26.08.1942
Neðri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

28. mál, kosningar til Alþingis

Bjarni Ásgeirsson:

Mig langar til að bera fram brtt. við 113. gr., en þessi gr. er um úrskurð vafaatkvæða. 2. málsgr. hljóðar þannig, með leyfi forseta: „Ef kjörstjórnarmaður eða umboðsmaður frambjóðanda eða flokks óskar, skal úrskurða ágreiningsseðla, jafnóðum og þeir koma fyrir, og stöðva talningu atkvæða, unz úrskurður er felldur.“ Eins og hv. þm. heyra, er hér gert ráð fyrir tvenns konar aðferðum við úrskurð vafaatkvæða : að úrskurða þau, strax og þau koma fyrir og svo — og það er gert ráð fyrir því sem aðalaðferð að geyma þangað til síðar að úrskurða þau. Nú er þessum aðferðum beitt báðum, en ég álít, að það ætti að vera alveg sjálfsögð regla að úrskurða vafaatkvæði, þegar þau koma fyrir, og tel eðlilegast, að kosningal. segi ótvírætt fyrir um þetta, því að það gefur að skilja, að kjörstjórnir eru settar í meiri vanda með að úrskurða vafasama seðla, þegar það liggur fyrir að lokinni kosningu, að á þessum seðlum geti það oltið, hver verði þingmaður. Þegar það veltur á einum eða tveimur seðlum, er kjörstjórnin sett í meiri vanda, og meiri hætta verður á, að ekki sé gætt þess réttlætis eða hlutleysis, sem þarf. Þess vegna er eðlilegt, að í gr. standi, að vafaseðla skuli úrskurða, jafnóðum og þeir koma fyrir, en ekki aðeins heimila það, eins og gert er í gr. Þessi brtt. mín er eingöngu um þetta atriði, og vildi ég biðja hæstv. forseta fyrir hana.

Það kemur ekki þessu máli við, en ég kann ekki almennilega við ummæli, sem féllu hjá hv. 4. landsk. (ÁkJ), sessunaut mínum, um kaupfélagsstjóra landsins. Ég kann ekki við, að alltaf sé vegið í sama knérunn, og þegar hann vill nefna dæmi um óheiðarleik, nefnir hann alltaf kaupfélagsstjórana. Hann gerði þetta í sinni síðustu ræðu, og hann gerði það í útvarpsumr. um daginn. Það situr nú ekki sérstaklega á mér að taka svari kaupfélagsstjóranna, þar sem þeir sitja hér þrír í þessari hv. deild, já, fjórir, einn úr flokki hv. þm., tveir framsóknarmenn og einn sjálfstæðismaður, en ég vil segja það, að ég hef ekki þekkt það, að kaupfélagsstjórar hafi beitt valdi og kúgun, hvenær sem þeir hafa komið því við. Ég verð að segja það um þann kaupfélagsstjóra, sem ég þekki bezt, sem er í Borgarnesi, að hann er framsóknarmaður, og meiri hl. félagsmanna er framsóknarmenn. Samt starfa kommúnistar í félaginu, og margir þeirra eru duglegir áróðursmenn, en það hefur aldrei verið blakað við þessum mönnum, þótt þeir standi á öndverðum meið við meiri hl. félagsins. Það er því algerlega óverðskuldað að vera með sífelld brigzl um þessa menn. Ég held, að enginn þessara fjögurra heiðursmanna, sem hér sitja, eigi þetta skilið og aðrir ekki heldur. Ég vildi því mótmæla þessu og mælast til þess við hv. sessunaut minn, að hann legði þennan leik niður.