðslu málsins.

Til þess að fá fullt yfirlit um það, sem er að gerast, verður að víkja enn einu sinni örfáum orðum að aðdraganda þess, hversu nú er komið málum.

Sjálfstæðismenn komu í veg fyrir það allt árið 1941, að nokkuð jákvætt væri gert í dýrtíðarmálunum. Þeir sneru snældu sinni með ýmsu móti, en ætíð til að stemma stigu fyrir því, að nokkuð væri aðhafzt í málinu. Þeir fylgdu dýrtíðarfrv. mínu á Alþ. 1941, en stóðu á móti framkvæmd laganna og hindruðu hana. Þeir fylgdu tillögum um lögfestingu kaupgjalds- og verðlags áður en aukaþingið kom saman haustið 1941, en komu málinu fyrir kattarnef, þegar til þings kom. Þeir þóttust ætla að reyna hina „frjálsu leið“, sem þó reyndist ófær svo sem fyrirsjáanlegt var, enda beinlinis vitandi vits gerð ófær af sósíalistum og Alþýðuflokksmönnum, af því að þeir þurftu ófrið um kaupgjaldsmálin. — Loks um áramótin síðustu, þegar andúð almennings á hringlandahætti sjálfstæðismanna í málinu, var orðin svo rík, að þeir þorðu ekki lengur að spyrna fótum við, buðust þeir til að taka þátt í setningu bráðabirgðal. um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum, — en þá var svo komið málum, að verkföll voru á skollin — og er þar að leita að einni undirrót þess, sem síðan hefur í málinu gerzt. — Með svipuðum hætti barðist Sjálfstæðisflokkurinn af fremsta megni gegn skattlagningu stríðsgróðans, og eins lengi og hann með nokkru móti þorði. Tillögur mínar og annarra framsóknarmanna um skattamálin á aukaþinginu 1941 voru kallaðar kommúnistískar og hrein fjarstæða. Það var ekki fyrr en hægt var að beygja Sjálfstfl. í sambandi við lífsnauðsyn hans á því, að fá frestað bæjarstjórnarkosningum, að þessar sömu skattatill. okkar framsóknarmanna fengust lögfestar að mestu leyti.

Alþfl. beið allan þenna tíma eftir hentugu tækifæri til þess að hlaupa frá stjórnarsamstarfinu á þann hátt, að líkur væru til fylgisauka fyrir flokkinn. Alþfl. notaði því tækifærið um áramótin, þegar hafizt skyldi handa um alhliða átök til þess að sporna við vaxandi dýrtíð, og snerist til stjórnarandstöðu. Málflutningur flokksins var, og hefur verið sá, að óverjandi hafi verið, að halda óbreyttu grunnkaupinu, — en tæpum mánuði áður höfðu forkólfar flokksins haldið hrókaræður um, að verðbólgan væri hættulegust verkalýðnum og að grunnkaupshækkanir væru meira en lítið vafasamur vinningur fyrir hann.

Þegar hér var komið sögu, tók Alþfl. upp kjördæmamálið, og er enginn vafi á því, að fyrir forkólfum flokksins vakti, að það yrði ekki afgreitt, en mundi hins vegar reynast handhægt vopn gegn Sjálfstfl. í kosningum þeim, er í hönd fóru, og vænlegt til fylgisauka í kaupstöðunum að núa sjálfstæðismönnum því um nasir, að þeir hefðu ekki þorað að afgreiða málið.

Um það leyti, sem sjálfstæðismenn völdu um það, hvort afgreiða skyldi kjördæmamálið eða halda áfram samstarfi við Framsfl. og berjast gegn vaxandi dýrtíð í landinu, var alveg augljóst, að nýrra átaka var þörf í fjárhagsmálum og atvinnumálum, ef komast átti hjá fullkomnu öngþveiti. Samningar stóðu yfir um takmörkun á íslenzku vinnuafli í setuliðsvinnunni, og það lá fyrir, að stj. mundi ekki fá fullnægt óskum sínum í því efni. Það var vitað mál, að ef takast átti að tryggja atvinnuvegum landsmanna það vinnuafl, sem minnst varð komizt af með, varð að gera ráðstafanir til þess að takmarka byggingar og miður þarfar framkvæmdir í landinu. Það lá í augum uppi, að löggjöf, sem heimilaði ríkisstj. slík afskipti, var beinlínis orðin skilyrði þess, að þær ráðstafanir, sem þegar var búið að gera, næðu tilgangi sínum. Þetta var ríkisstj. svo ljóst, að hún lýsti yfir því við herstjórnina í sambandi við samningana um vinnuaflið, að hún mundi gera ráðstafanir til þess að takmarka framkvæmdir og tryggja með því móti, að það vinnuafl, sem samningurinn losaði úr setuliðsvinnunni, leitaði til bráðnauðsynlegra framleiðslustarfa.

Framsfl. lagði því til í ríkisstj., að sett yrði á vetrarþingi löggjöf um íhlutun ríkisstj. um byggingar og aðrar framkvæmdir í landinu, og m. a. með því móti tryggð framkvæmd þeirrar stefnu, sem upp hafði verið tekin í dýrtíðar- og fjárhagsmálunum. En þegar hér var komið málum, hafði ábyrgðarleysið náð undirtökunum í Sjálfstfl. á nýjan leik, og var þessu hafnað af ótta við reiði þeirra manna, sem ráðstafa vilja stríðsgróða sínum eins og þeim sýnist.

