07.09.1942
Neðri deild: 23. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

80. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti. Stjskrárn. hefur haldið fund um málið, og má segja, að þó að nál. séu á tveimur blöðum. beri ekki svo mikið á milli. Málið hefur verið rakið rækilega og hefur, eins og kunnugt er, verið íhugað vandlega á meðal þingheims á allar lundir. N. skírskotar um efni og grg. bæði til þess, sem prentað er sem aths. við frv., og þess, sem hæstv. forsrh. hefur tekið fram. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. Minni hl. leggur ekki á móti því, en telur sig mundu sitja hjá við atkvgr. Geta flm. málsins, þ. e. hæstv. ríkisstj., vel við það unað eftir atvikum, því að Framsfl. hefur ávallt tekið þá afstöðu að þykjast ekki vilja blanda sér um of í það mál, sem á að vera mál allrar þjóðarinnar.

N. varð öll sammála um vatill. við 1. gr., þó að segja megi, að hún sé óþörf. En hún er óskaðleg og tekur fram það, sem áður er búið að slá föstu, að sé ótvíræður tilgangur þingsins. Viðbótin hljóðar svo: „Þó er óheimilt að gera með þessum hætti nokkrar aðrar breyt. á stjórnarskránni en þær, sem beinlínis leiðir af sambandsslitum við Danmörku og því, að Íslendingar taka með stofnun lýðveldis til fullnustu í sínar hendur æðsta vald í málefnum ríkisins.“

Það væri æskilegt, að þetta mál gengi áfram ím frekari umr. Ég mun verða mjög stuttorður, ef ekki koma fram sérstakar aths. Ég vænti, að hv. minni hl. muni ekki heldur tefja málið.

Eins og hæstv. forsrh. hefur tekið fram og er bert, er með þessari breyt. þegar á næsta hausti og hvenær sem með þarf kleift að gera fullnaðarskipun á höfuðatriði þessara mála. Það er tilgangurinn, og þetta mál er svo varið og tímarnir eru svo gerðir, að það getur verið lífsnauðsyn að vinda bráðan bug að þessari fullnaðarskipun. Þess vegna er þetta ákjósanleg leið.