19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Finnur Jónsson:

Mér virðist þurfa meira en meðal blygðunarleysi til þess að koma fram fyrir alþjóð eins og hv. þm. V.-Sk., Sveinbjörn Högnason, gerði og eins og hv. 1. þm. S.-M., Eysteinn Jónsson, hefur gert og ásaka alla aðra flokka en Framsfl. fyrir það, hvernig komið er í dýrtíðarmálunum og vinnumálunum í landinu. Framsfl., sem þessir tveir þm. sitja hér á þingi fyrir, hefur þó einmitt átt ráðh. dýrtíðarmálanna, frá því að ófriðurinn hófst og þangað til nú fyrir þremur mánuðum, og þessi ráðherra, hv. 1. þm. S.-M. (EystJ), rækti starf sitt þannig, að í stjórnartíð hans óx dýrtíðin örar hér á landi en í nokkru öðru landi álfunnar og það án þess, að nokkur grunnkaupshækkun færi fram á þeim tíma. Hann hefur sjálfur met allra ráðh. í aukningu dýrtíðarinnar, þótt hann kasti steinum að öðrum. Ástæðan fyrir þessari öru dýrtíðarhækkun var að mestu leyti sú, að þessi fyrrv. ráðh. og flokkur hans sáu aldrei nein önnur ráð gegn dýrtíðinni en þau að krefjast þess, að launum verkamanna yrði haldið niðri með lögum. Þessi ofsókn Framsfl. náði hámarki með gerðardómsl. Glundroðinn í dýrtíðarmálunum stafar fyrst og fremst af því, að Framsfl. gekk í ríkisstj. erindi stríðsgróðamanna, sveik vinstri stefnuna í landinu, sveikst um að taka stríðsgróðann af milljónerunum, en gerði í stað þess allt, sem hann gat, til þess að velta þunga dýrtíðarinnar yfir á almenning.

Sjálfstfl. tók þessari íhaldsstefnu Framsóknar fegins hendi, og ef Alþfl. hefði eigi talið tímabært að bera fram frv. um réttlátari kjördæmaskipun, mundi samvinna þessara flokka um að kaupkúga launastéttirnar hafa haldið áfram. Sjálfstfl. er Framsfl. samsekur um glundroðann og vandræðin í dýrtíðarmálunum. Það má teljast eðlilegt, að Sjálfstfl. sem íhaldsflokkur með alla. stríðsgróðamennina innan sinna vébanda slái skjaldborg um stríðsgróðann, en af hálfu Framsfl. eru aðgerðir hans í dýrtíðarmálunum og aðgerðarleysi hans gagnvart stríðsgróðanum, meðan hann sat í ríkisstj., svik við kjósendur hans. Samvinna þessara flokka í ríkisstj. var hættuleg alþýðu til sjávar og sveita.

Af öllum þeim umr., sem fram hafa farið í blöðum, útvarpi og á þingmálafundum, ætti öllum kjósendum að vera ljóst orðið, hvernig kjördæmamálið og gerðardómsfrv. voru tvinnuð saman.

