02.09.1942
Efri deild: 21. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

28. mál, kosningar til Alþingis

Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég verð að játa, að ég skildi ekki fyllilega upphaf ræðu hv. 9. landsk., þegar hann var að tala um straumhvörf Sjálfstfl. viðvíkjandi bráðabirgðaákvæðinu. — Ég veit ekki annað en að í Nd. hafi skoðanir um þetta atriði ekki verið skiptar eftir flokkum, og ég get sagt það, hvað mér sjálfum við kemur, að ég hef alltaf verið opinn fyrir því að hafa 2 kjördaga í sveitum, og í gömlum þingtíðindum má áreiðanlega sjá, að svo er, svo að ekki er hægt að tala um straumhvörf hjá mér í þessu máli. Ég tel tvímælalaust, að hafa beri tvo kjördaga í sveitum. — Í raun og veru er ekki mikið, sem á milli ber nál. meiri hl. hv. allshn. og bráðabirgðaákvæðinu, eins og það kom frá hv. Nd., því að í báðum tilfellum er um tvo kjördaga að ræða, aðeins er í nál. meiri hl. ekki gert ráð fyrir, að það séu tveir dagar í röð, og ekki fast ákveðnir tveir dagar.

Viðvíkjandi því, sem hv. 9. landsk. drap á, að það gæti haft áhrif á kosninguna seinni daginn, að þá væri búið að telja í bæjunum, vil ég segja, að ég tel ekki svo mikla hættu stafa af þessu, því að það hefur t. d. sýnt sig, að engin áhrif hefur það haft á kosningu í Rvík, þótt atkvæðatalningu hafi verið lokið og úrslit hirt í ýmsum kjördæmum, áður en kosningu væri lokið í Rvík. — Svo er líka mjög auðvelt að fyrirbyggja þetta með því að láta kosninguna fara fram í sveitunum einum fyrri daginn, og það er á valdi þess, sem ákveður, hvenær kosningar skuli fram fara. Með því móti yrði kosningu lokið alls staðar á sama tíma. — Ég tel sjálfsagt að hafa tvo kjördaga í röð, því að það gegnir öðru máli nú, þegar kosningar fara fram að hausti og allra veðra er von, heldur en á sumardegi.