Sjálfstæðismönnum hlýtur að hafa verið fyllilega ljóst, enda þótt þeir vildu ekki viðurkenna það, að þeir áttu um tvennt að velja: Annars vegar framhald þeirra ráðstafana, sem byrjað var á, og nýjar og róttækar framkvæmdir á sama grundvelli þeim til stuðnings, til þess að halda jafnvægi í fjárhags- og atvinnumálum þjóðarinnar, hins vegar hreina upplausn í atvinnu- og fjármálum, eyðileggingu þess, sem búið var að vinna til viðnáms, margra mánaða kosningabaráttu og tvennar alþingiskosningar.

Allt þetta bentum við framsóknarmenn sjálfstæðismönnum rækilega á síðast liðið vor. Við skýrðum fyrir þeim, hvað við teldum framundan, og vöruðum þá við. En okkur var ekki svarað öðru en fúkyrðum og fullyrðingum um það, að allar aðvaranir okkar væru gegn betri vitund gerðar og einungis til þess að reyna að hindra afgreiðslu kjördæmamálsins og bjarga með því flokkshagsmunum Framsfl. Sjálfstæðismenn þóttust vera fyllilega einfærir um að stjórna landinu. Þeir gætu séð öllu vel farborða. Gorgeir þeirra og yfirlæti fór langt fram úr því, sem áður hefur þekkzt, og þeir héldu því sérstaklega fram, að gagnrýni og aðvaranir okkar hv. þm. Str., Hermanns Jónassonar, væru sprottnar af persónulegu yfirlæti, — við héldum, að allt mundi ganga úr skorðum við það, að við færum úr ríkisstj. Þeir tóku það fram, að það væri landhreinsun að því að losna við Framsfl. úr ríkisstj., og það væri alveg sérstök nauðsyn, sem bæri að setja ofar öllu öðru eins og nú stæðu sakir, að hnekkja þingvaldi framsóknarmanna. Framsfl. væri, eins og hæstvirtur fjármálaráðherra orðaði það, „þjóðhættulegur ofstopaflokkur“, „og ábyrgðarlausasti flokkur, sem nokkurn tíma hefði verið uppi hér, a. m. k. síðan á Sturlungaöld.“

Þannig voru undirtektirnar, sem Framsfl. fékk, þegar hann varaði við því, að á þessum tímum væri tekin upp baráttan um kjördæmamálið og mynduð sú veikasta ríkisstj., sem nokkru sinni hefur þekkzt í þessu landi.

Nú hafa kosningar farið fram um kjördæmamálið og ríkisstj. Hefur setið að völdum í þrjá mánuði. Nú er ástandið þannig í landinu, að engum getur blandazt hugur um, hvílíkt glapræði var framið í íslenzkum stjórnmálum af hendi þeirra manna, sem létu hafa sig til þess að taka upp baráttuna um kjördæmamálið og mynda óhæfa ríkisstj. Það getur líka hver og einn sagt sér sjálfur, til hvers það muni draga, á tímum eins og við lifum nú á, að mynduð sé ríkisstj. og haldið í valdastólum af þremur flokkum, sem lýsa jafnframt yfir því og hrósa sér af, að þeir eigi ekkert sameiginlegt nema það að stofna til ófriðar í landinu um breytingar á kjördæmaskipuninni. Það er líkara ljótum draumi en veruleika, að nokkrir þm. skuli hafa leyft sér annað eins. Hér hefur þá einnig farið nákvæmlega eins og til var stofnað. Á þriggja mánaða valdatíma sínum hefur ríkisstj. tekizt að eyðileggja allt starf, sem búið var að inna af hendi í dýrtíðar- og fjárhagsmálunum frá því um síðustu áramót og þangað til stjórnin Settist að völdum.

Ríkisstj. staðfestir sjálf þennan vitnisburð með því að bera fram hér á Alþ. lagafrv. um afnám þeirra laga, er núv. hæstv. forsrh. taldi fyrir tæpum átta mánuðum lífsnauðsyn að setja og eina hina merkustu löggjöf, sem Alþingi Íslendinga hefði samþykkt. Engum dylst nú hins vegar, að á þessum stutta valdatíma núv. hæstv. stj. hefur skapazt slíkt öngþveiti um framkvæmd þessarar löggjafar vegna úrræðaleysis hennar og algerðrar vanhirðu um að styðja l. með nýjum ráðstöfunum, að l. eru nú gagnslaus.

Í stað þess að fylgja fram þeirri stefnu, sem l. mörkuðu, hefur ríkisstj. reynzt máttvana leikfang í höndum þeirra Alþfl.manna, sjálfstæðismanna og sósíalista, sem frá öndverðu vildu þessar ráðstafanir gegn dýrtíðinni feigar.

Það kveður þá heldur en ekki við annan tón nú hjá hæstv. ráðh. og blöðum þeirra en í vor sem leið, þegar þeir settust í ráðherrastólana og lofuðu þjóðinni því, að öllu skyldi óhætt, — þeir skyldu stýra fram hjá öllum vanda meðan deilan um kjördæmamálið yrði til lykta leidd, en alveg sérstaklega skyldu þeir þó vaka yfir dýrtíðarmálunum. Þjóðin þyrfti ekkert að óttast í því efni.