Með kjördæmaskipun þeirri, sem gildir, þangað til breyt. þær, er síðasta Alþ. samþykkti á stjskr., hafa verið staðfestar, hefur Framsfl. getað ráðið óeðlilega miklu um úrslit mála, miðað við tölu kjósenda sinna. Úr þessu verður nokkuð bætt með þeim breyt. á kjördæmaskipuninni er nú verða gerðar. Þetta mikla vald Framsfl., miðað við kjósendatölu, gat verið þolandi, á meðan Framsfl. misbeitti því ekki til þess að koma fram málum, sem mikill meiri hl. kjósenda var andstæður, en þegar Framsfl. tók það ráð ásamt Sjálfstfl. að setja hin svonefndu gerðardómsl., þvert ofan í hagsmuni og vilja verkalýðssamtakanna, var með öllu óverjandi að láta honum haldast lengur uppi að hafa meiri umráð en kjósendatala hans leyfði um úrslit mála á Alþingi. Með gerðardómslögunum sameinuðust íhaldsöflin í Framsfl. og Sjálfstfl. um hreinar ofbeldisráðstafanir gegn verkalýðnum og launastéttunum. Þessi lög litu út fyrir að vera upphaf kúgunarherferðar, sem enginn gat séð fyrir um, hvert leiða mundi. Forsprakkar þessara flokka voru hreyknir af gerðardómslögunum og kepptust við að lofa þau. Lögin voru sett þrátt fyrir aðvaranir Alþfl. og þvert ofan í alla samninga um samvinnu í ríkisstj. Ráðh. Alþfl. var, svo sem kunnugt er, beittur þeim fantabrögðum, að honum var neitað að gera grein fyrir afstöðu sinni í útvarpi 8. jan. s. l. Hrifning forustumanna Sjálfstfl. og Framsfl. yfir þessu fóstri sínu átti sér engin takmörk. Núverandi forsrh., Ólafur Thors, lét svo um mælt í útvarpsræðu frá Alþingi 11. marz 1942, að Alþfl. hefði flutt rangfærslur og blekkingar um gerðardómslögin, — „þessa löggjöf, sem þó áreiðanlega verður, þegar fram líða stundir, talin merkasta löggjöf síðari ára og sú lagasetning, sem öllu öðru fremur stefni að því að bægja vá frá dyrum verkamanna og annarra launastétta landsins.“

Enn fremur var þessi sami hæstv. ráðh. hæstánægður með undirtektir almennings undir þessa lagasetningu og sagði í þessari sömu ræðu: „andstaðan gegn l. hefur farið þverrandi með hverjum degi“. Svona var framsýni og hyggindi þessa ráðh. Þáv. forsrh., Hermann Jónasson, sagði, að hækkun kaupgjaldsins væri þjóðarhætta, sem hann ætlaði að afstýra með þessari dæmalausu lagasetningu.

Hnífurinn virtist ekki ganga á milli íhaldsaflanna í þessum tveimur flokkum í þessu máli. Það var augljóst, að ætlunin var að koma með þeim í veg fyrir, að alþýða manna, verkamenn, bændur, iðnaðarmenn, sjómenn og aðrar launastéttir, fengju hag sinn hið minnsta bættan, á sama tíma og milljónirnar runnu í vasa einstakra manna. Ég minnist þess, að þáv. forsrh, (HermJ) fór í þingræðu mörgum orðum um það, hve fráleitt það væri, að almenningur gæti gert sér nokkra hugmynd um að bæta kjör sín á stríðstímum, sbr. og nál. hans á þskj. 66 á þessu þingi. Þessi afturhaldssemi Framsfl. kom Sjálfstfl. í góðar þarfir, þó að hann hafi nú látið síga undan þunga launastéttanna með kaupkúgunarkröfurnar og sé að því leyti, af sinni eigin valdanauðsyn, skárri en Framsfl., sem enn heldur fast við kaupkúgunarkröfur sínar. Sjálfstfl. tók íhaldsöflin í Framsfl. í þjónustu sína.

