07.09.1942
Neðri deild: 22. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Pálmi Hannesson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði, að bæði fyrrv. og núv. ríkisstj. hefði þótt orka tilmælis, að rétt væri að spyrja aðra um þær leiðir, sem farnar væru í sjálfstæðismálinu. Ég vil taka það fram, að þessi núv. hæstv. ríkisstj. tók það upp hjá sér að flytja þetta mál hér til þess að bera það fram til sigurs. Ég held því fram, að um tvær leiðir hafi verið að velja, annars vegar að spyrja hvorki kóng né prest, og afleiðingin af því gat ekki verið nema ein, að halda sitt strik, þó að Pétur eða Páll segði nei. Hin var að prófa ísinn og aka svo seglum eftir þeim vindi, sem blési í þeim efnum. En hæstv. forsrh. hefur farið þá leið að spyrja enga, en láta svo undan síga, ýmsar aths. komu fram. Þetta tel ég, að hafi verið óheppilegt. Það er nokkuð djúpt gróið í okkar vitund, að menn þurfi að vita fótum sínum forráð, en það hefur ekki verið gert hér.

Hæstv. forsrh. lét sér sæma að víkja að því, að ég mundi vilja reka erindi Dana, og vitnaði í það, sem ég hafði sagt, að mér þætti heldur lítið að láta þurfa aðeins einfaldan meiri hl. við þjóðaratkvgr. til þess að samþ. þetta mál. En þegar hann talar um dansklund, gæti manni orðið fyrir að hugsa, að kannske helmingur þessa hæstv. ráðh. mundi vera á móti þessu máli, en helmingurinn með.