Við framsóknarmenn gerðum okkur engar gyllivonir í þessu sambandi: Við bárum fram aðvaranir okkar í tíma eins og skyldan bauð. En okkur var ljóst frá öndverðu, hversu fara mundi; þegar þeir menn úr Sjálfstfl., sem úrslitum mála réðu á aukaþinginu 1941, tækju við forustu í fjárhagsmálum þjóðarinnar með „stuðningi“ Alþýðuflokksmanna og sósíalista, sem höfðu lýst yfir því, að einn meginkostur nýju stjórnarinnar væri sá, að hún væri svo veik, að hún gæti ekki stjórnað.

Nú er þannig ástatt í landinu, að allar flóðgáttir í kaupgjalds- og verðlagsmálum hafa verið opnaðar upp á gátt. Kaupgjaldið í landinu hækkar dag frá degi. Vinnustöðvanir eru daglegt brauð. Verðbólgan og seðlaflóðið vex svo hratt og svo ört stækkandi skrefum, að enginn gerir sér grein fyrir, hvað þá meir. Allir hugsa um það eitt að komast ekki skemmra en hinir, að dragast ekki aftur úr í kapphlaupinu, og er það vorkunnarmál, þegar ekki bólar á neinni viðleitni til þess að halda aftur af þessari þróun. Sennilega halda margir í dag, að þessar hækkanir færi þeim gróða, en bráðlega munu menn sannfærast um hið gagnstæða. — Menn munu brátt sjá, hvernig dýrtíðarbylgjan rís hærra og hærra, unz hún brotnar á þeim sérstaklega, sem hefur verið talin trú um, að þeir væru að vinna sigra.

Alþýðuflokksmenn, kommúnistar og sjálfstæðismenn geta hrósað þeim sigri, að þeir snauðu gerast nú snauðar í og hinir ríku ríkari með hverjum degi, sem líður, eins og hv. þm. Seyðf., Haraldur Guðmundsson, orðaði það, þegar hann lýsti áhrifum verðbólgunnar á efnahag manna í landinu.

Það er grátbroslegt að heyra þá, sem fyrir nokkrum mánuðum voru óþreytandi að lýsa því, hve grunnkaupshækkanir væru tvíeggjað sverð fyrir verkalýðinn, og að verðbólgan væri engum skaðlegri en honum, fagna því nú ákaft, að tekizt hefur að rífa niður dýrtíðarráðstafanirnar og að verðbólgan vex nú með meiri hraða en nokkru sinni fyrr. Það er ekki alveg víst, að þeir, sem fagna nú sigrinum, hljóti jafnmikla viðurkenningu síðar og þeir hljóta nú hjá þeim mönnum, sem þeim hefur tekizt að blinda í bili. Þess mun skemmra að bíða en margur hyggur, að í ljós komi, hversu alþýðu landsins verður hagkvæm sú niðurstaða, sem verður í atvinnu- og félagsmálum þjóðarinnar, ef svo fer fram sem nú horfir í þeim málum.

Ekki bólar á nokkurri jákvæðri viðleitni af hálfu stjórnarvaldanna til þess að stöðva upplausnina, og þeir, sem hafa borið ábyrgðina og skipulagt smáskæruhernaðinn til þess að rífa niður dýrtíðarl., virðast ekki vera neitt á þeirri leið að stuðla að því á nokkurn hátt, að nokkur endir geti orðið á öngþveitinu. Ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar virðast ætla að lifa áfram samkvæmt þeirri meginreglu, að ekkert skipti máli nema kjördæmabreytingin og að þeim beri engin skylda til þess að leita lausnar á neinu máli nema því.

Ríkisstj. veit ekki sitt rjúkandi ráð, og það er til marks um stefnuleysi hennar í dýrtíðarmálunum, að á sama tíma sem hún horfir aðgerðarlaus á hið tryllta kapphlaup kaupgjalds og verðlags, sem nú er hafið, mokar hún fé úr ríkissjóði til þess að halda niðri verðlagi á einstökum vörutegundum á innlendum markaði. Slíkt er nákvæmlega jafnárangursríkt og að ausa vatni í botnlaust ílát.

Í framleiðslumálum landsmanna er ástandið þannig, að höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar vantar stórkostlega vinnuafl. Margir bændur fá ekki kaupa- eða vinnufólk, hvað sem þeir bjóða í kaup. Niðurstaðan verður sú, að bústofn landsmanna minnkar og matvælaframleiðslan þverr, og er það ekki óglæsileg þróun, eða hitt þó heldur, á sama tíma sem líkur benda til, að aðflutningar til landsins muni minnka stórkostlega. Til dæmis um ástæður sjávarútvegsins má nefna aðeins eitt. Síldarverksmiðjur ríkisins geta ekki starfrækt allar verksmiðjur sínar vegna skorts á vinnuafli í landi, Þannig hefur gamla verksmiðjan á Raufarhöfn ekki verið rekin vegna þess, að hana vantar örfáa menn til starfa. Ef þeir fengjust, væri unnt að reka þarna verksmiðju, sem bræðir 1000 mál síldar á sólarhring. Á sama tíma hafa síldarskipin legið tugum saman og beðið eftir löndun. Sjómenn tapa, útgerðarmenn tapa, og þjóðin tapar. En fólkið, sem hefði getað sinnt þessum störfum, vinnur að byggingu skrauthalla hér í Rvík, sem stríðsgróðamennirnir láta reisa, og við ýmsar aðrar álíka aðkallandi framkvæmdir.