Örlög launastéttanna virtust ráðin. Þá tók Alþfl. það ráð að koma fram með till. um réttlátari kjördæmaskipun, bæði vegna þess að hentugur tími virtist til þess að koma málinu fram, vegna kosninga þeirra, er fyrir lágu, og til þess að sprengja hina þjóðhættulegu ofbeldis- og kúgunarstefnu íhaldsaflanna í Framsfl. og Sjálfstfl. í sundur. Og þetta tókst. Kúgunarráðstafanirnar, sem átti að framkvæma til þess að halda uppi gerðardómslögunum, runnu út í sandinn. Vopnasendingin, sem fyrrv. forsrh. (HermJ) hafði pantað, vélbyssurnar, táragasið og skammbyssurnar, voru ekki notaðar. Gerðardómslögin komust að vísu fram á Alþingi, en þau voru brotin gersamlega niður, eins og Alþfl. hafði sagt fyrir, að verða mundi. Með gerðardómslögunum voru verkalýðsfélögin svipt öllum rétti, sem þau höfðu samkvæmt lögum. Þau voru sett út fyrir lög og rétt. Þetta er stærsta synd, sem höfundar gerðardómslaganna hafa drýgt í opinberum málum. Í stað skipulagsbundinna verkalýðsfélaga, sem berjast fyrir rétti meðlima sinna á löglegan hátt og þannig, að heildarsamningar fáist og vinnufriður til lengri tíma, tíðkast hinn svonefndi smáskæruhernaður. Hver vinnuhópur, svo að segja, hefur sín sérstöku kjör. Samningum er sagt upp með 7 daga fyrirvara eða fyrirvaralaust, og í þeim er ekkert öryggi, hvorki fyrir verkamanninn, atvinnurekandann né þjóðfélagið. Þetta er árangurinn af gerðardómslögunum, sem samsteypustjórn Framsfl. og Sjálfstfl. vænti sér svo mikils af. Alþfl. sagði þetta fyrir, að svona mundi fara. Hann barðist eins og hann gat gegn því að þessi löggjöf yrði sett, og nú er orðið deginum ljósara, að allt hefur farið eins og Alþfl. sagði fyrir um. Má í því efni vitna til rökstuddrar dagskrár, er þm. Seyðf. (HG) flutti við 1. umr. gerðardómsl. á Alþingi 12. marz 1942. Hún er svo hljóðandi:

„Þar sem bráðabirgðalögin um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum, sem leitað er staðfestingar á með frv. þessu, eru ekki sett á þingræðislegan hátt, svipta verkalýðsfélögin og launastéttirnar yfirleitt sjálfsögðum, löghelguðum samningsrétti, valda stórkostlegu þjóðfélagslegu misrétti, spilla vinnufriði og eru áhrifalaus gegn dýrtíðinni, telur deildin rétt að víkja frv. frá umr. þegar á þessu stigi og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Með greiddu atkv. Alþfl. og kommar í Nd. Enn fremur get ég í þessu sambandi vitnað til niðurlags í nál. minni hl. allshn. Nd., frá fulltrúa Alþfl. í allshn., dags. 24. marz s. l. Þar segir:

„Þegar ríkisstjórnin loks tekur rögg á sig, ræðst hún ekki á dýrtíðina, heldur kaupgjaldið. Hjá henni snýst baráttan ekki gegn dýrtíðinni, heldur gegn launastéttunum. Innflutningur erlends gjaldeyris, sem keyptur er óeðlilega háu verði, hefur ásamt úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar í dýrtíðarmálunum skapað ástand, sem áður en varir veldur vandræðum. Óhemju auður hefur á skömmum tíma safnazt á hendur örfárra manna. Í stað þess að taka þennan stríðsgróða og nota hann til dýrtíðarráðstafana og jafnframt leyfa honum að nokkru leyti að dreifast út á meðal almennings í hækkuðu kaupgjaldi og bættum kjörum almennings, hefur ríkisstjórnin tekið upp í frv. því, er fyrir liggur, þá óheillavænlegu stefnu að láta stríðsgróðann halda áfram að renna til milljóneranna með því að banna almenningi að bæta kjör sín, samhliða því sem verðlagseftirlit hennar er hik eitt og kák, sem eigi kemur að gagni. Frv. það, er fyrir liggur, miðar að því að lögfesta þessa stefnu, sem jafnvel á friðartímum væri óréttlát og skaðleg, en á ófriðartímum leiðir til glötunar“.