Enginn hefur hreyft hönd né fót til þess að reyna að ráða bót á þessu öngþveiti, enda þótt Framsfl. gerði strax í vor allt, sem hann gat, til þess að vekja athygli upplausnarflokkanna á því, hvað gera þyrfti í þessum málum. Um það skeytti enginn. Allt varð að víkja fyrir kjördæmamálinu og þeim flokkshagsmunum, sem Sjálfstfl. sá hilla undir í sambandi við lausn þess. En hvað skyldu þeir vera margir, sem nú eru ánægðir með þá stefnu, sem tekin var, og hvað skyldu hinir vera margir, sem hafa áhuga fyrir því, að halda áfram þessum leik?

Framsfl. gerði sér nokkrar vonir um, þegar Alþ. kom saman fyrst, að forustumenn þeirra flokka, sem stóðu að kjördæmamálinu, mundu hafa áhyggjur af því, hversu nú horfir í landsmálum. Framsóknarmenn gerðu sér vonir um, að þeir mundu nú hljóta að gera sér ljósa nauðsyn þess að snúast gegn upplausninni og þá jafnframt, að forustumenn flokkanna mundu viðurkenna, að engar líkur væru til, að nægilega föstum tökum yrði tekið á þeim vandamálum, sem fyrir liggja, ef haldið væri áfram að berjast um kjördæmamálið og stofnað til kosninga enn á ný í haust, eða öllu heldur snemma vetrar. Framsfl. taldi sér skylt að gera allt, sem í hans valdi stæði til þess að vekja athygli hinna flokkanna á því, hvernig ástatt væri, og gera tilraun til þess að fá samtök um, að þjóðinni yrði ekki hrundið út í nýja kosningabaráttu, sem hlyti að verða þess valdandi, að upplausnin héldi áfram. Framsfl. er það vel ljóst, að nauðsynlegar ráðstafanir verða ekki gerðar með kosningar fram undan.

Framsfl. ritaði því hinum flokkunum í byrjun þessa Alþingis og skoraði á þá að leggja stjórnarskrármálið til hliðar, þar sem hér væri komið, hætta kosningabaráttunni, en snúa sér í þess stað að lausn vandamálanna og mynda stjórn um framkvæmd þeirra. Erindi Framsfl. hefur verið birt, bæði í blöðum og útvarpi, og sé ég því ekki ástæðu til að lesa það hér upp, enda hef ég þegar komið inn á aðalefni þess.

Erindi þessu hafa allir flokkarnir svarað neitandi og lýst yfir, að þeir mundu ekki hætta við samþykkt stjórnarskrármálsins og að kosið verði á þessu hausti eða snemma í vetur. Því er ekki einu sinni að heilsa, að flokkarnir hafi svarað þessu erindi Framsfl. um að fá samtök um lausn nauðsynjamálanna kurteislega neitandi. Flokkarnir hafa látið blöð sín svara erindi Framsfl. með fúkyrðum og árásum á okkur fyrir það, að við skulum hafa látið okkur detta það í hug, að þeir vildu taka upp samstarf um nauðsynjamál þjóðarinnar í stað ófriðar, upplausnar og nýrra kosninga, og það sama hafa þm. flokkanna gert.

Þegar verið var að ræða erindi Framsfl. í hinum flokkunum, voru blöð sjálfstæðismanna t. d. látin birta hverja árásargreinina af annarri á okkur út af erindinu, og skulu hér aðeins tekin tvö sýnishorn af því, hvernig Sjálfstfl. telur sér sæma að ræða vandamálin á þessum örlagaríkustu tímum, sem þjóðin hefur lifað:

„Fals Framsóknar. Sjálfstfl. hefur lýst því yfir, að hann telji, að Alþingi því, sem nú situr að störfum, beri að ljúka sem fyrst, þannig að kosningar geti farið sem fyrst fram.

Frá þeirri yfirlýsingu sinni mun flokkurinn ekki hvika. Framsókn mun hins vegar gera allt, sem unnt er til þess að tefja þingið. Herbragð hennar er hið sama og áður, svikin, falsið og yfirdrepsskapurinn. Yfirlýsingar framsóknarmanna um, að þeir vilji ekki tefja störf þingsins, eru af þessum rótum sprottnar. Engan þarf að undra það, þó að þessir menn komi bráðlega með einhver tylliboð um samvinnu og samstarf að vandamálum þjóðfélagsins.“

„En Framsókn mun ekki verða að ósk sinni. Þjóðin þekkir of vel vélráð hennar og fals til þess, að tylliboð hennar verði tekin alvarlega“

Teningunum hefur nú verið kastað með neitandi svörum við erindi framsóknarmanna um samstarf. Flokkarnir færa fram þær ástæður fyrir neitun sinni, að þm. þeirra séu bundnir við afgreiðslu kjördæmamálsins, — þeir séu kosnir til þess að leggja á stjórnarskrárbreytinguna fullnaðarsamþykki, en hins vegar sé vel kleift að leysa jafn vel úr vandamálum þjóðfélagsins, þótt kosningar séu framundan. Þetta tvennt skal athugað örlítið, — hið síðara fyrst.

Sú fullyrðing forustumanna flokkanna, að kosningabarátta hafa engin áhrif á lausn vandamálanna, stríðir gegn því, sem vitað er og viðurkennt af öllum, sem nokkra reynslu hafa í stjórnmálum. Hver einasti Íslendingur veit t. d., að það ástand, sem skapaðist í stjórnmálum landsins á síðast liðnu ári og er undirrót þess, sem nú er að gerast, átti ekki sízt rætur sínar að rekja til þess, að samkomulagið um kosningarfrestunina var rofið. Vilja menn ekki líta í kringum sig og sjá, hvað núna er að gerast í landinu, t. d. í kaupgjaldsmálunum og sérstaklega hjá þeim flokkum, sem standa að ríkisstj. — Þykir mönnum ekki sennilegt, að þeir flokkar, sem beinlínis nærast á upplausnarástandinu, muni hafa mikinn áhuga á sterkum, jákvæðum ráðstöfunum fyrir kosningar? Þykir mönnum trúlegt, að þeir, sem byggja sína pólitísku tilveru á ágreiningi um dægurmál, muni gera harðsnúnar tilraunir til þess að koma á friði í landinu rétt fyrir kosningar? Það þarf ekki annað en lesa blöð sjálfra stjórnarflokkanna nú um þessar mundir til þess að sjá, hve dyggilega þeir ástunda eða hitt þó heldur að skapa það hugarfar og þann skilning, sem allir vita, að þarf að vera fyrir hendi, ef samstarf á að takast, og þær ráðstafanir að koma að fullu gagni, sem nú þyrfti að gera.

Nei, forustumenn upplausnarinnar vita það jafnvel og við, að áframhaldandi kosningabarátta leiðir ekki til farsældar eða úrlausnar vandamála, en vilja ekki viðurkenna það, og þeir hafa ekki þrek né vilja til þess að snúa við á þeirri leið, sem þeir eru á, enda þótt þeir hljóti að sjá, í hvert óefni stefnt er.

Framsfl. hefur gert það ljóst, — og gert það í tíma, svo að ekki verður um sakazt eftir á — , að frá hans sjónarmiði er af hálfu hinna flokkanna tekið á málunum með slíku ábyrgðarleysi með því að stofna enn til nýrra kosninga, að hann mun ekki tala þátt í eða styðja neina ríkisstj., sem að slíku stendur. Hins vegar mun þingflokkur framsóknarmanna að sjálfsögðu, hverjir sem með völdin fara, styðja hvert það mál, sem flokkurinn telur horfa til gagns fyrir þjóðina.

Það leynir sér ekki, að þeir flokkar, sem standa að kjördæmamálinu, hafa orðið slæma samvizku, og að þeim er ljóst, hversu mikilli gagnrýni framkoma þeirra sætir nú meðal landsmanna. Reyna þeir nú að draga athyglina frá sér með því að telja mönnum trú um, að Framsfl. hafi brugðizt skyldu sinni með því að leggja svo greinilega sem hann hefur gert ábyrgðina á þeirri upplausn, sem enn er í vændum, á þá flokka, sem ráða því, að áfram er haldið kosningabaráttunni. Þeir segja: Framsfl. vill ekki gegna skyldum sínum við þjóðfélagið, nema hann fái eitthvað í staðinn. — Ég dreg í efa, að ófyrirleitnari blekkingar hafi nokkurn tíma verið notaðar í stjórnmálabaráttunni en þessi málflutningur hinna sameinuðu flokka, til þess að draga athygli manna frá þeirri ábyrgð, sem þeir einir bera á því, hvernig komið er og hvert stefnt er.

Hvenær hefur Framsfl. skorazt undan því að eiga þátt í að leysa vandamál þjóðarinnar á Alþ.? Við höfum lýst yfir því skýrt og opinberlega, að það stendur ekki á okkur að styðja hvert nauðsynjamál, enda væri annað í lélegu samræmi við vinnubrögð Framsfl. undanfarið. Hitt er annað mál og því óskylt, að stuðningsflokkar kjördæmamálsins hafa tekið á sig ábyrgðina á stjórn landsins með því að virða að vettugi, bæði í vor og aftur nú, tillögur framsóknarmanna um það, hvernig taka skyldi á stærstu málunum. Þeir bera því ábyrgðina, og hún verður ekki frá þeim tekin.

Hér er komið að kjarna málsins og orsök þess taugaóstyrks, sem einkennir málflutning stjórnarsinna um þessar mundir. Þeim þykir það óþarfi af framsóknarmönnum að minna þessa þrjá flokka á, að þeir hafi nokkrar skyldur við þjóðina, að þeir taki á sig nokkra ábyrgð, þó að þeir fari sínar eigin leiðir alveg án tillits til þess, sem Framsfl. telur rétt. Þeir eru einnig búnir að uppgötva það, að það eru til fleiri mál en kjördæmamálið, og þó alveg sérstaklega hitt, að almenningur í landinu gerir sig ekki ánægðan til lengdar með þau svör af hálfu þessara flokka, þegar rætt er um stefnu stjórnarinnar í öðru en kjördæmamálinu, að allt sé í lagi — menn geti verið óhræddir, þeir eigi ekki samleið um neitt nema kjördæmamálið. Þetta er svarið, sem sjálfstæðismenn hafa haft á reiðum höndum, þegar talað hefur verið við þá um valdatöku þeirra með stuðningi sósíalista og Alþfl., og svarið, sem Alþfl. og Sósfl. hafa tilbúið, þegar rætt er um stuðninginn við Sjálfstfl.