Þessi ummæli um gerðardómslögin þurfa engra skýringa við. Gerðardómslögin hafa verið í gildi síðan 8. jan. s. l. Þau hafa komið af stað slíkum glundroða, óréttlæti og vandræðum í öllum kaupgjalds- og vinnumálum, að slíks eru engin dæmi til áður hér á landi. Nú leggur Sjálfstfl. til, að þessi merkasta löggjöf síðari ára, eins og hæstv. forsrh., Ólafur Thors, komst að orði, verði afnumin sem allra fyrst. Verkalýðurinn hefur, undir forustu Alþfl., hrundið þessari stórskotaárás á mannréttindi alþýðunnar. Árás þessi var hættuleg, en hún hefði þó orðið enn hættulegri, ef Alþfl. hefði eigi tekizt að kljúfa íhaldsöflin í Framsfl. og Sjálfstfl. sundur með kjördæmamálinu. Vinnst tvennt við það. Hið fyrra var, að gerðardómslögin verða afnumin fyrr en ella, og hið síðara réttlátari kjördæmaskipun. Hvort tveggja er mikils um vert.

Gerðardómslögin voru orsök þeirra vandræða, ranglætis og glundroða í kaupgjalds- og vinnumálum, að til fullrar upplausnar hlaut að leiða innan skamms. Nú verða þau afnumin. Nú geta verkalýðsfélögin aftur orðið samningsaðilar. Óvissan, glundroðinn og smáskæruhernaðurinn hverfur, og í stað þess koma heilbrigðir launasamningar milli launþega og atvinnurekenda. Þá fæst væntanlega vinnufriður í landinu, eins og nauðsynlegt er, ekki sízt á þessum tímum. Vegna ófriðarástandsins var þetta alveg knýjandi nauðsyn. Sama máli er að gegna um umbætur á kjördæmaskipuninni. Þessar umbætur eiga að tryggja það, að vilji kjósenda komi betur í ljós við kosningar til Alþingis en verið hefur. Á ófriðartímum þarf að gera margvíslegar ráðstafanir, sem komið geta í bág við hagsmuni einstaklinga. Þeirra hagur verður að víkja fyrir hagsmunum heildarinnar. Þegar af þeim ástæðum er alveg nauðsynlegt, að meiri hl. Alþingis hafi vilja meiri til. kjósenda með sér á hverjum tíma. Sérréttindi einstakra flokka eiga ekki og mega ekki ráða. Breytingarnar á kjördæmaskipuninni eiga að tryggja þetta.

Afnám gerðardómslaganna samfara breyttri kjördæmaskipan, eru þess vegna sjálfsagðar og réttmætar ráðstafanir til þess að reyna að tryggja innanlandsfrið á ófriðartímum. Hvort tveggja voru grundvallarskilyrði fyrir því, að nokkur heilbrigð samvinna gæti átt sér stað milli flokka, til þess að leysa vandamálin, sem með hverjum degi, sem líður, geta orðið örðugri viðfangs.

Sundurþykkju okkar Íslendinga hefur löngum verið við brugðið. Við þurfum að útrýma henni, en það getum við því aðeins, að landinu sé stjórnað af viti og réttsýni. Meðan fjölmennir stjórnmálaflokkar skoða það skyldu sína að halda uppi hörðum árásum á lífskjör einstakra stétta og þá helzt þeirra, sem minnst mega sín, en láta stríðsgróðann flæða í milljónatali í vasa einstakra manna, svo sem stefnt var að með gerðardómslögunum og tveggja flokka stjórn Íhalds og Framsóknar, var útilokað, að nauðsynlegur innanlandsfriður fengist. Augu margra virðast nú opin fyrir þessu. Alþfl. hefur á undanförnum þingum flutt framkvæmanlegar og réttlátar tillögur til úrlausnar á dýrtíðarmálunum og öðrum aðkallandi vandamálum. Þær tillögur hafa eigi náð samþykki hinna flokkanna. Nú á næstunni mun koma í ljós, hvort ástandið í landinu hefur tekið þeim breytingum, að á tillögur Alþfl. verði hlustað. En hvað sem því líður, mun Alþfl. ganga til kosninga n. k. okt. í þeirri von, að hans stefna sigri, sú stefna, að landinu sé stjórnað með hag allrar alþýðu fyrir augum og undirbúningur hafinn undir það, að upp geti risið hér á Íslandi að ófriðnum loknum nýtt og betra þjóðfélag, byggt á lýðræðis- og réttlætisgrundvelli jafnaðarstefnunnar.