Ástandið er nú orðið þannig í landinu, að þessi ábyrgðarlausu svör eru hnefahögg í andlit allra hugsandi manna, hvaða flokks sem þeir telja sig til. Það er ekki lengur hægt að leika þennan ábyrgðarlausa leik án þess að verða fyrir áfellisdómi þeirra, sem ekki eru blindir ofstækismenn. Nú spyrja menn um gervallt landið: Hvað ætla þeir flokkar, sem enn á ný standa saman um kjördæmamálið og enn nýjar kosningar, að gera til þess að stöðva það öngþveiti, sem nú ríkir í málefnum þjóðarinnar? Á enn að nota gömlu svörin: allt sé í lagi, ekkert að óttast. Þeir geti ekki komið sér saman um neitt nema kjördæmamálið. Halda menn, að þessi svör dugi nú eða séu viðeigandi eins og komið er?

Framsfl. hefur ekki ráðið rás viðburðanna á Alþ. eða í stjórn landsins undanfarna mánuði. Það hefur verið breytt þveröfugt við það, sem bann lagði til. Framsfl. ræður ekki afgreiðslu mála á þessu þingi, það hafa aðrir sameinazt um það, og enn hefur verið gengið þvert á þá leið, sem Framsfl. taldi þá einu færu. Þeir, sem hafa tekið forustuna í vor og nú — ef hægt er að tala um forustu í þessu sambandi — bera ábyrgðina, en þrátt fyrir það mun ekki standa á Framsfl. að styðja þá að hverju því máli, sem til bóta horfir.

Þá er rétt að athuga nokkuð aðra hlið á þessu máli. Flokkar þeir, sem standa að kjördæmamálinu, hafa haldið því á lofti til afsökunar á framferði sínu undanfarið, að framsóknarmenn væru þjóðhættulegir ofstopamenn og af því leiddi, að það yrði að sitja fyrir öllum öðrum málum, hve nauðsynleg sem þau annars væru, að minnka áhrif Framsfl. á landsmálin — setja hann á sinn stað, eins og það er orðað.

Er nú mögulegt fyrir nokkurn mann eða nokkurn flokk að auðmýkja sig freklegar en þessir menn gera nú með því að halda því fram, að ekki sé eða verði unnt að stjórna landinu, nema þessir þjóðhættulegu ofstopamenn taki að sér landsstjórnina?

Til hvers á þjóðin að fórna öllu því, sem fórnað verður, á altari upplausnarinnar á meðan verið er að knýja kjördæmamálið fram, ef trúa má nokkru orði af öllu því, sem þessir menn segja um afleiðingar þess fyrir landið og þjóðina, ef Framsfl. ekki telur sér fært að bera ábyrgð á stjórn eða takast á hendur stjórn landsins um nokkurra mánaða skeið?

Er hugsanlegt, að fram geti komið gleggri vitnisburður um ráðleysi þeirra flokka, sem standa að kjördæmamálinu, en hrópyrði þeirra um Framsfl. annars vegar og hrókaræður þeirra hins vegar um þann voða, sem þjóðinni sé búinn, af þeim sjálfum yrði falin landsstjórnin í nokkra mánuði enn, án íhlutunar Framsfl.?

Finnst mönnum þetta ekki glæsilegur vitnisburðar um nauðsyn þess að styrkja þessa flokka á Alþ., og að það sé vinnandi til, þótt eitt og annað verðmæti fari í súginn á meðan verið er að koma slíkri þjóðþrifaframkvæmd í verk?

Þá er rétt að athuga nokkuð þá fullyrðingu flokkanna þriggja, að niðurstöður kosninganna sýni það, að þjóðin fallist á kjördæmabreytinguna. Þeir segjast vera bundnir við að afgreiða kjördæmamálið af því, að 29 alþm. séu til þess kosnir, eins og þeir orða það.

Mér virðist þurfa meira en lítil brjóstheilindi til þess að túlka niðurstöður kosninganna einhliða á þennan veg. Það er staðreynd, að þeir flokkar tveir, sem beittu sér fyrir kjördæmamálinu, töpuðu mjög miklu fylgi meðal þjóðarinnar, og mun nærri sanni, að Sjálfst.- og Alþfl. hafi tapað 5500 atkv., og er það langmesta atkvæðatap, sem dæmi eru til um hér um langan tíma í stjórnmálasögu landsins. Hins vegar vann Framsfl. á, sá eini flokkur, sem stóð á móti kjördæmabreytingunni. Forkólfar þessara flokka vita jafnvel og ég, að fjöldi þeirra, sem kusu frambjóðendur þeirra nú, gerðu það þrátt fyrir afstöðu flokkanna til kjördæmamálsins, en ekki vegna hennar. Óánægjan með kjördæmamálið, og þá alveg sérstaklega óánægjan yfir að taka það upp á þessum tímum, var mjög almenn hjá liðsmönnum þessara flokka, þótt margir gerðu þá kórvillu að greiða atkv. sem flokksmenn, en ekki um kjördæmamálið. Gangur málsins virðist nú eiga að verða sá, að forustumenn flokkanna taki upp óvinsælt og ótímabært mál, sem fjöldamargir flokksmenn þeirra telja misráðið. Forustumenn og áróðursmenn flokkanna grátbiðja menn að láta ekki þessa óánægju með málið, sem um er kosið, valda því, að þeir snúi baki við flokkunum. Einstakir óánægðir kjósa um málið og kjósa gegn flokki sínum, aðrir eru hálfir og sitja heima. En flestir láta undan áróðursmönnunum og kjósa sem flokksmenn. Þegar svo kosningum er lokið, þá koma forustumenn flokkanna fram á Alþ. og segja: Við erum bundnir af kosningunum, meiri hl. þjóðarinnar vill þetta. Þó vita þessir menn, að flokkaskipun er nú svo komið hér á landi, að í almennum alþingiskosningum er ekki hægt að fá fram þjóðarvilja um einstök mál. Við þetta situr síðan, og hver bindur annan, þótt þjóðarnauðsyn krefjist þess, að málið sé lagt til hliðar. Þetta kjördæmamál hefur aldrei verið mál þjóðarinnar og verður ekki. Málið hefur verið pólitískur leikknöttur þeirra, sem á oddinum eru hafðir í flokkunum, en margir þeirra, sem eru óánægðir, hafa ekki lagt hönd að því að stöðva upplausnina og mega því sjálfum sér um kenna. En lítil mun verða framtíð lýðræðisins á Íslandi, ef slík víti verða ekki til varnaðar.

Það er bersýnilegt af kosningaúrslitunum, að kjördæmabreytingin tryggir ekki, og alls ekki til frambúðar, þær breytingar á skipan Alþingis, sem fyrir þingflokkunum vakti, er henni fylgja fram, og það er alveg óhætt að fullyrða, að eftir að menn nú sjá fram á þetta annars vegar, og hins vegar þann háska, sem þjóðinni er búinn, ef enn verður stofnað til nýrrar sundrungar, þá er andúðin gegn stjórnarskrárbraskinu enn almennari en nokkru sinni fyrr. Með þetta er heldur alls ekki farið dult. Hvar sem tveir menn eða fleiri hittast á förnum vegi, lýsa menn áhyggjum sínum yfir því, hvernig horfir í stjórnmálum og atvinnumálum landsins, — og það alveg án tillits til þess, hvaða flokkum menn fram til þessa hafa fylgt. Menn verða hins vegar að gera sér það alveg ljóst, að það er ekki nóg að láta skoðanir sínar koma fram í einkaviðtölum. Menn verða að hafa þrek til þess að skilja við þá flokka, sem hafa brugðizt trausti þeirra. Túlkun flokkanna á niðurstöðum nýafstaðinna alþingiskosninga, sýnir gleggra en flest annað, hvert hin blinda flokksþjónusta leiðir.

Fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott, segir gamalt máltæki. Nú hefur verið ákveðið, að alþingiskosningar fari fram seint í haust. Það hlýtur að hafa í för með sér margvíslegt tjón, og er óverjandi með öllu, eins og við framsóknarmenn höfum sýnt fram á, og ég fullyrði, að fyrir slíkri ráðstöfun er enginn áhugi hjá þjóðinni. En af þessu hefur þó eitt gott leitt. Menn hafa nú séð vinnubrögð flokkanna, sem standa að kjördæmabreytingunni, og alveg sérstaklega vinnubrögð Sjálfstfl., sem hefur tekið að sér forustuna í þeim leik með fjöregg þjóðarinnar, sem nú er leikinn. Vilja menn draga réttar ályktanir af því, sem þeir hafa heyrt og séð? Hafa menn þrek og drengskap til þess að meta málstað meira en flokksfjötra, til þess að fleygja frá sér gömlum fordómum, til þess að meta þörf þjóðarinnar meira en gömul kunningjasambönd? Ef nægilega margir alþingiskjósendur á Íslandi hafa vilja og þrek til þess að taka afstöðu í alþingiskosningunum, sem framundan eru, eftir því einu, hvernig þeir líta á þá atburði, sem nú eru að gerast og hafa verið að gerast í stjórnmálum landsins, — þá gæti svo farið, að því, sem fórnað hefur verið síðustu mánuðina, yrði ekki til einskis fórnað.

Lokabaráttan í kjördæmamálinu er enn óháð. Hún verður háð í haust, úr því að þeir flokkar, sem að stjórnarskrárbreytingunni standa, hverfa ekki frá fyrirætlunum sínum um að knýja málið fram. Baráttan verður háð um allt land, þar sem fólkið í dreifbýlinu mun kappkosta að efla Framsfl. til þess að draga úr áhrifum kjördæmabreytingarinnar. En alveg sérstaklega mun lokabaráttan verða háð í tvímenningskjördæmum landsins, þar sem með löggjöf á að tryggja Sjálfstfl. annað þingsætið, enda þótt hann hafi ekki nema rúman þriðjung atkv. Þannig verður lokabaráttan í kjördæmamálinu háð, og allir, sem vilja vinna gegn þeirri upplausn í stjórnmálum, sem þróazt hefur undanfarið og þróast mun fram yfir næstu kosningar, munu leggja lóð sitt á vogarskálina með framsóknarmönnum, um leið og þeir hrinda árásinni á rétt dreifbýlisins til þess að eiga fulltrúa á Alþingi.

Eins og öllum er kunnugt, fóru alþingiskosningar fram 5. júlí s. l. Þess hefði mátt vænta, að ríkisstj. hefði sýnt svo mikinn þegnskap og tekið svo mikið tillit til sveitanna, að hún hefði reynt að hraða afgreiðslu málsins, ef hún var á annað borð ráðin í að knýja það fram. Það hefði átt að mega treysta því, að almennar kosningar til Alþ. að nýju yrðu látnar fara fram á þeim tíma, sem sæmilegastur gæti talizt fyrir fólkið í sveitum landsins, úr því sem var að ráða. En því fer alls fjarri, að ríkisstj. hafi haft þetta sjónarmið. Eigi verður annað séð en viljandi hafi verið að því unnið að draga kosningarnar fram á haust og jafnvel fram á vetur. Heilli viku var eytt í það að telja atkvæðin í kjördæmunum, sem hefði ekki þurft að taka nema tvo sólarhringa, — og engar ráðstafanir voru gerðar til þess að flýta endanlegum útreikningi kosninganiðurstöðunnar og skiptingu uppbótarþingsætanna. Þar á ofan var svo Alþingi ekki kvatt saman fyrr en 4. ágúst og þar með endanlega loku fyrir það skotið, að kosningar yrðu fyrr en um eða eftir miðjan október. Þannig ætla nú stjórnarflokkarnir að reka smiðshöggið á kjördæmamálið. Þeim mun væntanlega eftir allt saman ekki hafa þótt líkurnar fyrir flokkslegum árangri af kjördæmabreyt. meiri en svo, að vissara væri að þreyta kosninguna á þeim tíma, sem þeir gátu átt von stuðnings íslenzkrar haust- og vetrarveðráttu við illan málstað. Er þessi endir á baráttunni um kjördæmamálið í fullu samræmi við upphafið. Hitt er svo annað mál, að nokkuð getur orkað tvímælis, hvort kjósendur í byggðum landsins reynast jafn geðlausir og forkólfar kjördæmamálsins gera ráð fyrir. Mætti vel svo fara, að ýmsum hlaupi kapp í kinn, þegar enn er nú höggvið í hinn sama knérunn, og að svo kynni að skipast, að þetta síðasta bjargráð stjórnarflokkanna í kjördæmamálinu, — þetta snjallræði til þess að auka rétt dreifbýlisins, eins og það heitir auðvitað á máli stjórnarflokkanna, — reyndist þeim eigi miklum mun haldbetra en hin fyrri, sem grínið hefur verið til.

Það hefur verið gefið í skyn í blöðum andstæðinganna og einnig hér í umr., að Framsfl. vilji, að nauðsynjalausu, tefja meðferð stjórnarskrármálsins á Alþingi. Þess vegna hafi hann viljað vísa frv. til nefndar í neðri deild og krafizt útvarpsumræðna um málið. Í tilefni af þessu vil ég lýsa yfir eftirfarandi fyrir hönd Framsfl.:

Framsfl. óskaði eftir nefndarskipun vegna þess, að hann taldi nauðsynlegt að ráðrúm fengist til að reyna það til þrautar, hvort náðst gæti samkomulag um að láta kosningabaráttu niður falla og að þingið sneri sér að lausn aðkallandi vandamála. Hann óskaði útvarpsumræðna, til þess að þjóðin gæti fengið tafarlaust að vita úrslit þeirra samkomulagsumleitana og þau rök, sem það mál varða. Nú er hins vegar fullreynt, að frv. þetta verður knúið fram í þinginu, og þar með nýjar kosningar, og frekari umr. þar með tilgangslausar. Ég lýsi þess vegna yfir því fyrir hönd Framsfl., að hann muni enga ósk bera fram um, að málinu verði vísað til nefndar í efri deild og leyfa fyrir sitt leyti hvers konar afbrigði frá þingsköpum, sem ríkisstj. kann að fara fram á, til þess að hraða afgreiðslu málsins frá þinginu. Sama máli gegnir um frv. um afnám gerðardómslaganna, sem einnig er sýnt, að muni ná fram að ganga með liðstyrk stjórnarflokkanna þriggja. Framsfl. mun einnig fyrir sitt leyti leyfa afbrigði frá þingsköpum til að hraða meðferð þess máls, og láta sér nægja þá meðferð í nefnd, sem það þegar hefur hlotið í efri deild. Er þá jafnframt gengið út frá því, að ríkisstj. hlutist til um, að jafnhliða verði lokið afgreiðslu þeirra mála annarra, sem hún vill stuðla að, að fram gangi á þessu þingi, og til þess eru líkleg, svo að þingstörfum megi verða lokið sem allra fyrst — þar sem líta verður svo á, að langt þinghald eins og nú standa sakir, sé þarflaust og alþjóð manna ógeðfellt. Ætti því þinghaldi að geta orðið lokið næstu daga, en ríkisstj. hefur lýst yfir því áður, að hún gerði ráð fyrir þinghaldi til ágústmánaðarloka.